Góð staða VG fellir ríkisstjórnina

Fréttablaðið birti nýja skoðanakönnun í morgun þar sem kemur fram að meirihluti ríkisstjórnarinnar er fallinn og stjórnarandstaðan nýtur meirihlutafylgis.  Einkum er það mikils fylgisaukning Vinstri grænna sem veldur þessum straumhvörfum.

Samkvæmt könnuninni fá Vinstri græn tæp 20% fylgi en fengu rúm 13% í síðustu könnun blaðsins (í nóvember) og tæp 9% í síðustu kosningum.  Samfylkingin mælist með um 21% fylgi miðað við um 30% í síðustu könnun og rúm 31% í kosningunum.  Frjálslyndir mælast nú með 10% fylgi, fengu 11% í síðustu könnun og rúm 7% í kosningunum.  Fylgi við Sjálfstæðisflokkinn mælist um 40%, en flokkurinn hafði um 38% fylgi í síðustu könnun og tæp 34% í kosningunum 2003.  Loks fær Framsóknarflokkurinn rúmlega 7% fylgi, hafði tæp 7% í síðustu könnun en tæp 18% í síðustu kosningum.  Þannig er ljóst að það er mikil hreyfing á fylginu frá síðustu kosningum, einkum frá Framsókn og Samfylkingu og aðallega til Vinstri grænna en einnig til Frjálslyndra og Sjálfstæðismanna.

Hið ánægjulega í könnuninni er að ríkisstjórnin er fallin.  Og þetta er ekki fyrsta könnunin nú síðustu vikur sem sýnir það.  Þjóðin virðist vera búin að fá nóg af núverandi stjórnarflokkum og er augljóslega að gera kröfur um breytingar.  Ekki síst vill þjóðin sjá áherslumálum Vinstri grænna vel fyrir komið við landsstjórnina.  Það eru hin skýru skilaboð.  Nú eru að vísu enn 4 mánuðir til kosninga og margt getur gerst á skemmri tíma en það í stjórnmálum og engin vissa fyrir því að úrslit kosninga verði eins og skoðanakannanir sýna.  Þær mæla þó óumdeilanlega stöðu mála á þeim tímapunkti sem þær eru teknar, sýna greinilegar vísbendingar, en hafa verður í huga að allstór hluti kjósenda er enn óákveðinn.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa sýnt prýðilega samstöðu á þingi í vetur.  Í haust lögðu þeir fram nokkur mikilvæg mál sem þeir standa saman að og nú síðast hefur órofa samstaða þeirra í málefnum Ríkisútvarpsins sýnt og sannað að þeir eiga auðvelt með að starfa saman.  Fái þeir til þess umboð kjósenda er einboðið að þeir myndi næstu ríkisstjórn og hefjist strax handa við að taka til eftir 16 ára valdaferil Sjálfstæðisflokks og 12 ára tíma Framsóknarmanna í stjórnarráðinu.  Verkefnin eru ærin, hvert sem litið er.  Það er hugur í okkur Vinstri grænum og við erum reiðubúin að axla ábyrgð.


mbl.is Fylgi VG og Frjálslyndra eykst samkvæmt skoðanakönnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Ykkar "góða" staða hófst með því að ganga ekki í Samfylkinguna, takk fyrir það ;)

 Og takk fyrir að gera gott sem ekkert í gatnagerðarmálum í Rvík á þessum 12 árum meðan þið voruð í borgarstjórn, mjög hressandi að verja mörgum klst á viku á rauðum ljósum og í umferðarhnútum! 

Áfram Ísland.

Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 10:57

2 Smámynd: Óttarr Makuch

Einkennileg afstaða hjá þér að segja að fólkið í landinu sé búið að fá nóg af núverandi stjórnarflokkum þegar annar stjórnarflokkurinn mælist með rétt rúm 40% fylgi, get ekki betur séð en það séu einmitt skýr skilaboð að fólkið í landinu sé sátt við störf flokksins sem og það góða starf sem hann hefur unnið á síðustu árum.

En ég hef þó sagt að ummæli Steingríms sem þú hefur nú gert að þínum að það virðist vera eina markmið VG að fella ríkisstjórnina!  Merkilegt viðhorf, en heldur hefði ég viljað sjá menn með hugsjónir, hugmyndir og tillögur að því hvernig ætti að hrinda þeim í framkvæmd.

Ég get þó ekki annað en brosað þegar ég hugsa til þess að RÚV virðist vera ykkur meira hugleikið á þingi en Kárahnjúkar voru á sínum tíma.

Óttarr Makuch, 21.1.2007 kl. 12:33

3 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Sæll Óttarr.

Það verður seint sagt um okkur Vinstri græn að við höfum ekki hugsjónir, hugmyndir og tillögur.  Það eru mikil öfugmæli hjá þér að halda því fram.  Okkar línur eru skýrar.  Það hlýtur hins vegar að vera sjálfsagt takmark stjórnarandstöðu að ríkisstjórnin missi meirihluta sinn, því ella er hætt við að stjórnin sitji áfram - og það er að vitaskuld ekki keppikefli stjórnarandstöðunnar.

Árni Þór Sigurðsson, 21.1.2007 kl. 14:12

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Ég vona bara að ég þurfi ekki að horfa upp á R-lista samstarf í landsmálunum því nóg er að gera við að þrífa upp eftir ykkur í borginni og að koma fjármálunum í lag.

VG er flokkur þess eðlis að hann á best heima í stjórnarandstöðu. Nýtur sín best á þeim vígvelli. Nema hvað málþóf er úrelt fyrirkomulag og sóun á annars góðum hæfileikum ykkar og vekur ógleði hjá almenningi.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 21.1.2007 kl. 17:25

5 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Er ekki nær lagi að segja að vandræðagangur Framsóknar sé að fella ríkisstjórnina? Og einnig að ykkar fylkisaukningu meigi að mestu leiti rekja til ótraustvekjandi Samfylkingu frekar en að fólk sé mjög ósátt við ríkisstjórnina. Ríkisstjórnin hefur þó tæp 47.6% á bakvið sig, sem ekki er slæm útkoma eftir þetta langt samstarf. Ogekki held ég að þjóðinni hugnist stjórnarsamstarf Kaffibandalagsins með 32-33 þingmenn á bakvið sig. Og hvað þá að styrkja þannig bandalag með því að bæta Framsókn við. 

Guðmundur H. Bragason, 21.1.2007 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband