23.8.2007 | 15:02
Áframhaldandi hernaðarstefna á "vitrænum forsendum"
Helsti talsmaður Samfylkingarinnar í utanríkismálum, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann útskýrir stefnubreytingu flokks síns í utanríkismálum. Þar má skilja, að nú þegar flokkurinn er kominn í ríkisstjórn verði að taka á utanríkis- og varnarmálum á "vitrænum forsendum".
Og hverjar eru hinar "vitrænu forsendur"? Jú, það er óbreytt hernaðarstefna, áframhaldandi stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásarstríð í Írak, hernaðarbrölt í Afganistan og þannig má vafalaust áfram telja. Hefur hann uppi allmörg orð um það að friðarstefna Vinstri grænna sé ekki háð á "vitrænum forsendum" - og hvað er þá orðið að málflutningi og baráttu margra góðra hernaðarandstæðinga og friðarsinna sem störfuðu í Alþýðubandalaginu og Kvennalistanum á sinni tíð? Hvert hafa örlögin leitt það ágæta fólk í sameiningunni við Alþýðuflokkinn?
Blasir ekki við að það er gamla heimsvaldastefnan, hernaðarhyggjan og undirgefni við Bandaríkjastjórn, sem var aðalsmerki Alþýðuflokksins, sem hefur orðið ofan á innan Samfylkingarinnar? Og þá stefnu er talsmaðurinn að verja í Morgunblaðsgreininni. Sú stefna sem flokkurinn fylgir nú, var að vísu ekki svo einbeitt og augljós í aðdraganda kosninga og meðan flokkurinn var í stjórnarandstöðu. Háværar kröfur forystumanna flokksins um uppgjör vegna Írak eru að engu orðnar og hafa dáið drottni sínum.
Það er hins vegar vita gagnslaus málsvörn hjá nafna mínum að ætla að útskýra stefnubreytingu Samfylkingarinnar með því að draga fram Norðmenn og Dani sem skálkaskjól. Það hefur engin stefnubreyting orðið hjá íslenskum stjórnvöldum við ríkisstjórnarskiptin, eins og kjósendum var lofað að yrði ef Samfylkingin kæmist í ríkisstjórn, og það leyfum við okkur í VG að gagnrýna. Stjórnarflokkur verður að þola það að vera minntur á kosningaloforðin og þegar þau eru að engu höfð er ekki við neinn að sakast nema hann sjálfan. En sannleikanum verður hver sárreiðastur, eins og sést glöggt á málsvörn varaformanns utanríkismálanefndar í Morgunblaðinu í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)