Stórátak verði gert í almenningssamgöngum - ríki og sveitarfélög taki höndum saman

"Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur brýnt, og raunar óhjákvæmilegt, að stórefla almenningssamgöngur í þéttbýli. Sveitarfélög hafa um langt árabil sinnt almenningssamgöngum af veikum mætti og án þess að um lögbundið verkefni sveitarfélaga sé að ræða. Þau hafa einnig ítrekað óskað eftir aðkomu ríkisvaldsins að þessum þætti samgangna eins og öðrum.  Þingmenn VG hafa lagt fram þingmál í þeim tilgangi að styrkja almenningssamgöngur en þau hafa ekki enn fengist afgreidd.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á almenningssamgöngur en því miður virðast það einungis vera orð á blaði, án innihalds.  Viðbrögð samgönguráðherra við kröfu sveitarfélaganna um aðkomu ríkisins að almenningssamgöngum valda vonbrigðum og lýsa skilningsleysi hans á vaxandi mikilvægi góðra og öflugra almenningssamgangna í nútíma þjóðfélagi.

Hækkandi olíuverð er einn þeirra þátta sem kalla á breytt samgöngumynstur með áherslu á almenningssamgöngur.  Ríkið hefur þar stóru hlutverki að gegna og verður að bregðast við. Loftmengun, svifrik og sót af völdum samgangna er helsta umhverfisvandamálið á höfuðborgarsvæðinu og víðar, enda byggjast samgöngur nær allar á notkun innflutts jarðefnaeldsneytis.

Samhliða því að styðja við þróun vistvænna orkugjafa í samgöngum er nauðsynlegt að auka hlut almenningssamgangna stórlega til að draga úr loftmengun. Fyrsta skrefið er að tryggja að almenningssamgöngur sitji a.m.k. við sama borð og hópferðaakstur við innkaup á nýjum farartækjum til fólksflutninga og enn fremur að almenningssamgöngur verði ekki til frambúðar miklu verr settar með tilliti til olíugjalds en þær voru þegar þungaskattur var innheimtur.

Þingflokkur VG skorar á ríkisstjórnina að hætta skattlagningu á almenningssamgöngur, taka höndum saman við sveitarfélögin og leggja sitt af mörkum við að snúa vörn í sókn og treysta og efla almenningssamgöngur. Í þjóðhagslegu tilliti yrði um leið af þessu ótvíræður ávinningur."

 

(Ályktun frá þingflokki VG, 12. ágúst 2008.)


Bloggfærslur 13. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband