20.5.2006 | 20:04
Leikskólinn er hornsteinn menntakerfisins
Kann að vera að þessi fullyrðing sé nokkuð langsótt? En sannleikurinn er nú sá að leikskólinn er sá grunnur sem allt annað nám og önnur menntun byggir á lengi býr að fyrstu gerð. Það er því mikilvægt að tryggja góða leikskóla og að börn almennt eigi jafnan kost á leikskólagöngu án tillits til efnahags eða annarra aðstæðna. Þannig hefur það ekki alltaf verið og þannig er það ekki enn í dag, í upphafi 21. aldarinnar!
Málefni leikskólanna hafa lengið verið okkur vinstrimönnum hugleikin. Margir muna enn ástand leikskólamála í Reykjavík þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með meirihluta í borgarstjórn og hvernig grettistaki var lyft í þessum málaflokki eftir að félagshyggjuflokkar fengu umboð borgarbúa til að stjórna borginni. Þá fyrst var giftum foreldrum og sambúðarfólki heimilað að sækja um heilsdags leikskóladvöl fyrir börnin sín. Áður fengu börn foreldra sem bjuggu saman aldrei meira en hálfsdagsdvöl. Árið 1994 voru aðeins um 20-30% rýma í leikskólum borgarinnar heilsdagsrými, í dag lætur nærri að þau séu um 80-90%. Markvisst er stefnt að því að borgin geti boðið öllum börnum 18 mánaða og eldri heilsdagsdvöl í leikskólum og er óhætt að fullyrða að nokkuð vel gangi að ná því marki, þó nokkuð vanti þar enn á, einkum í yngstu hverfum borgarinnar.
Leikskólinn er nú viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og nú er orðið tímabært að þetta skólastig verði foreldrum að kostnaðarlausu. Það eru í dag hærri skólagjöld í leikskólum en einkareknum háskólum. Við Vinstri græn teljum það ófært. Þegar hafa verið stigin fyrstu skrefin í þá átt í Reykjavík að gera leikskólann gjaldfrjálsan og hafa barnafjölskyldur í borginni því fengið miklar kjarabætur.
Það er grátbroslegt að fylgjast með viðbrögðum minnihlutans í borgarstjórn og félaga þeirra á Alþingi, ekki síst fjármálaráðherrans, þingmanns Reykjavíkur við áformum um gjaldfrjálsan leikskóla. Gremja þeirra yfir frumkvæði borgarinnar er með ólíkindum. Enda hefur Sjálfstæðiflokkurinn í borgarstjórn lýst því yfir að hann styðji ekki gjaldfrjálsan leikskóla, hann mun sem sagt snúa við af þeirri braut, fái hann til þess umboð, og væntanlega leggja á ný gjöld á þá sem nú þegar hafa fengið umtalsverða lækkun gjaldanna.
Vinstri græn setti fyrst stjórnmálaflokka fram markmiðið um gjaldfrjálsan leikskóla. Sannleikurinn er sá að það hefur kostað nokkuð átak að sannfæra aðra um réttmæti þessa máls, jafnvel innan meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur. En dropinn holar steininn og nú hafa aðrir flokkar tekið þetta stefnumál VG og gert að sínu aðrir en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er vel. Hins vegar er sú hætta yfirvofandi að horfið verði frá áformum um gjaldfrjálsan leikskóla ef Sjálfstæðismenn ráða för í borginni.
Vinstri græn munu berjast fyrir því að leikskólinn verði að fullu gjaldfrjáls á næsta kjörtímabili og þannig undirstrikað að leikskólinn sé hornsteinn menntakerfisins. Látum ekki Sjálfstæðisflokkinn koma í veg fyrir það!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.