Þjóðarpúls Capacent/Gallup sem birtist í dag sýnir sterka kröfu í samfélaginu um nýja ríkisstjórn, umbótastjórn í þágu velferðar, jafnréttis og umhverfis. Vinstri græn yrðu kjölfestan í slíkri ríkisstjórn.
Fylgi Vinstri grænna hefur ekki mælst hærra í Gallup-könnunum síðustu 5-6 ár. Það sem jafnframt er eftirtektarvert er að fylgið við VG hefur mælst býsna stöðugt í undanförnum könnunum, hjá Gallup, Fréttablaðinu, Blaðinu o.fl. Meðan aðrir flokkar hafa rokkað nokkuð í fylgi hefur VG verið með í kringum 20% fylgi. Það lofar að sjálfsögðu góðu. Jafnframt eru það ánægjuleg tíðindi að í enn einni könnuninni kemur fram að ríkisstjórnin sé fallin og að Vinstri græn og Samfylkingin eru samanlagt með álíka mikið fylgi og stjórnarflokkarnir tveir. Það þýðir með öðrum orðum að það gæti orðið mögulegt að mynda tveggja flokka stjórn VG og Samfylkingar. Sannarlega pólitísk tíðindi.
Einhverjir bloggarar, sem eru litlir aðdáendur VG, telja að flokkurinn muni lækka í fylgi á næstunni, þar sem þessi könnun mæli ekki áhrif landsfundar flokksins um síðustu helgi. Benda þeir sömu á að þar hafi verið samþykkt öfgafull stefna í kvenfrelsismálum og einnig að því er varðar netnotkun.
Nú vill svo til að undirritaður var þingforseti á landsfundi Vinstri grænna og þar fór engin umræða fram um netið eða löggæslu því tengdu. Ummæli eftir landsfund, sem efnislega fjalla um að nauðsynlegt sé að efla öryggi í netnotkun og uppræta ólöglega starfsemi þar, m.a. tengdri barnaklámi, fíkniefnasölu, mansali o.þ.h. hafa verið toguð og teygð og rangtúlkuð af öfundarmönnum VG eins og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir rekur ágætlega á bloggsíðu sinni. Það er þeirra vandi.
Framsæknar hugmyndir voru hins vegar kynntar í kvenfrelsismálum og var þeim vísað til frekari skoðunar og umræðu innan stjórnar flokksins og verða þannig þróaðar áfram, leitað viðhorfa og sjónarmiða hagsmunaaðila o.s.frv. Það er þó rétt að halda því til haga að í nýjum stjórnarskrám ýmissa Evrópuríkja fær jafnrétti kynjanna traustari sess en áður og t.d. í Noregi hefur verið farin sú leið að tryggja a.m.k. 40% hlutdeild hvors kyns í stjórnum skráðra fyrirtækja. Hugmyndir þær sem reifaðar voru á landsfundi VG eru því langt í frá byltingarkenndar, fordæmalausar eða öfgakenndar. Þær eru hins vegar metnaðarfullar í þá átt að styrkja jafnrétti kynjanna og það er fróðlegt að sjá hvaða bloggarar það eru sem leggjast gegn því!
Gallup-könnunin í dag vekur vonir um að í vændum sé pólitískt vor á Íslandi. Það er sannarlega kominn tími til eftir fimbulvetur Framsóknar og Sjálfstæðisflokks undanfarin ár. Þjóðin á það skilið.
VG með meira fylgi en Samfylking | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er lag með Bjögga sem heitir "ég lifi í draumi", þið verðið þar áfram
Pétur Þór Jónsson, 1.3.2007 kl. 23:09
ÞAnnig er, að menn hafa reynt svona handstýrðar ,,jafnréttisáætlanir". Sammerkt er með þeim öllum, að öruggur fylgifiskur þess er, stóraukin útgjöld.
Þið reynduð þetta í stjórnun Rvíkurborgar, með þekktum árangri. Við erum svosem auðvitað ekki sammála um hvað þar uppúr stendur en í mínum huga er stóraukinn kostnaður við stjórnun og umsýslu borgarinnar. ÞAr um eru reikningarnir ólygnastir.
Ef ég stofnaði fyrirtæki með konu minni og tveimur dætrum, væri mér uppálagt, að fá til liðs við okkur amk einn karlmann, algerlega burtséð frá því, hvort ég væri þess fýsandi eða að viðkomandi væri hæfur til setu í stjórn þess.
Allt svona er óþarft og að mínu mati frekar niðurlægjandi fyrir konur. Vestfirðingar eru svo heppnir, að það hefur verið drukkið með móðurmjólkinni, að konur jafnt sem karlar eru jöfn til þess, sem hugur þeirra hneigist til, ekkert athugavert við, að konur færu fyrir búum eða væru formenn skipa.
Heiðarleiki og sanngirni eru bestu vegvísarnir í flestu því sem við tökum okkur fyrir hendur og affarasælast til lengdar. Handstýring er óyndisleg og fellur ekki að geði guma he´rlendis -ennþá.
með virðingu
Bjarni
Miðbæjaríhald
Bjarni Kjartansson, 2.3.2007 kl. 12:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.