Ríkisstjórn á flótta

Það vekur athygli að í morgun safnaðist hópur fólks fyrir framan Alþingishúsið til að mótmæla ríkisstjórninni þegar hún kom saman til reglubundins ríkisstjórnarfundar.  Hvers vegna ekki í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu eða í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg?

Á Íslandi gildir þrískipting ríkisvaldsins.  Löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald.  Ráðherrar í ríkisstjórninni eiga að vísu yfirleitt sæti á Alþingi (með örfáum undantekningum) og þeir víka ekki sæti þar þótt þeir setjist í ríkisstjórn (eins og t.d. í Noregi).  En ráðherrar hafa til þessa fyrst og fremst komið í Alþingishúsið til að mæla fyrir þingmálum og taka þátt í almennum þingstörfum og þingflokksstörfum.  En nú ber nýrra við.

Alþingishúsið er allt í einu orðin fundarstaður ríkisstjórnarinnar fyrir hefðbundna fundi hennar (m.a.s. meðan þing starfar ekki).  Eins konar griðastaður ríkisstjórnar sem er orðin leið á að mæta ávallt mótmælum þegar hún kemur saman.  Þess vegna tók hún upp á því að funda í skjólinu í Alþingishúsinu, í fundarherbergi forsætisnefndar Alþingis, og átti von á að fá þá meiri frið, hún kæmist alltént klakklaust á fundarstað. 

En ríkisstjórnin verður að átta sig á því að það skiptir engu máli hvar hún fundar.  Hún er jafnóvinsæl og jafn trausti rúin.  Hún verður væntanlega leituð uppi hvar sem hún fundar, jafnvel þótt hún fari á fjöll, því það er rík þörf hjá þjóðinni til að koma á framfæri mótmælum við störfum hennar og kröfunni um að hún fari frá og boðað verði til kosninga.  Ríkisstjórn sem er komin á þvílíkan flótta frá þjóð sinni, gerði best í því að flýja líka ráðherrastólana og skila umboði sínu til þjóðarinnar.  Það verður hennar að veita nýju Alþingi og nýrri ríkisstjórn umboð til að byggja hið "Nýja Ísland".


Var fjölmiðlum líka hótað?

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur, sem var einn frummælenda á almennum borgarafundi í Háskólabíói í gærkvöldi, greindi svo frá í upphafi máls síns:  einn ráðherra ríkisstjórnarinnar hafði samband við hana fyrir fundinn og ráðlagði henni að tala varlega á fundinum, sjálfrar sín og starfsframa síns vegna!

Sem sagt: ráðherrann hafði í hótunum við Sigurbjörgu, ef hún talaði ekki varlega gæti hún haft verra af.  Þótt Sigurbjörg hefði ekki nafngreint ráðherrann kom glöggt fram í erindi hennar að um var að ræða heilbrigðisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson.  Ráðherrann misbeitti augljóslega valdi sínu og umboði og þess á að krefjast að hann geri grein fyrir afskiptum sínum og stjórnarathöfnum í þessu máli.

Nú bregður svo við að fjölmiðlar, sem þó hafa sagt af fundinum, greina ekki frá þessum tíðindum.  Eina undantekningin frá því er að vefritið smugan.is er með frétt um málið.  Eyjan vísar síðan í þá frétt.  Aðrir miðlar virðast mér hafa þagað þunnu hljóði.  Hvernig stendur á því?  Er ekki komið nóg af meðvirkni þeirra með spillingar- og eyðileggingaröflunum í þjóðfélaginu?  Var þeim kannski líka hótað rétt eins og Sigurbjörgu?

Er nema von að spurt sé!

 

Viðbót kl. 12.40.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var fjallað um málið og greint frá ofangreindum orðum dr. Sigurbjargar.  Jafnframt var skýrt frá því að hún hefði ekki viljað tjá sig frekar um málið en með þeim hætti sem hún gerði á fundinum.  Þá var haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra að hann kannaðist ekki við að vera umræddur ráðherra, hann hefði ekki talað við "þessa manneskju" eins og hann komst að orði, um langt skeið.  Sé það rétt, er enn spurningin, hver er ráðherrann ungi sem varaði dr. Sigurbjörgu við og sagði hana að tala varlega?  Enn er spurt.

Eftir kvöldfréttir

Og nú kom yfirlýsing frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, að hún væri ráðherrann sem hefði sent Sigurbjörgu skilaboðin um að tala varlega.  Fátt kemur manni nú orðið á óvart!


Bloggfærslur 13. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband