"Við vöðum í dauða, blóði og limlestingum"

Fjöldamorð Ísraela á Gaza halda áfram af auknum þunga.  Lýsingar sjónarvotta eru skelfilegar og vekja hvarvetna viðbjóð og fordæmingu.  Allir sanngjarnir menn, burtséð frá afstöðu þeirra til deilunnar að öðru leyti, hljóta að sjá að framferði stjórnar Ísraels er ófyrirgefanlegt og hlýtur að kalla á hörð viðbrögð heimsbyggðarinnar.  Norska dagblaðið Aftenposten birtir nú síðdegis lýsingar frá norskum lækni, Mads Gilbert.  Óhætt er að kalla sms-skilaboð hans NEYÐARÓP.  Þar segir:

De bombet det sentrale grønnsaksmarkedet i Gaza by for to timer siden. 80 skadde, 20 drepte, alt kom hit til Shifa. Hades! Vi vasser i død, blod og amputater. Masse barn. Gravid kvinne. Jeg har aldri opplevd noe så fryktelig. Nå hører vi tanks. Fortell videre, rop det videre. Alt. GJØR NOE! GJØR MER! Vi lever i historieboka nå!

Sjá nánar á www.aftenposten.no

 


Hryðjuverkin á Gaza

Það verða kosningar í Ísrael í byrjun febrúar.  Stjórnarflokkarnir óttast að þeir missi völdin.  Þeir grípa til gamalkunnugra aðferða aðþrengdra stjórnarherra: að fara í stríð til að þjóðin eignist sameiginlegan óvin, annan en stjórnvöld sjálf.  Fórnarlömbin eru almenninr palestínskir borgarar, börn og aldraðir, konur og karlar.  Ráðamenn í Ísrael skirrast einskis, líf almennra borgara eru einskis metin, völd þeirra sjálfra eru jú í húfi.

Þetta er því miður ekkert einsdæmi.  Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hafa staðið um margra áratuga skeið, einstaka vopnahléstímabil inn á milli, en í meginatriðum hafa þessi átök staðið áratugum saman.  Og fátt sem bendir til að alþjóðasamfélaginu takist að hlutast til um frið á svæðinu.  Ástæðan er fyrst og fremst blindur stuðningur Bandaríkjanna við hryðjuverk Ísraels og fjöldamorð þeirra á saklausum palestínskum borgurum.  Lengi vel andstaða þeirra við sjálfstætt palestínskt ríki.  Og enn á ný lýsir Bush Bandaríkjaforseti yfir skýlausum stuðningi við Ísrael og ódæðisverk þeirra, enda er hann löngu orðinn þekktur af því að fótum troða mannréttindi.  Í því skjóli stunda stjórnvöld í Ísrael hernaðaraðgerðir sínar, aðgerðir sem eru ekkert annað en hryðjuverk.  Með stuðningi Bandaríkjanna og annarra sem fylgja Bandaríkjastjórn í blindni í alþjóðamálum.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins kemur í útvarpsviðtal í dag og segir ekki unnt að fordæma Ísrael.  Það gera þó stjórnvöld vítt og breitt um heiminn, m.a. afdráttarlaus fordæming af hálfu ríkisstjórna Noregs og Svíþjóðar.  Og utanríkisráðherra Íslands sendir tilkynningu beint inn í sama fréttatíma, bersýnilega í tilefni af hreint ótrúlegu viðtali við menntamálaráðherra, um að hún fordæmi framferði Ísraela á Gaza.  Og tekur þar með undir með formanni VG, Steingrími J. Sigfússyni.  Nema hvað!

Staðan á Gaza er skelfileg.  Stjórnvöld um allan heim fordæma aðgerðir Ísraela en þó eiga þeir hauka í horni þar sem er m.a. Bandaríkjastjórn (og að því er virðist Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi).  Þessir aðilar styðja beint eða óbeint fjöldamorðin á palestínsku þjóðinni.  Þeim verður að linna og alþjóðasamfélagið getur ekki lengur setið hjá og látið mótmæli í orði duga ein.  Nú þarf að bregðast við með miklu meira afgerandi hætti.  Það verður að beita ísraelsk stjórnvöld þrýstingu sem þau skilja og finna fyrir.  Efnahags- og viðskiptaþvinganir eru nærtækar og einnig að slíta pólitísk tengsl.  Slíkar aðgerðir urðu ásamt öðru á sínum tíma til að fella aðskilnaðarstjórnina í Suður-Afríku.  Nú verða aðgerðir að fylgja orðum.

Utanríkismálanefnd Alþingis fundar um málið á morgun, mánudag.  Þaðan þurfa að koma skýr skilaboð, ég er sannfærður um að það er meirihluti fyrir því á Alþingi að fordæma aðgerðir Ísraelsstjórnar og beita hörku í samskiptum við hana.  Ef ekki vill betur, verður að skilja Sjálfstæðisflokkinn eftir í þjónkun sinni við ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Ísraels.


Bloggfærslur 4. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband