29.5.2006 | 22:52
8. maður íhaldsins!!
Nýr meirihluti er kominn á koppinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Ríkisstjórnin er á leið í Ráðhúsið. Hvernig stjórnarflokkarnir geta lesið skilaboðin frá kjósendum á laugardag þannig að það væri rökrétt, er mér lífsins ómögulegt að skilja. Kjósendur höfnuðu nefnilega Framsóknarflokknum og stóriðju(brj)álæðisstefnu ríkisstjórnarinnar en þá er eins og forkólfar ríkisstjórnarflokkanna ákveði að gefa þjóðinni langt nef: úr því að þjóðin er að reyna að refsa ríkisstjórninni er best að hún fái ríkisstjórnarflokkanna sem allra víðast við völd. Í Reykjavík, Kópavogi, Ísafirði, Húsavík og vafalaust miklu víðar.
Í fréttaviðtölum kom fram hjá oddvitum flokkanna að enginn málefnaágreiningur væri milli þeirra. Líklega er kenning Hannesar Hólmsteins rétt, um að eðlilegt væri að sameina Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Björn Ingi lýsti því yfir fyrir kosningar að slagurinn stæði um hann sjálfan eða 8. mann íhaldsins. Nú kemur í ljóst að hann meinti vitaskuld að slagurinn stæði um hann SEM 8. mann íhaldsins. Á örfáum klukkustundum var nýr meirihluti handsalaður, stólaskiptingin ákveðin en málefnin, ja þar er hvort eð er enginn ágreiningur.
Niðurstaðan hlýtur þá að vera að Framsóknarflokkurinn er ekki flokkur um nein mál, neina stefnu, heldur einungis um það eitt að sitja að völdum. Og varðar hann engu þótt nýi meirihlutinn hafi minnihluta kjósenda í Reykjavík á bak við sig. Það er svona eins og þegar Bush var kosinn forseti Bandaríkjanna, með minnihluta atkvæða. Enda eru ríkisstjórnarflokkarnir í sama leiðangri og Bush svona almennt talað.
Mestur er skaði Reykvíkinga. Hinn nýi meirihluti (sem er semsagt minnihluti) mun hundsa lýðræðisleg vinnubrögð enda er hann algerlega á móti umræðum eins og margoft hefur komið fram. Honum verður hins vegar veitt verðugt aðhald og við vinstri græn hefjum nú þegar undirbúning að því að velta ríkisstjórninni úr sessi á næsta ári - hið síðasta. Bylgjan sem við sigldum á í sveitarstjórnarkosningunum mun bara stækka og verða að boðafalli í þingkosningum að ári.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll, ég veit ekki hvort þú varst búinn að sjá þetta: http://www.islandsvinir.org/pet.asp
Þetta þarf að berast sem víðast!
Arngrímur (www.kaninka.net/arngrimurv) (IP-tala skráð) 31.5.2006 kl. 15:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.