Tökum okkur á í málefnum innflytjenda

Í dag kom út skýrsla Evrópunefndarinnar gegn kynþáttafordómum og skorti á umburðarlyndi, ECRI (The European Commission against Racism and Intolerance).  Þetta er nefnd sem Evrópuráðið í Strasbourg kom á fót og hún er nú að birta 3ju skýrslu sína um Ísland.  Þarna kemur margt athyglisvert í ljós og er alveg skýrt að við Íslendingar getum staðið okkur miklu betur í málefnum innflytjenda enn við gerum.  Sumt af því sem betur má fara er á verksviði sveitarfélaga.  Því höfum við borgarfulltrúar Vinstri grænna ákveðið að leggja fram tillögu á næsta fundi borgarráðs sem tekur á þessu viðfangsefni.  Tillagan er þannig:

Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að vinna aðgerðaáætlun til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar í skýrslu Evrópunefndarinnar gegn kynþáttafordómum og skorti á umburðarlyndi, ECRI (The European Commission against Racism and Intolerance) og varðað geta Reykjavík og Reykvíkinga sérstaklega. Áætlunin verði unnin í samráði við þau ráð er málið varðar helst, s.s. velferðarráð, menntaráð, leikskólaráð, íþrótta- og tómstundaráð og mannréttindanefnd, og verði lögð fyrir borgarráð fyrir 1. maí nk.

Með tillögunni fylgir greinargerð þar sem frekari rökstuðning er að finna og sömuleiðis krækja á skýrslu Evrópunefndarinnar í heild sinni.  Greinargerðin er svofelld:

Evrópunefndin gegn kynþáttafordómum og skorti á umburðarlyndi (ECRI), sem sett var á laggirnar af Evrópuráðinu í Strasbourg, hefur birt 3ju skýrslu sína um stöðu innflytjendamála á Íslandi.  Í skýrslunni koma fram fjölmargar ábendingar um það sem betur má fara af hálfu íslenskra stjórnvalda um leið og greint er frá því sem vel hefur tekist til á undanförnum árum. Nefndin skilaði síðast skýrslu um Ísland árið 2002 og benti þá á allmörg atriði sem íslensk stjórnvöld þyrftu að vinna að og hefur sumum af þeim hlutum þegar verið hrint í framkvæmd en öðrum ekki. Í skýrslunni er m.a. vikið að þörfinni fyrir að auka réttindi erlendra kvenna sem sæta heimilisofbeldi hér á landi, þörf sem mikið hefur verið til umræðu í íslenskum fjölmiðlum að undanförnu.  Ennfremur er fjallað um mikilvægi þess að bæta íslenskukunnáttu innflytjenda sem og að auka þekkingu þeirra á réttindum sínum sem starfsmanna og raunar á réttarstöðu þeirra almennt.  Þá eru stjórnvöld og hvött til að stuðla að stofnun alþjóðlegra menningarmiðstöðva og leggja þeim til nægilegan mannafla og rekstrarfé. Margt af því sem nefndin leggur til snertir sveitarfélögin með beinum hætti, enda þótt ríkisvaldið sé ábyrgt gagnvart skuldbindingum íslenskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi.  Nægir þar að nefna hvernig staðið er að móttöku innflytjenda, menntun, bæði í grunn- og leikskólum sem og fullorðinsfræðslu, almenn mannréttindi o.fl.  Því er full ástæða fyrir Reykjavík, sem lang stærsta sveitarfélag landsins og höfuðborg, að taka ábendingar nefndarinnar nú þegar til skoðunar að því er varðar borgina og vinna aðgerðaráætlun til að taka á þeim verkefnum sem augljóslega eru í verkahring hennar.  Því er lagt til að borgarstjóra verði falið að vinna slíka áætlun og kalla til þeirrar vinnu þau ráð og nefndir sem helst hafa með umrædd málefni að gera og skila tillögum til borgarráðs. 

Skýrslu ECRI má nálgast hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sammála síðasta ræðumanni Hönnu Birnu.

Það er ekki nóg að sveipa sig skýrslum sem koma að utan ef stjórnmálamenn hafa ekki getað mótað sér sjálfstæða skoðun á málinu sjálfir.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 14.2.2007 kl. 01:37

2 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Og á þá ekki að taka til hendi þegar í ljós kemur að misbrestur hefur orðið á að einhverju leyti?

Árni Þór Sigurðsson, 14.2.2007 kl. 07:46

3 identicon

 Hver er stefna Vinstri Grænna varðandi verðtrygginguna sem er klínd á neyslulán Íslendinga?  Afnám eða ekki?

Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 09:10

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eitt af því, sem þessi Evrópunefnd gegn kynþáttahyggju og skorti á umburðarlyndi, ECRI, leggur áherzlu á, er að stjórnvöðld liðki sem mest til fyrir útlendinga að geta tekið þátt í kosningum til þings og sveitarstjórna hér á landi. Þetta kann að vera gælumál þeirrar nefndar, hún vill eflaust standa undir þessu ábúðarmikla nafni sínu (og ekki mæli ég kynþáttafordómum bót), en ekki er ég sammála því, að tugþúsundir útlendinga fái þessi réttindi á næsta hálfum til heilum áratug. Það myndi í sjálfu sér skekkja kosningaúrslit hérlendis og getur reynzt okkur e.k. Trójuhestur til inngöngu í Evrópubandalagið. Er það ekki íslenzkrar þjóðar að ákveða það sjálf, hvort hún gengur í það bandalag? eða eiga úrslit hugsanlegrar atkvæðagreiðslu um slíkt í [sem fjarlægastri] framtíð að ráðast af því, að tugþúsundir útlendinga geri ógæfumuninn til að meirihlutinn velji þetta hlutdræga "já!" í slíkum kosningum?!

Ég sagði: hlutdræga "já!" af því að mönnum finnst að öðru jöfnu auðveldara og "jákvæðara" að segja "já" en "nei". Spurning um aðildarviðræður ætti því aldrei að verða sett þannig upp. Annars eru aðildarviðræður auðvitað ekki á dagskrá og verða vonandi aldrei -- við Árni erum jafnvel sammála um það, hygg ég.

Jón Valur Jensson, 14.2.2007 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband