Athyglisverð þróun

Þessi könnun um andstöðu við ESB-aðild er athyglisverð, ekki síst í ljósi umræðunnar sem varð í kjölfar bankahrunsins um að eina bjargræði okkar væri aðild að Evrópusambandinu.  Nú er þjóðin bersýnilega annarrar skoðunar og ef mér skjöplast ekki er það þriðja könnunin í röð sem sýnir þessa stöðu.

Nú geta vindar snúist býsna skjótt í þessu efni, en ef til vill eru þetta skilaboð þjóðarinnar til stjórnmálaflokkanna um að þeir þurfi að einbeita sér að öðrum og þýðingarmeiri málum í komandi kosningabaráttu.  Alþingiskosningarnar snúast um afkomu heimila og fjölskyldna nú og á næstu mánuðum.  Baráttan við atvinnuleysið og yfirvofandi gjaldþrot, grunnstoðir velferðarkerfisins, réttláta tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og lýðræðislega og opna stjórnarhætti.  Allt eru þetta brýn úrlausnarefni sem við verðum að takast á við á heimavelli.  Núverandi ríkisstjórn hefur þegar hafist handa við að greiða úr þeim málum sem áralangt sinnuleysi Sjálfstæðisflokksins og gjaldþrota stefna hans skilur eftir.  Það er úrslitaatriði fyrir framtíð þjóðarinnar að haldið verði áfram á þeirri braut sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur rutt.  Við munum aðeins komast út úr erfiðleikunum ef við byggjum upp og endurreisum samfélagið á grundvelli félagshyggju, jöfnuðar og kynjajafnréttis, réttlætis ogsjálfbærrar þróunar.


mbl.is Meirihluti andvígur ESB-umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víst brást stefnan

Það er bersýnilega einn þáttur í tilraun Sjálfstæðisflokksins til að ná fyrri stöðu sinni að telja þjóðinni trú um að stefna flokksins hafi ekki brugðist, heldur hafi fólk brugðist.  Þetta er kattarþvottur.

Einkavæðing bankanna, hömlulaus græðgi, skattalækkun til hálaunahópa og fjármagnseigenda og margt fleira í þeim dúr, var stefna Sjálfstæðisflokksins.  Ef það er trú forystumanna flokksins að sú stefna hafi ekki brugðist, hllýtur að vera rökrétt að álykta að flokkurinn hyggist halda þessari stefnu sinni áfram.  Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að endurreisa íslenskt samfélag með sömu stefnuna og keyrði samfélagið í þrot?

Sjálfstæðisflokkurinn á greinilega langt í land með að átta sig á því hvað olli hruninu.  Við þurfum ekki meira af þessari sömu stefnu.  Við þurfum nú alveg nýjar áherslur og ný gildi jöfnuðar, réttlætis og lýðræðislegra stjórnarhátta.  Núverandi ríkisstjórn tekur við þrotabúi frjálshyggjunnar og það er vissulega ekki létt verk að koma samfélaginu á rétta braut og byggja upp það sem brotið var niður.  En það er hægt.  Til þess þarf bjartsýna og vinnusama stjórn sem starfar í þágu almennings í landinu og hafnar sérgæsku og vildarpólitík í þágu útvalinna. 

Vinstri græn munu leggja sitt af mörkum til að það takist.  Þjóðin stendur frammi fyrir óvenju skýru vali í kosningunum 25. apríl.  Átján ár Sjálfstæðisflokksins við stjórnvölinn hafa reynst okkur dýrkeypt, nú er kominn tími til róttækra breytinga og endurreisnar í anda félagshyggju.  Látum það tækifæri ekki ganga okkur úr greipum.


mbl.is Stefna brást ekki, heldur fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OPIÐ HÚS HJÁ VINSTRI GRÆNUM Í DAG

Stjórn Vinstri grænna í Reykjavík býður félögum að koma á opið hús í dag, sunnudag, 1. mars. Þar munu frambjóðendur í forvalinu hafa orðið og kynna sig í stuttu máli.  Opna húsið er í nýrri kosningamiðstöð VG að Tryggvagötu 11 klukkan 14-18.
------------------------------
ALLIR VELKOMNIR.

Bloggfærslur 1. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband