28.10.2008 | 19:05
Fornaldarhagfræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Ákvörðun Seðlabankans að hækka stýrivexti um 50%, í 18% byggist á skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) við lánveitingu til Íslands vegna efnahagskreppunnar. Ýmsir höfðu varað við því að ganga sjóðnum á hönd og héldu því fram að skilyrðin yrðu óaðgengileg. Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna sögðu hins vegar engin skilyrðium aðgerðir fylgja sem við myndum ekki þurfa að grípa til hvort eð væri. Ekki gat ég betur heyrt en verkalýðsleiðtoginn, forseti ASÍ, væri sömu skoðunar.
En nú er að koma í ljós hvað hékk á spýtunni. Gamaldags kennisetningar hagfræðinnar ráða för, rétt eins og þegar AGS kom til skjalanna í efnahagskreppunni í Asíu í lok síðustu aldar. Með fullkomnlega misheppnuðum árangri. Jón Daníelsson, dósent í hagfræði við hinn virta London School of Economics í London var í viðtali við Ríkisútvarpið í dag um vaxtahækkunina. Þessi frétt á vefsíðu RÚV er athyglisverð:
"Jón Daníelsson, dósent við London School of Economics, segir undarlegt að Seðlabankinn skuli hafa hækkað stýrivexti þegar Seðlabankar um allan heim hafi lækkað vextina. Hann segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi alltaf krafist mikilla vaxtahækkana og byggt á gamaldags hagfræði sem segi að hærri vextir styrki gengi gjaldmiðla.
Það hafi haft hræðilegar afleiðingar í Asíu þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hækkaði vexti þar. Gengið hefði haldið áfram að hrynja og hagkerfið fylgt á eftir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist því ekki hafa lært lexíuna af þeirri reynslu, segir Jón.
Jón segir hugmyndina rétta um að hækkun vaxta styrki krónuna til skamms tíma. Það hafi hins vegar miklu alvarlegri afleiðingar fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og óvíst að þetta takist. Jón segir það því heppilegra að halda vöxtunum lágum, auka peningaframboð og taka verðbólguskellinn til skamms tíma og grípa til aðgerða til hjálpar heimilum og fyrirtækjum í landinu."
28.10.2008 | 15:33
Sveitarfélögin á berangri - neyðaráætlun er nauðsynleg
Í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag vakti ég athygli á vanda sveitarfélaganna og spurði samgönguráðherra til hvaða ráðstafana yrði gripið til að bæta stöðu þeirra.
Sveitarfélögin verða nú fyrir miklu tekjutapi vegna stöðu efnahagsmála. Útsvarstekjur lækka, framlög í jöfnunarsjóð sveitarfélaga lækka, í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er fellt niður sérstakt aukaframlag í jöfnunarsjóð að fjárhæð 1.400 mkr. og loks gerir fjárlagafrv. ráð fyrir að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts af opinberum byggingum, og er sú ákvörðun tekin án nokkurs samráðs við sveitarfélögin, sem er brot á samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga. Tekjutap sveitarfélaganna vegna aukaframlagsins í jöfnunarsjóð og breytingum á fasteignaskatti verða rúmlega 2 milljarðar króna. Lækkun framlaga í jöfnunarsjóð vegna lækkandi tekjuskatts mun að líkindum nema sömu fjárhæð að lágmarki. Þessu til viðbótar munu sveitarfélögin á næstu vikum og mánuðum þurfa að efla stoðþjónustu sína, einkum fjárhagsaðstoð.
Svör samgönguráðherra vekja ekki von um að verið sé að taka á vanda sveitarfélaganna af nokkurri festu. Engar tillögur eða hugmyndir um aðgerðir eru mótaðar og ráðherra virðist ekki taka samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga alvarlega. Það blasir því við að sveitarfélögin eiga engan málsvara í ríkisstjórninni eins og þau svo sannarlega þyrfti á að halda, ekki síst við þær aðstæður sem nú ríkja. Nú þarf að vinna neyðaráætlun vegna vanda þeirra og það þarf að hafa hraðar hendur. Annars er hætt við að fari mjög illa hjá mörgum þeirra.
28.10.2008 | 11:18
Eins og við var að búast frá AGS
Stýrivaxtahækkun Seðlabankans í dag, um 50%, var augljóslega ein af kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Ríkisstjórnin, sem sagði að engin skilyrði fylgdu láni sjóðsins sem við myndum ekki þurfa að grípa til hvort eð væri, bendir til að ríkisstjórnin hafi annað hvort ekki vitað hvað var í pípunum, eða að hún hafi sjálf talið nauðsynlegt að stórhækka stýrivexti.
Þessi skilyrði sjóðsins koma þó ekki á óvart. Það er nákvæmlega svona sem hann hefur starfað víða um lönd og skilið eftir sig sviðna jörð.
Meginrökin eru þau að það þurfi að slá á verðbólguna og það hratt. Og í annan stað að koma í veg fyrir fjármagnsflutninga úr landi. Afleiðingarnar verða fjöldaatvinnuleysi, gjaldþrot heimila og fyrirtækja. Það er það sem fylgir í pakka AGS. Mér finnst ótrúlegt að íslenskir jafnaðarmenn, og jafnvel forystumaður í Alþýðusambandinu, tali með svo mikilli mærð um aðkomu þessa sjóðs að efnahagsmálum Íslendinga. Getur verið að það sé markmið þessara aðila að við þurfum að horfa hér upp á geigvænlegt atvinnuleysi og landflótta? Eða er það markmiðið um ESB-aðild sem ræður för? Helgar tilgangurinn meðalið? Því verður vart trúað.
![]() |
Vaxtahækkun vegna IMF |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.10.2008 | 11:14
Eins og við var að búast frá AGS
Stýrivaxtahækkun Seðlabankans í dag, um 50%, var augljóslega ein af kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Ríkisstjórnin, sem sagði að engin skilyrði fylgdu láni sjóðsins sem við myndum ekki þurfa að grípa til hvort eð væri, bendir til að ríkisstjórnin hafi annað hvort ekki vitað hvað var í pípunum, eða að hún hafi sjálf talið nauðsynlegt að stórhækka stýrivexti.
Þessi skilyrði sjóðsins koma þó ekki á óvart. Það er nákvæmlega svona sem hann hefur starfað víða um lönd og skilið eftir sig sviðna jörð.
Meginrökin eru þau að það þurfi að slá á verðbólguna og það hratt. Og í annan stað að koma í veg fyrir fjármagnsflutninga úr landi. Afleiðingarnar verða fjöldaatvinnuleysi, gjaldþrot heimila og fyrirtækja. Það er það sem fylgir í pakka AGS. Mér finnst ótrúlegt að íslenskir jafnaðarmenn, og jafnvel forystumaður í Alþýðusambandinu, tali með svo mikilli mærð um aðkomu þessa sjóðs að efnahagsmálum Íslendinga. Getur verið að það sé markmið þessara aðila að við þurfum að horfa hér upp á geigvænlegt atvinnuleysi og landflótta? Eða er það markmiðið um ESB-aðild sem ræður för? Helgar tilgangurinn meðalið? Því verður vart trúað.
![]() |
Stýrivextir hækkaðir um 6 prósentur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |