8.1.2008 | 23:33
Eitt í dag og annað á morgun
Nú kemur fram að enginn ráðherra í ríkisstjórninni sé andvígur 250 þúsund tonna álveri við Húsavík. Fyrir kosningar lýsti Samfylkingin yfir því að hún vildi stóriðjustopp og jafnframt að friða ætti Skjálfandafljót og fallvötnin í Skagafirði.
Því er sú spurning áleitin hvort Samfylkingin hafi ekkert meint með þessum kosningaloforðum. Eru engin takmörk fyrir því hvernig hægt er að hafa loforðin að engu og lítilsvirða almenning? Er umhverfisráðherra einnig þeirrar skoðunar að það eigi að reisa álver við Húsavík og efna til þeirra virkjanaframkvæmda sem því óhjákvæmilega fylgja? Geta stjórnmálaflokkar og -menn leyft sér að hafa eina stefnu fyrir kosningar og aðra eftir kosningar?
Er nema von að spurt sé um afdrif "Fagra Íslands"!
![]() |
Össur ekki á móti álveri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.1.2008 | 10:13
Sami rassinn...
Það hefur lítið breyst hér á landi með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar. Sem minnir á að það er ekki nema hálf ríkisstjórnin ný, helmingurinn er gamla liðið úr Sjálfstæðisflokknum. Nýja spennandi nútímalega framfarakynslóðin í Samfylkingunni reynist jafn þreytt og hallærisleg og forverar hennar í ríkisstjórn úr öðrum stjórnmálaflokki.
Fyrir skemmstu var gagnrýnt að fjármálaráðherra, í skikkju dóms- og kirkjumálaráðherra, hefði skipað Þorstein Davíðsson dómara, fyrst og fremst út á reynslu hans sem aðstoðarmanns Björns Bjarnasonar. Þvert á umsögn þar til bærrar nefndar sem metur hæfi umsækjenda um dómarastöður. Þar óð Árni Mathiesen drulluna í þágu flokksmaskínu Sjálfstæðisflokksins, líkt og Björn Bjarnason hafði áður gert við skipun hæstaréttardómara. Ef umsækjandinn Þorsteinn hefði verið talinn í hópi þeirra hæfustu hefði málið snúið öðruvísi, en hæfnisnefndin hafði þvert á móti komist að þeirri niðurstöðu að umsækjandinn væri ekki í 1. hæfnishópi heldur þeim 3ja. En svona er Sjálfstæðisflokkurinn vanur að fara með völdin.
Ungir jafnaðarmenn voru í hópi þeirra sem gagnrýndu embættisveitinguna. Nú vill svo til að einn af ráðherramyndum Samfylkingarinnar skipar í tvö embætti nú um áramót. Bæði sæta þau gagnrýni svo ekki sé meira sagt. Iðnaðarráðherra skipar orkumálastjóra og ferðamálastjóra. Í fyrra tilvikinu gengur hann framhjá vel hæfum starfandi orkumálastjóra og velur einn af vildarvinum síns nánasta ráðgjafa. Nú skal það ekki rengt að viðkomandi er áreiðanlega hæfur til starfsins en er ekki full langt seilst til að koma "sínu" fólki að? Ungri og efnilegri, vel menntaðri konu sem þar að auki hefur reynslu af starfinu er hafnað. Ég bíð enn eftir viðbrögðum ungra jafnaðarmanna.
Félag háskólamenntaðra ferðamálafræðinga gagnrýnir einnig skipun ferðamálastjóra. Þar er bent á að gengið sé fram hjá nokkrum umsækjendum sem hafa aflað sér sérmenntunar í þessari atvinnugrein sem er sívaxandi í íslensku atvinnulífi. Í þeim hópi eru einstaklingar sem hafa bæði mikla menntun og ekki síður umfangsmikla starfsreynslu úr ferðaþjónustu, bæði af markaðsmálum, landkynningu, landvörslu og leiðsögn, rekstri og stjórnun. En allt kemur fyrir ekki. Viðkomandi höfðu greinilega ekki rétta flokkslitinn.
Í ljósi digurbarkalegra yfirlýsinga forystu Samfylkingarinnar, m.a. í hinum frægu Borgarnesræðum, um misbeitingu Sjálfstæðisflokksins á opinberu valdi og loforðum um að Samfylkingin boði betri tíð í þeim efnum, vekur framganga iðnaðarráðherra furðu, eða er kannski sami rassinn undir báðum stjórnarflokkunum? Augljóst er að ráðherrann gerir hvað hann getur til að gera formanni Samfylkingarinnar lífið leitt. En klúðrið er hans, ætli fólk hafi almennt gleymt yfirgangi hans og dónaskap þegar hann rak veiðistjóra úr embætti á aðfangadag hér um árið þegar hann var umhverfisráðherra, ef að líkum lætur í "bloggástandi"? Sá sem ástundar slík vinnubrögð rís ekki undir þeirra ábyrgð sem fylgir ráðherrastarfi. Á því ber Samfylkingin ábyrgð.
![]() |
Gagnrýna ráðningu nýs ferðamálastjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |