19.2.2008 | 22:39
Hvers vegna hefur Ingibjörg Sólrún allt á hornum sér?
Í dag (þriðjudag) fór fram stutt umræða um nýgerða kjarasamninga á Alþingi. Forsætisráðherra gerði þinginu grein fyrir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á næstu árum, m.a. í skatta- og velferðarmálum. Af hálfu okkar þingmanna og forystumanna Vinstri grænna hefur komið skýrt fram að sú hugmyndafræði sem samningurinn byggir á sé jákvæð og rétt og við styðjum hana. Um leið höfum við bent á þá augljósu staðreynd að lægstu launin hér á landi eru langt undir framfærslu- og fátæktarmörkum og að afar hægt miðar í þá átt að allir búi við mannsæmandi kjör.
Að okkar mati hefði framlag ríkisvaldsins átt að vera í þá átt að lyfta kjörum þeirra sem helst þurfa á því að halda enn frekar en kjarasamningarnir gera. Skattabreytingarnar sem ríkisstjórnin boðar lúta annars vegar að því að lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 18 í 15% frá og með tekjuárinu 2008 og hins vegar að persónuafsláttur hækki um 7000 kr. umfram verðlagsbreytingar á þremur árum, fyrst árið 2009. Þar sem hækkun persónuafsláttarins gengur upp allan tekjuskalann munu umtalsverðar upphæðir fara úr ríkissjóði til þeirra sem hafa háar og jafnvel mjög háar tekjur. Þær fjárhæðir hefðu betur verið komnar sem viðbótarframlög til þeirra sem enn eru undir framfærslumörkum. Það er leið jöfnuðar sem við í VG hefðum viljað fara.
Ríkisstjórnin hafði hafnað þeirri leið sem verkalýðshreyfingin vildi fara að koma á sérstökum persónuafslætti til tekjulágra hópa. Það hefði verið jafnaðarstefna í verki. En þess í stað er það skattastefna Sjálfstæðisflokksins sem hefur orðið ofan á hjá ríkisstjórninni, skattastefna sem ekki er til þess fallin að auka jöfnuð líkt og hægt hefði verið að gera. Á þetta hljótum við að benda.
Þá bregður svo við að formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur allt á hornum sér og leggur sérstaka lykkju á leið sína til að ausa okkur Vinstri græn skömmum, aðallega fyrir að benda á þessi atriði. Henni mislíkar greinilega að við skulum ekki bera lof á ríkisstjórnina fyrir framlag hennar, rétt eins og það verði ekki nógir um það í röðum þingmanna! Vill formaður Samfylkingarinnar ekki að menn segi kost og löst á því sem gert er? Ingibjörg Sólrún verður að una því að það er stjórnarandstaða í landinu og að hún mun að sjálfsögðu halda því til haga sem betur má fara, að ekki sé talað um þegar hún telur að ekki sé farið rétt að málum. Formaður Samfylkingarinnar þarf ekki að taka það persónulega og bregðast við eins og svo sé. Þetta snýst um pólitík og stefnumál og við í VG teljum að í þessu efni (eins og því miður í alltof mörgum öðrum málum) hafi Samfylkingin látið undan frjálshyggju- og misskiptingarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Og við kunnum því illa. Nema hvað?
19.2.2008 | 15:12
Lestarsamgöngur verði skoðaðar
Ég hef ásamt ellefu öðrum þingmönnum úr öllum flokkum hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.
Tillagan gerir ráð fyrir að samgönguráðherra verði falið að láta kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar annars vegar og svokölluðu léttlestakerfi innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar. Í tillögunni segir ennfremur að kannaðir skuli kostir þessa samgöngumáta og gallar, sem og hugsanlegar leiðir. Sjónum á einkum að beina að kostnaði og ávinningi samfélagsins og efnahagslegum,
umhverfislegum og skipulagslegum áhrifum. Gert er ráð fyrir að leitað verði til sérfræðinga innan lands og utan og að niðurstöður athugunarinnar liggi fyrir í árslok 2008.
Tillögunni fylgir ítarleg greinargerð og má nálgast hana á vef Alþingis,