Þjösnaskapur Evrópusambandsins

VIÐ Íslendingar eigum í stríði við Breta. Og fleiri þjóðir. Það er í raun ekki hægt að lýsa deilum okkar við þá með öðrum hætti. Bresk stjórnvöld ákváðu að beita hryðjuverkalöggjöf á Ísland með þeim afleiðingum að bankakerfið á Íslandi hrundi endanlega. Það var að vísu komið á hnén, ekki síst vegna margvíslegra hagstjórnarmistaka hér innanlands undanfarin ár og þess að bankakerfinu var leyft eftirlitslaust að vaxa þjóðarbúskapnum langt yfir höfuð. Hin alþjóðlega fjármálakreppa hratt af stað atburðarás og átti þannig sinn þátt, en innlendi þátturinn verður ekki undanskilinn og á honum bera íslensk stjórnvöld undanfarinna ára höfuðábyrgð.

 

Eitruð tenging

Nú kemur í ljós að Evrópusambandið, félagsskapur sem margir vilja að Ísland gangi í, beitir okkur sem þjóð ótrúlegum þjösnaskap þegar við erum að reyna að koma samfélaginu á lappirnar á nýjan leik. Það hefur komið á daginn, eins og við þingmenn VG sögðum strax í upphafi, að lánveiting frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum yrði með beinum eða óbeinum hætti tengd því að Ísland féllist á kröfur Breta, Hollendinga og fleiri aðila um uppgjör vegna innistæðureikninga íslenskra banka í þessum löndum. Þessi baneitraða tenging milli umsóknar um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og deilnanna við Breta, Hollendinga o.fl. vegna innlánsreikninganna býður þeirri hættu heim að Ísland verði þvingað pólitískt til að ábyrgjast langtum meira en lagaleg skylda býður. Á fundi þingmannanefndar EES-svæðisins með fulltrúum frá framkvæmdastjórn og ráðherraráði Evrópusambandsins sl. þriðjudag kom fram ítrekað að sum aðildarríki ESB hygðust tengja atkvæði sín í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því að niðurstaða næðist í deilum við Íslendinga. Þessi framganga ESB er að mínu mati ekkert annað en fjárkúgun og lét ég þá skoðun skilmerkilega í ljós á umræddum fundi. Formaður utanríkismálanefndar Alþingis tók undir þau sjónarmið mín.

 

Bognum en brotnum ekki

Sama dag fór fram fundur fjármálaráðherra ESB-ríkja með starfsfélögum þeirra frá EFTA-ríkjum. Þar mun hafa verið löng og ítarleg umræða um málið þar sem framganga ESB-ríkjanna var ekki síður fantaleg. Í framhaldinu mun hafa verið reynt að þvinga Ísland til að undirrita plagg frá framkvæmdastjórn ESB með gersamlega óaðgengilegum kostum. Það á sem sagt að knésetja íslensku þjóðina til langrar framtíðar í boði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Evrópusambandsins og Breta (samstarfsþjóðar okkar á vettvangi NATO) alveg sérstaklega. Ekki er nóg með að Bretar hafi beitt hryðjuverkalöggjöfinni, nú kemur Evrópusambandið nánast eins og það leggur sig og reynir að kúga þjóðina til undirgefni og hlýðni. Það er þjösnaskapur sem mikilvægt er að þjóðin viti um. En við skulum ekki láta kúga okkur. Við Íslendingar kunnum að bogna lítið eitt um sinn en við brotnum ekki. Ef við trúum á okkur sjálf, á auðinn í okkur sjálfum sem þjóð, á landið og gögn þess og gæði, ræktum menningu okkar og tungu, þá höfum við okkur út úr þessum erfiðleikum eins og öðrum sem við höfum ratað í. Í því sambandi er freistandi hugsun að betra sé að sleppa því að taka öll hin erlendu lán. Herða þess í stað sultarólina aðeins fastar um sinn, en eiga í staðinn von í betri og bjartari framtíð fyrir okkur og börnin okkar innan ekki allt of langs tíma. Áratuga þrautaganga með skuldaklafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins á herðunum, sem mun skerða lífskjör og takmarka möguleika okkar um áratugaskeið, er skelfileg tilhugsun.
(Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 10. nóvember 2008)

Bloggfærslur 10. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband