Hitnar í kolum

Eldur við Alþingishúsið í kvöld

Mótmælin gegn ríkisstjórninni sem fram fóru á Austurvelli í dag og kvöld eru söguleg.  Það eru áratugir síðan stjórnvöldum hér á landi hefur verið mótmælt af ámóta þunga og aldrei jafn ítrekað og gerst hefur nú undanfarnar vikur og mánuði.  Og tilefnið er ærið.  Hér situr vanhæf ríkisstjórn sem hefur komið íslensku þjóðarbúi í þrot.

Andstaðan við ríkisstjórnina fer stigvaxandi og það er þverskurður af samfélaginu sem mætir á Austurvöll reglulega og lætur í sér heyra.  En ráðamenn skella því miður skollaeyrum við og virðast lifa í fullkominni afneitun.  Telja sjálfum sér trú um að mótmælendur séu fámennur hópur stjórnleysingja, sem vinstrimenn skipuleggi.  Þegar svo er komið fyrir forystu ríkisstjórnarinnar er hún algerlega sambandslaus við þjóð sína - hún er hrædd.

Stemningin fyrir framan Alþingishúsið nú í kvöld var einstök.  Fólk á öllum aldri, foreldrar með börn, ömmur og afar, allt pólitíska litrófið (eða svo gott sem).  Krafan var skýr: ríkisstjórnin er vanhæf, hún verður að fara frá og boða til kosninga.  Mælirinn er fullur, ríkisstjórnin misbýður þjóðinni gersamlega.  Einn þingmaður úr stjórnarliðinu sagði við mig á þingi í dag að viðkomandi væri fullkomnlega misboðið yfir framgöngu okkar Vinstri grænna á Alþingi þegar við vöktum máls á ráðleysi ríkisstjórnarinnar og kröfðumst umræðu um raunverulegar aðgerðir.  Vissulega var málflutningur okkar hvass og hávaðasamur á köflum, en væri ekki nær fyrir þingmenn stjórnarflokkanna að hlusta á þjóðina?  Eða tala þeir ekki lengur sama tungumál og þjóðin?  Skilja þeir ekki hvernig fólki er innanbrjósts og að fjöldi fólks er á barmi örvæntingar vegna ástandsins?

Dagar ríkisstjórnarinnar eru taldir.  Spurningin er hvenær það rennur upp fyrir forsætisráðherra og hann mannar sig í að segja af sér.  Sú stund nálgast dag frá degi, því fyrr því betra.  Við þurfum nýja ríkisstjórn sem fer í að endurmóta og byggja upp íslenskt samfélag á grundvelli félagshyggju og jöfnuðar og með það að leiðarljósi að forðast óbærilega skuldbindingar núverandi og komandi kynslóða.  Sjálfstæðisflokkurinn á ekki erindi í þann leiðangur.


Bloggfærslur 21. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband