3.8.2008 | 15:40
Á heimleið
Ég er nú staddur á hinum heimilislega Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn. Flaug í morgun frá Pétursborg eftir 5 vikna dvöl þar og hingað til kóngsins Kaupinhafnar og bíð hér eftir flugi heim. Það verður unaðslegt að koma heim eftir þetta langa dvöl fjarri heimahögum, ekki síst fjölskyldunni.
Í gærkvöldi hitti ég félaga úr karlakórnum Heimi í Skagafirði, en kórinn ásamt fylgdarliði var kominn til Pétursborgar og mun halda tónleika þar á mánudagskvöld. Margt ágætra kunningja er í hópnum og gaman hitta svo hresst og skemmtilegt fólk og taka með því lagið. Vonandi ganga tónleikar þeirra vel.
Þessi síðasta vika hefur verið býsna viðburðarrík hjá mér í Pétursborg. Ekki vildi betur til, þegar ég var í Novgorod um síðustu helgi, en að ég veiktist af lungnabólgu og kynntist heilbrigðiskerfinu ágætlega, bæði í Novgorod og svo einnig í Pétursborg vegna áframhaldandi rannsókna og meðferðar. Svo gerðist það sem ég hef aldrei lent í áður að ég var rændur og missti ég þar minn ágæta síma með "vitinu", upplýsingum um símanúmer o.s.frv. en verst þótti mér samt að í símanum var líka forláta myndavél. Og til að kóróna allt gleypti hraðbanki einn bankakortið mitt og tókst mér ekki að fá það eftur áður en ég yfirgaf landið.
En Pétursborg er kvödd að sinni, vonandi gefst tækifæri til að heimsækja hana fyrr en síðar á nýjan leik.