4.3.2007 | 20:32
Já já og nei nei - og enn er Framsókn söm við sig
Framsóknarflokkurinn hefur verið í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í um það bil 4300 daga og það eru 70 dagar til kosninga. Þá stígur fram ráðherra Framsóknar og hótar stjórnarslitum! Og ástæðan er sú að ekki hefur tekist að koma ákvæði í stjórnarsáttmála um sameign þjóðarinnar á auðlindum inn í stjórnarskrána. Þó virðist vera meirihlutafylgi við slíkt á Alþingi.
Svo kemur formaður Framsóknar og segir að enginn hafi hótað stjórnarslitum! Það er gamalkunnugt að Framsóknarflokkurinn segi já já og nei nei og það endurspeglast mjög í þessu máli. Það er engu líkara en flokkurinn reyni nú í örvæntingu að fjarlægjast Sjálfstæðisflokkinn í þeirri von að hann nái að reisa sig í skoðanakönnunum. Hið sama gerði flokkurinn í aðdraganda kosninganna 2003 en allt það var svo gleymt og grafið á kosninganótt og stjórnarsamstarfið var endurnýjað. Ég spái því að það sama sé að gerast nú, Framsókn ætlar að draga línu milli sín og Sjálfstæðisflokksins þessar vikur sem eftir eru fram að kosningum, en hitt er ljóst að fái stjórnarflokkarnir nægilegt fylgi munu þeir halda áfram stjórnarsetu. Það er mikilvægt að kjósendur geri sér grein fyrir því.
Svo getur líka verið að Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra, sem tapaði naumlega í formannskjöri í Framsóknarflokknum sl. sumar, hafi með yfirlýsingu sinni um stjórnarslit verið að leika úthugsaðan pólitískan leik. Hún sér, eins og fleiri, að það er vel líklegt að Jón Sigurðsson formaður flokksins, nái ekki kjöri á Alþingi í vor og því muni fyrr en síðar koma að nýrri formannskosningu. Og lendi flokkurinn í löngu tímabærri stjórnarandstöðu, gæti staða Sivjar til að hljóta kosningu sem formaður Framsóknarflokksins verið sterk. Ekki síst eftir að hún hefur nú sent Sjálfstæðismönnum tóninn með afgerandi hætti. Raunar mun hún ekki verða ein um formannsslaginn því fleiri hugsa sér gott til glóðarinnar, t.d. formaður borgarráðs Reykjavíkur, Björn Ingi Hrafnsson.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Facebook
Athugasemdir
Um starfsaðferðir Framsóknarflokksins í ríkisstjórn: Sögðu nei og sátu hjá ... en síðast já við öllu.
Jóhannes Ragnarsson, 5.3.2007 kl. 12:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.