2.1.2009 | 11:21
Er of flókið að kjósa?
Margir hafa lýst þeirri skoðun, í umræðunni um Evrópumálin, að eðlilegt sé að viðhafa tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því er átt við að áður en stjórnvöld taka stefnumótandi ákvörðun um að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið, eigi þau að leita eftir umboði frá þjóðinni til þess, burtséð frá niðurstöðum viðræðnanna. Nái stjórnvöld síðan samningi við ESB um aðild, yrði slíkur samningur að sjálfsögðu einnig borinn undir þjóðaratkvæði. Geir Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins bættist um áramótin óvænt í hóp þeirra sem vilja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þessi afstaða fer mjög fyrir brjóstið á Samfylkingarfólki, og yfirleitt þeim sem eru mjög áfram um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Varaformaður Samfylkingarinnar segir í Fréttablaðinu m.a. um þessa hugmynd: "Mér finnst miklu skynsamlegra að við förum ekki í þjóðaratkvæði fyrr en við höfum einhvern samning til að kjósa um þannig að staðreyndirnar séu á hreinu. Annars er hætta á að umræðan fyrir kosningarnar verði öfgafull snúist um óraunhæfar væntingar og svartsýnishjal." Þessi sjónarmið hef ég heyrt frá fleirum úr forystu Samfylkingarinnar. T.d. sagði Skúli Helgason framkvæmdastjóri flokksins, þegar við ræddum málin í sjónvarpinu í þætti Björn Inga "Markaðurinn", að við misstum of mikinn tíma með tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er athyglisvert að bera þessa afstöðu saman við kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar. Þar segir m.a.: "Í lifandi lýðræði felst að almenningur eigi þátt í töku ákvarðana með virkum hætti. Vinnubrögð og viðhorf þeirra sem starfa í umboði þjóðarinnar þurfa að endurspegla virðingu fyrir lýðræðislegum gildum. Stjórnvaldsathafnir eiga að vera gagnsæjar, studdar málefnalegum rökum og lúta lýðræðislegu eftirliti. Þróa þarf leiðir og setja skýrar reglur um hvernig almenningur getur haft bein áhrif á ákvarðanir sem varða nánasta umhverfi. Samfylkingin vill: Setja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá og setja ákvæði lög um framkvæmd atkvæðagreiðslna meðal almennings til að tryggja jafnræði og lýðræðislega umgjörð. " Samkvæmt þessu vill Samfylkingin innleiða atkvæðagreiðslur um mikilsverð mál í ríkari mæli en við Íslendingar höfum nýtt okkur til þessa. En þó ekki um Evrópumálin!
Í mínum huga er holur hljómur í þessum málflutningi. Hugsunin með hinni fyrri atkvæðagreiðslu er einföld. Flestir stjórnmálaflokkar hafa hingað til gengið til kosninga með andstöðu við ESB-aðild í farteskinu og það er sú afstaða sem þjóðin hefur kosið út frá. Það má því halda því fram með sterkum rökum að stjórnmálamenn og -flokkar hafi ekki raunverulegt umboð frá þjóðinni til að fara af stað í ferli sem gæti endað með aðild að ESB. Vafalítið er hægt að halda því fram að Alþingi gæti tekið ákvörðun um að hefja viðræður, en er ekki betra í svo afdrifaríku máli að leita eftir beinu umboði frá þjóðinni? Höfum við ekki tíma fyrir beint lýðræði? Fyrri atkvæðagreiðslan myndi þannig í meginatriðum snúast um það hvort hugmyndafræðin á bak við Evrópusambandið sé eitthvað sem hugnast okkur. Stefna sambandsins í helstu samfélagsmálum, s.s. í auðlindamálum, lýðræðismálum, friðar- og mannréttindamálum, umhverfismálum, utanríkismálum, félags- og velferðarmálum o.s.frv. væri þá undir ef svo má segja, þannig fengist fram almenn afstaða þjóðarinnar til þess, hvort hún vill að Ísland gangi í Evrópusambandið. Verði svarið neikvætt liggur það þá fyrir og það þarf ekki að eyða tíma í viðræður við sambandið um aðild. Ef þjóðin svarar þessari spurningu játandi, myndu stjórnvöld þá fara í aðildarviðræður, með aðild allra stjórnmálaflokka, og niðurstaða slíkra viðræðna yrði síðan einnig borin undir þjóðina. Þá gæfist kostur á að taka endanlega afstöðu til aðildarskilmála, s.s. að því er varðar sjávarútveg, landbúnað o.fl.
Getur verið að það sé of flókið að kjósa? Getur verið að það sé of flókið að viðhafa beint lýðræði á mörgum stigum málsins? Af hverju óttast stuðningsmenn ESB-aðildar þjóðina? Frá mínum bæjardyrum er einmitt mikilvægt að stíga varlega til jarðar, að þjóðin sé ávallt beint og milliliðalaust með í ráðum, að þjóðin eigi ekki bara síðasta orðið eins og það er oft kallað, heldur taki sjálf ákvörðun um það hvort fyrsta skrefið verður stigið. Það er lýðræði.