30.8.2007 | 12:19
Einkavæðing Orkuveitunnar yfirvofandi
Meirihluti borgarstjórnar hyggst óska eftir því að iðnaðarráðherra beiti sér fyrir því að lögum um Orkuveitu Reykjavíkur verði breytt í hlutafélag. Eðlilegri beiðni minnihlutans í stjórn Orkuveitunnar um að fresta málinu var hafnað af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og sýnir það best einbeittan ásetning flokkanna um að einkavæða fyrirtækið.
Borgarstjórinn í Reykjavík, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hefur margsinnis lýst því yfir í borgarstjórn og á öðrum opinberum vettvangi að ekki standi til að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur. Breyting á opinberu fyrirtæki í hlutafélag hefur þó ævinlega verið undanfari einkavæðingar. Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og F-listans í borgarstjórn hafa á hinn bóginn gefið lítið fyrir yfirlýsingar borgarstjóra og haldið því fram að ásetningur meirihlutans sé að einkavæða fyrirtækið.
Hvað rekur meirihlutann í borgarstjórn til að fara fram með þessum hætti? Hefur borgarstjóri tryggingu fyrir því að iðnaðarráðherra muni flytja frumvarp um breytingu á rekstrarformi Orkuveitunnar? Því verður ekki trúað. Ljóst er því að borgarstjóri er að taka ótrúlega pólitíska áhættu í málinu sem mun einungis verða til þess að veikja ennfrekar stöðu hans.
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar hafa ákveðið að fara fram á umræðu um málið á næsta fundi borgarstjórnar sem fram fer nk. þriðjudag. Meirihlutinn í borgarstjórn virðist ætla að keyra þetta mál í ágreiningsferli sem fyrst og fremst mun skaða Orkuveituna, og að sjálfsögðu pólitíska stöðu oddvita meirihlutans. Það er hans val.