Nú er rétt að staldra við

Hafnfirðingar tóku þá skynsömu ákvörðun í kosningu um stækkun álversins í Straumsvík að segja nei - hingað og ekki lengra.  Það er kominn tími til að staldra við og ljá umræðunni um atvinnu- og umhverfismál nýja hugsun.  Þingkosningarnar 12. maí nk. þurfa að innsigla þann vilja almennings sem endurspeglast í Hafnarfjarðarkosningunni í gær.

Það er ótrúlegt að eftir alla umræðuna um umhverfis- og náttúruverndarmál, umræðuna um óstöðugleikann í efnahagsmálum, viðskiptahallann og svimandi háa vexti, skuli enn örla á því viðhorfi að það sé svartur dagur í sögu lands og þjóðar að Hafnfirðingar skuli hafa hafnað stækkuninni.  Og að nú þurfi að hefjast þegar handa við Helguvík eða Húsavík!

Nei, einmitt núna er lag til að staldra við, halda áfram og ljúka við vinnu við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, skoða af einhveri alvöru margvíslega aðra atvinnukosti sem henta betur okkar litla samfélagi og koma landsmönnun öllum til góða, hvar sem þeir búa.  Sannleikurinn er sá að með gríðarlega mikilli innspýtingu inn á eitt atvinnusvæði, eins og eitt stykki álver sannarlega er, verður rýmið í litlu efnahagskerfi okkar nánast ekkert fyrir fjárfestingu í öðrum greinum og um leið verða aðrir landshlutar algerlega afskiptir í atvinnumálum.  Á sama tíma eykst viðskiptahallinn með alvarlegum afleiðingum fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinarnar, t.d. sjávarútveg og ferðaþjónustu, og vextir halda áfram að hækka.  Það leiðir til vaxandi skuldasöfnunar heimilanna og atvinnulífsins í landinu.  Hverjir vilja virkilega halda áfram á þessari braut?

Við eigum marga góða kosti í atvinnumálum.  Hvað mikilvægast í því efni er að hlúa að sprotafyrirtækjum og nýsköpun og þróun, stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi í hverjum landshluta, smáum og meðalstórum fyrirtækjum í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu, smáiðnaði, handverki, hugbúnaði, menningu, listum og sögu svo fátt eitt sé nefnt.  Ennfremur þarf að leggja enn meiri kraft í menntun og rannsóknir til að auka samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.  Tækifærin eru víða ef stjórnvöld bera gæfu til að opna augun og skapa góð skilyrði fyrir fjölbreytt atvinnulíf í stað þess að einblína á eina allsherjarlausn sem þar að auki veldur óstöðugleika, þenslu, háum vöxtum og hefur einungis lítil staðbundin áhrif á vinnumarkað.  Atvinnustefna núverandi stjórnvalda sver sig óþyrmilega í ætt við stórkarlalegar lausnir í ráðstjórnarríkjum víða um heim og ætti að vera löngu aflögð.  Tækifærið til að segja skilið við hana er þann 12. maí nk.  Látum það tækifæri ekki ónotað.


mbl.is Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örvar Már Marteinsson

Smá leiðrétting:

Helmingur Hafnfirðinga hafnaði stækkun álversins.

Kv.

Örvar Marteinss

Örvar Már Marteinsson, 1.4.2007 kl. 14:54

2 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Nú af hverju ekki Álver í Helguvík?  Áratuga draumur ykkar VG rættist í haust þegar að herinn fór af landi brott.  Tugir ef ekki hundruðir Suðurnesjamanna sækja störf sín á höfuðborgarsvæðið af illri nauðsyn.  Álver myndi gefa atvinnulífinu á Suðurnesjum byr undir báða vængi og skapa fjölmörg ný störf.  Við höfum bæjarstjórnir sem þora að taka ákvarðanir.  Þorri Suðurnesjamanna vill Álver í Helguvík.  Tel að VG komi ekki í veg fyrir það.  Þann 12 maí rennur upp stóri dagurinn.  Skoðannakannanir hafa sýnt ykkur VG í 25-27% fylgi sem er að mínu mati "hættulega" mikið. 

Örvar Þór Kristjánsson, 2.4.2007 kl. 10:26

3 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Er ekki rétt að láta kjósendum það eftir að meta hvað sé "hæfilegt" fylgi hvers flokks um sig?  Lýsir afstaða þín Örvar Þór ekki mikilli lítlsvirðingu gagnvart almenningi?

Árni Þór Sigurðsson, 2.4.2007 kl. 11:43

4 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Sæll Árni Þór

Ég tel mig ekki vera að gera lítið úr almenningi í landinu. Þetta íbúalýðræði náðist í gegn þegar að kosið var um bæjarstjórn, Hafnfirðingar kusu Samfylkinguna sem átti með réttu að taka ákvörðunina.  Í Reykjanesbæ kusum við Sjálfstæðismenn til valda, þeir taka ákvörðunina um Helguvík.  Í svona stóru og umdeildu máli reyndist þetta íbúalýðræði ekki vel.  Heill bær er klofinn og einhver sár verða lengi að gróa.  Eftirmálar eru nú þegar hafnir.  Hinsvegar ber að virða þessa niðurstöðu og hvað gerist með Álverið verður að koma í ljós.  Vilt þú sjá Álverið í Straumsvik loka í nánustu framtíð? Af hverju vilt þú ekki að Álver rísi í Helguvík?

P

Örvar Þór Kristjánsson, 2.4.2007 kl. 14:34

5 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Ég var nú að vísa til þess sem þú segir um "hættulega mikið" fylgi við VG í skoðanakönnunum.  Með því finnst mér lítið gert úr kjósendum og þú ert alls ekki einn um að hafa látið svona sjónarmið í ljósi.  Ef þetta eru gild rök, hvað mættum við þá segja sem ekki styðjum Sjálfstæðisflokkinn um þau 30-40% sem það gera?  Maður á að sýna kjósendum virðingu, líka þó maður sé ósammála sjónarmiðum þeirra.

Árni Þór Sigurðsson, 2.4.2007 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband