Er ekki komið nóg af virkjanafarganinu?

Á fundi borgarstjórnar í dag, þriðjudag, lögðum við Vinstri græn fram tillögu um að Orkuveita Reykjavíkur drægi til baka umsóknir sínar um rannsóknaleyfi vegna virkjana í Brennisteinsfjöllum og Kerlingarfjöllum.  Meirihluti borgarstjórnar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, gátu ekki tekið undir þessi sjónarmið og vísuðu tillögunni til stjórnar Orkuveitunnar!  Eins og þetta mál snúist eingöngu um hagsmuni fyrirtækisins en ekki heildarhagsmuni borgarbúa, m.a. með tilliti til umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða.

Tillagan sem við lögðum fram er þannig: Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir, sem eigandi að 93,54% hlut í Orkuveitu Reykjavíkur, að Orkuveitan dragi til baka umsókn sína um rannsóknaleyfi vegna virkjana í Brennisteinsfjöllum og Kerlingarfjöllum. Tillögunni fylgdi ítarleg greinargerð sem hangir við hér að neðan, en eftir að meirihlutinn hafði ákveðið að vísa tillögunni til stjórnar Orkuveitunnar, lögðum við borgarfulltrúar Vinstri grænna fram bókun í borgarstjórn: 

Borgarfulltrúar Vinstri grænna lýsa miklum vonbrigðum með viðbrögð meirihluta borgarstjórnar við tillögu VG um að Orkuveitar dragi til baka umsóknir um rannsóknaleyfi í Brennisteinsfjöllum og Kerlingarfjöllum.

Það vekur sannarlega furðu að um leið og afstaða almennings, atvinnulífs og stjórnvalda í umhverfistilliti hefur tekið stakkaskiptum undanfarin misseri skuli meirihluti borgarstjórnar skjóta sér undan því að taka afstöðu til framlagðrar tillögu. Sú staðreynd vekur áhyggjur af því að núverandi meirihluti borgarstjórnar sé enn fastur í hjólförum fyrri aldar og leggi ekki í að láta Brennisteinsfjöll og Kerlingarfjöll ósnortin í þágu sjálfbærrar þróunar og komandi kynslóða. Borgarstjórn Reykjavíkur á að taka efnislega afstöðu til málsins og fela Orkuveitunni að draga umræddar umsóknir til baka. Ríkisstjórnarflokkarnir í ráðhúsinu sýna hér skort á stórhug. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun hins vegar hér eftir sem hingað til berjast fyrir verndun Brennisteinsfjalla og Kerlingarfjalla.
 

Ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem illu heilli stjórna einnig ferðinni í Ráðhúsi Reykjavíkur, telja sýnilega að enn sé ekki komið nóg af virkjanafarganinu, enn séu eftir ósnortin víðerni, náttúrperlur sem vert sé að krukka í með frekari virkjunum.  Mikilvægt er að þjóðin geri sér fulla grein fyrir því að þessir flokkar hugsa sér að halda áfram stóriðjustefnunni.  Það verður hins vegar að stöðva.  Næsta tækifæri til þess eru þingkosningarnar 12. maí. 

Greinargerðin með tillögu okkar: 

Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg kappkostað að búa vel að Reykjanesfólkvangi, enda leikur enginn vafi á gildi fólkvangsins fyrir Reykvíkinga eins og reyndar landsmenn alla. Á síðasta kjörtímabili samþykkti Reykjavíkurborg að tvöfalda fjárframlag til fólkvangsins, í haust samþykkti borgarstjórn að vísa tillögu Vinstri grænna um Eldfjallafriðland á Reykjanesi til Umhverfisráðs borgarinnar og við afgreiðslu fjárhagsáætlunar var samþykkt tillaga Vinstri grænna um framlög til rannsókna á fólkvanginum. Allar hafa þessar aðgerðir verið í anda stefnumótunar Reykjavíkurborgar í átt að sjálfbæru samfélagi, Reykjavík í mótun þar sem helstu stefnumið eru að Reykjavík verði til fyrirmyndar á öllum sviðum sem tengjast gæðum umhverfisins, að Reykjavík standi vörð um náttúrusvæði í borginni og stuðli að góðu aðgengi og fjölbreyttum útivistarsvæðum. Í sömu stefnu skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að beita sér gegn frekari skerðingu náttúrulegra svæða í borgarlandinu og vinna að friðun verðmætra náttúrusvæða í framtíðinni. Þó Reykjanesfólkvangur sé ekki inni í borgarlandinu er hann vissulega verðmætt náttúrusvæði og á ábyrgð borgarinnar að stórum hluta. Fleiri aðilar hafa beitt sér fyrir friðun og góðum aðbúnaði í Reykjanesfólkvangi, m.a. Landvernd sem kynnt hefur heildstæða framtíðarsýn fyrir Reykjanesskagann. Ljóst er að orkuvinnsla í Brennisteinsfjöllum og friðlýsing svæðisins í eldfjallafriðlandi eða eldfjallagarði fara illa saman. Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja gerðu samkomulag árið 2002 um að sækja sameiginlega um rannsóknaleyfi vegna virkjana í Brennisteinsfjöllum með það fyrir augum að hægt yrði að hefja orkunýtingu í kringum árið 2010. Nú hefur stjórn Hitaveitu Suðurnesja samþykkt að draga umsókn sína til baka og hvatt Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun til að fylgja fordæmi sínu. Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 19. desember sl. var samþykkt svohljóðandi bókun venga málsins: Bæjarstjórn Hafnarfjarðar fagnar því að Hitaveita Suðurnesja hf. hafi riðið á vaðið með yfirlýsingu um að draga til baka sameiginlega umsókn sína með Orkuveitu Reykjavíkur hf. um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Á þennan hátt hefur Hitaveita Suðurnesja hf. sýnt hófsemd í verkum sínum og forðast að sækjast eftir rannsóknar- og virkjanaleyfum á svæðum sem hafa óumdeilt náttúruverndargildi. Brennisteinsfjöll á Reykjanesskaga eru dæmi um slíkt svæði þar sem enginn efast um náttúruverndargildi þess. Svæðið sem er eina óspillta víðerni höfuðborgarsvæðisins býr yfir miklum jarðfræðiminjum og landslagsfegurð í samspili við menningarminjar. Útivistargildi Brennisteinfjalla mun einungis aukast í framtíðinni, fræðslu og vísindagildi þess er ótvírætt. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar vill hvetja stjórnir Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar að fylgja fordæmi Hitaveitu Suðurnesja. Með því gætu fyrirtækin sýnt samfélagslega ábyrgð sína í verki. Um leið að sótt verði í framtíðinni eftir rannsóknarleyfum á svæðum sem þegar hefur verið raskað en hlífa hinum. Þannig er sköpuð aukin virkari samræða um rannsóknarkosti hverju sinni. Kerlingarfjöll eru vinsælt og vel þekkt útivistarsvæði. Þau eru á náttúruminjaskrá með þeim rökstuðningi að þar sé stórbrotið og litríkt landslag, mikill jarðhiti og þau séu vinsælt útivistarsvæði. Með vísan til alls þessa er lagt til að borgarstjórn taki af skarið um að Orkuveitan, sem er að langmestu leyti í eigu borgarbúa, falli frá umsókn sinni um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum og Kerlingarfjöllum og leggi þannig sitt lóð á vogarskál friðunar þessara einstæðu svæða.     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lýstuð vonbrigðum?    Af hverju mótmæltuð þið ekki?

alla (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 22:22

2 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Sæl alla.

Við "lýstum vonbrigðum" þar sem tillagan fékk og fær efnislega umfjöllun áfram, þótt við hefðum viljað fá beina samþykkt borgarstjórnar.  Næsta skref er að ræða málið innan stjórnar Orkuveitunnar og þar mun Svandís Svavarsdóttir halda utan um málið af okkar hálfu.  Svo það er áfram í gangi og það er jákvætt, hitt voru vonbrigði að fá tillöguna ekki samþykkta strax.

Árni Þór Sigurðsson, 6.2.2007 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband