Nú þarf að byggja á bjargi

Samfélagið hefur orðið fyrir áfalli og stendur á krossgötum.  Sjálft þjóðskipulagið stendur á krossgötum.  Nýfrjálshyggjan sem hefur riðið húsum um öll Vesturlönd mörg undanfarin ár er hrunin, hún reyndist byggð á sandi. Hún var nöguð í sundur innanfrá.

Stjórnvöld standa nú í björgunaraðgerðunum miðjum.  Mikið er rætt um að nú sé ekki tími til að leita að sökudólgum, því allir kraftar verði að fara í björgunina sjálfa og svo uppbyggingarstarf.  Þetta má til sanns vegar færa.  Á hinn bóginn er í mínum huga alveg ljóst hver sökudólgurinn er, það er ekki einhver einn eða nokkrir einstaklingar, það er heil hugmyndafræði og pólitísk stefna sem því miður hefur verið fylgt nær gagnrýnislaust sem augu okkur eiga að beinast að, nú þegar við þurfum að byggja upp að nýju.

Græðgin og drambið, gróðahyggjan hefur verið hafin upp á stall, ímyndin um að velmegun og vöxtur gæti varað að eilífu, dansinn í kringum gullkálfinn myndi engan enda taka.  Og það eru ekki bara þeir sem þar hafa verið í fararbroddi sem gjalda nú fyrir skipbrot þessara gilda.  Nei, það er þjóðin öll.  Um allt samfélagið er fjöldi fólks sem býr nú við mikla óvissu um framtíðina.  Þess vegna er brýnt að menn hugsi ekki bara um peninga, um fjármuni sem hafa farið forgörðum þó þeir skipti máli, heldur ekki síður um hið félagslega, um andlega líðan einstaklinga, fjölskyldna og raunar þjóðarinnar allrar.  Við þurfum að vinna með kvíðann og angistina sem hefur búið um sig í hjörtum þúsunda Íslendinga.  Margir hafa tapað umtalsverðum sparnaði, og margir hafa misst vinnuna eða munu verða atvinnulausir á næstu mánuðum.  Þetta er staða sem við Íslendinga höfum ekki staðið frammi fyrir um margra áratuga skeið, ef nokkru sinni.

Við tekur uppbygging og endurreisn íslensks samfélags.  Nú verðum við að byggja á bjargi.  Samhjálpin verður að vera leiðarstef hins endurreista samfélags.  Og við megum ekki vera feimin við að setja skýrar reglur um fjármálastarfsemina þar sem hagsmunir alls almennings eru hafðir að leiðarljósi en ekki fjárfesta og spákaupmanna.  Velferðarkerfið þarf að efla.  Ný gildi þarf að hefja til vegs og virðingar, gildi samstöðu, réttlætis, jöfnuðar og umhyggju fyrir einstaklingum og náttúru.  

Reynslan er harður húsbóndi.  En einmitt nú er hún dýrmætari en oftast áður.  Við skulum hafa hana í farteskinu þegar við hefjum uppbyggingarstarf, við skulum öll taka höndum saman um að kasta nýfrjálshyggjunni á "öskuhauga sögunnar" og hefja raunverulega félagshyggju í öndvegi.  Þannig mun okkur best farnast.

 


Bloggfærslur 12. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband