Afrek Svandísar

Umræðan um skýrslu REI-hópsins hefur tekið á sig ýmsar myndir að undanförnu.  Efalaust má draga ýmislegt í skýrslunni fram og teygja og toga á ýmsa lund.  Kjarninn í þessu máli öllu saman vill þó á stundum gleymast. 

Hann er sá að það stefndi í það í haust að almannahagsmunir yrðu stórlega fyrir borð bornir, sullað yrði saman hlutverki og markmiðum opinbers veitufyrirtækis annars vegar og hagnaðarsjónarmiðum einkaaðila hins vegar, verðmætum eignum almennings yrði kastað á glæ og brautin rudd fyrir einkavæðingu Orkuveitu Reykjavíkur og þar með þeirra mikilvægu almannahagsmuna sem eigendur OR eiga að gæta.  Allt þetta var sannarlega í farvatninu í skugga óheyrilegs flýtis og leyndar sem hvíldi á öllum málatilbúnaði.  Í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur var aðeins ein rödd sem andæfði.  Það var Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna.  Hún mótmælti einnig lögmæti eigendafundarins og ákvað að sitja hjá við afgreiðslu málsins og með því taka enga afstöðu til máls sem var í raun algerlega vanreifað til að hægt væri að taka til þess afstöðu.  Á hvorn veg sem var.  Og nauðsynlegar upplýsingar skorti einnig. 

Það var ekki fyrr en á síðari stigum að aðrir kusu að hoppa á vagninn og njóta eldanna sem Svandís fyrst kveikti.  Það er út af fyrir sig gott og blessað, en gæta verður allrar sanngirni og minnast þess hvernig málið allt bar að.  Ef Svandís hefði ekki risið til varnar og mótmælt og höfðað mál þá stæðum við nú væntanlega enn með sama meirihlutann og var í byrjun október, sama borgarstjóra og Orkuveituna komna á útsölu til einkaaðila.  Í því ljósi eru veikburða athugasemdir um að Svandís hafi ekki verið nógu „grimm“ í skýrslunni hjóm eitt.  Það var hún sem eigin hendi og óbilandi málafylgju stöðvaði ruglið sem var í uppsiglingu og hún hefur nú landað mikilvægri niðurstöðu um að Orkuveitan og REI verði í 100% opinberri eigu og að ný og breytt vinnubrögð verði innleidd í stjórnmálin.  Og allir flokkar taka undir.  Það er ekki lítið afrek.

 

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. febrúar 2008)


Bloggfærslur 13. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband