25.2.2007 | 23:08
Glæsilegum landsfundi lokið
Þá er lokið 5. landsfundi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Fundurinn var sá fjölmennasti til þessa, um 500 fulltrúar áttu sæti á honum. Óhætt er að fullyrða að fundurinn hafi verið hinn glæsilegasti, mikil eindrægni og stemning einkenndi allt starf og góð málefnavinna bar ríkulegan ávöxt.
Segja má að með þessum landsfundi sé kosningabaráttan formlega hafin af hálfu okkar Vinstri grænna. Efstu frambjóðendur í öllum kjördæmum kynntu kosningaáherslur flokksins og þar er tekið á helstu verkefnum, svo sem í velferðarmálum, umhverfismálum, jafnréttismálum, efnahags- og skattamálum, atvinnu- og byggðamálum og utanríkismálum.
Af umræðunni í þjóðfélaginu er ljóst að margir eru nú að taka upp sömu mál og við Vinstri græn höfum haldið á lofti um langt skeið, og nægir að nefna umhverfismálin í því efni. Það er ánægjuefni að þau brýnu mál skuli nú vera orðin fyrirferðarmikil í íslenskri samfélagsumræðu og líklega eitt af helstu kosningamálunum í vor. Hið sama má segja um jafnréttismálin. Umræðan um nauðsyn þess að koma á raunverulegu jafnrétti kynjanna hefur aukist og flestir sjá nú mikilvægi þess að grípa til raunhæfra aðgerða í stað þeirrar kyrrstöðu sem ríkt hefur í þessum efnum um langt skeið. Og í velferðarmálunum er jafnvel Morgunblaðið farið að kyrja undir með okkur í VG um þá þjóðarskömm sem fátæktin í samfélaginu er, einu ríkasta samfélagi veraldar. Í öllum þessum málum sannast að dropinn holar steininn og sá meðbyr sem við vinstri græn finnum er tvímælalaust til marks um það, að menn uppskera eins og til er sáð. Með einarðri baráttu og stefnufestu, líka þegar á móti blæs, höfum við áunnið okkur traust og trúnað sem er ómetanlegt veganesti í stjórnmálum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hjartanlega sammála þér í þessu Árni, einhugurinn og samkenndin sem ríkti meðla fundarmanna var frábær. Málefnavinnan mjög góð og þær ályktanir sem þarna voru samþykktar.
Sædís Ósk Harðardóttir, 26.2.2007 kl. 18:24
Hvað mættu margir af þessum 500, eftir fréttamyndum að dæma vantaði nú eitthvað af fólki.
Pétur Þór Jónsson, 1.3.2007 kl. 23:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.