Lítil grein til Guðlaugs Þórs!

Sá ágæti formaður umhverfisnefndar Alþingis, Guðlaugur Þór Þórðarson, fer nokkuð geyst í Morgunblaðinu 1. mars og gefur grein sinni heitið ”Sovésk stóriðjustefna vinstriflokkanna.” Guðlaugur er í hópi þeirra Sjálfstæðismanna sem títt eru nefndir í sömu andrá og rætt er um að Sjálfstæðisflokkurinn eigi innanborðs nokkra áhugamenn um umhverfismál. Nú sýnist mér að vísu að áhugi Guðlaugs Þórs á umhverfismálum tengist einkum Orkuveitu Reykjavíkur, ekki síst eftir að hann tók þar við stjórnarformennsku um mitt sl. ár. Má í þessu efni rifja upp að hann var í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna þegar flokkurinn studdi að Reykjavíkurborg gengist í ábyrgð fyrir Kárahnjúkavirkjun, með öllum þeim náttúruspjöllum sem sú framkvæmd hefur í för með sér. En allt um það – að sinni.

Nauðsynlegt er að taka fram, því auðvelt er að misskilja Guðlaug Þór að þessu leyti, að Vinstrihreyfingin – grænt framboð lagðist gegn orkusölusamningi við Alcan vegna stækkunar álbræðslunnar í Straumsvík. Það var m.a. gert á fundi borgarstjórnar þann 6. júní sl. þegar ég greiddi atkvæði gegn samningnum með eftirfarandi bókun:
”Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að nútímasamfélag byggist á mannauði, þeirri auðlind sem er mikilvægari öllum öðrum auðlindum.  Áform stjórnvalda um stækkun og fjölgun álvera einkennist af vantrú á hugmyndaauðgi og anda íbúa þessa lands og ótta við að án álvers fari allt á versta veg.  Þau áform sem nú eru til umræðu munu að því er best verður séð sprengja kvóta Kyoto-bókunarinnar og setja skuldbindingu Íslands í hættu.  Stækkun álversins í Straumsvík úr 180 þús. í 460 þús. tonn hefur neikvæðar afleiðingar fyrir umhverfi og náttúru, samfélag og efnahag.  Ég greiði því atkvæði gegn framlögðum orkusölusamningi. “

Hvað varðar stækkun Norðuráls í Hvalfirði er rétt að rifja upp að á þeim tíma voru tveir kostir í boði, annars vegar að ryðjast inn í Þjórsárver með Norðlingaölduveitu á vegum Landsvirkjunar, eða að Orkuveita Reykjavíkur tæki þátt í að afhenda orkuna í stækkun Norðuráls sem þá þegar hafði verið undirbúin. Við í VG tókum augljóslega þann kostinn að berjast fyrir verndun Þjórsárvera í fullu samræmi við það sem við höfðum ávallt sagt að við myndum gera.

Þá er það og rangt í grein Guðlaugs að Vinstri græn hafi í stjórn OR staðið að því að sækja um rannsóknaleyfi s.s. í Kerlingarfjöllum og Brennisteinsfjöllum. Hið rétta er að forstjóri OR sendi þær umsóknir inn án samráðs við stjórnina og VG hefur lagt til að þær rannsóknaleyfisumsóknir verði dregnar til baka.

Um sumarhúsabyggðina við Úlfljótsvatn þarf ekki mikið að fjölyrða. Rangt er þó að það mál hafi byrjað ”undir forystu Samfylkingar og Vinstri grænna” eins og hann segir í grein sinni, forystan í Orkuveitu Reykjavíkur var á hendi Framsóknarflokks sem nú starfar í meirihluta með félögum Guðlaugs Þórs í Sjálfstæðisflokknum. Það liggur fyrir að ég flutti tillögu um það mál fyrir hönd Vinstri grænna á fundi borgarstjórnar í júní sl. Í því máli áttum við Guðlaugur Þór ágætt samstarf og vorum algerlega sammála eins og hann mun kannast við.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. mars 2007).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Árni Þór, það er svo skemmtilegt að sjá þegar menn snúa hugtökum á haus.

Guðlaugur Þór talar um sovéska stóriðjustefnu stjórnarandstöðuflokkanna þegar fyrir liggur að ekkert sovéskara fyrirbæri er til á Íslandi en t. d. Kárahnjúkavirkjun sem knúin var í gegn með handafli ríkisins og ríkisábyrgð af því að annars hefði ekkert einkafyrirtæki getað farið út í svona áhættusama framkvæmd sem þar að auki stóðst ekki lágmarks kröfur um arðsemi.

Núna á að nota svipaða aðferð við að knýja í gegn risaálver á Húsavík í stalíniskum anda en á Húsavík sendu hins vegar vinstri grænir út bækling fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar undir nafninu "Eitthvað annað" með lista yfir það hvernig einkaframtakið fann leiðir til atvinnusköpunar eftir að staðnað kaupfélag lagði upp laupana.

Ómar Ragnarsson, 2.3.2007 kl. 22:03

2 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Alltaf finnst mér það jafn leiðinlegt þegar vinstri grænir tala um álbræðslu. Í Straumsvík er ekki brætt ál, það er rafgreint.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 6.3.2007 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband