Tilefnislausar áhyggjur

Í kjölfar álverskosningar í Hafnarfirði hafa ýmsir, m.a. iðnaðarráðherra, lýst áhyggjum af því að sem við tekur ef vinstri flokkarnir komast til áhrifa í landsstjórninni.  Talar hann þar um "stóra stopp" og segir að stóriðjustefnan sé alls ekki dauð, heldur haldi hún áfram.

Þetta er auðvitað mjög skondið.  Þegar umræddur ráðherra tók við formennsku í Framsóknarflokknum í haust lýsti hann því yfir að Íraksstríðið væri mistök, og að engin stóriðjustefna væri til hjá stjórnvöldum.  Maður verður nú hálfruglaður á þessum misvísandi yfirlýsingum.

En af hverju að hafa áhyggjur?  Vissulega verður breytt um stefnu í fjölmörgum málum ef stjórnin fellur í kosningunum 12. maí nk.  Hvað er það sem við í VG viljum t.d. stöðva og veldur Jóni Sigurðssyni svona miklu hugarangri?  Tökum nokkur dæmi um það sem við viljum stöðva:

  • hávaxtastefnan og aukin skuldabyrði heimilanna
  • viðskiptahallinn
  • einkavæðing samfélagsþjónustunnar
  • launamunur kynjanna
  • vaxandi misskipting milli þjóðfélagshópa
  • einhæf atvinnuuppbygging
  • byggðaflótti
  • niðurskurður í samgöngumálum
  • skuldasöfnun sveitarfélaga
  • stuðningur við árásarstefnu Bandaríkjanna
  • kynbundið ofbeldi, vændi og mansal
  • félagslegur ójöfnuður
  • eyðilegging á náttúruperlum landsins

Þetta er meðal þess sem við viljum ekki standa að, en vitaskuld getur verið að ríkisstjórnarflokkarnir vilji halda áfram á þessari braut.  Vinstrihreyfingin grænt framboð vill breyta um stjórnarstefnu og leggja m.a. áherslu á:

  • stöðugleika í efnahagsmálum
  • lækkun vaxta
  • jafnvægi í gengismálum
  • fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf um allt land
  • að sérstaklega verði hlúð að starfsskilyrðum útflutnings- og samkeppnisgreina
  • að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki búi við góð skilyrði
  • að styrkum stoðum verði rennt undir lífræna matvælaframleiðslu
  • réttlátt skattkerfi m.a. með hækkuðum skattleysismörkum
  • félagslegan jöfnuð
  • mannsæmandi kjör fyrir aldraða og öryrkja
  • samfélagsþjónustu fyrir alla óháð efnahag
  • stóreflt og fjölþætt menntakerfi, allt frá leikskóla og upp í háskóla
  • jafnrétti kynja í raun
  • blómlegt fjölmenningarlegt samfélag
  • markvissar aðgerðir í byggða- og samgöngumálum, m.a. með jöfnun flutningskostnaðar
  • umhverfis- og náttúruvernd í verki
  • sjálfstæða utanríkisstefnu

Og margt margt fleira.  Eru það þessi stefnumál sem valda iðnaðarráðherra hugarangri?  Það er fásinna að láta eins og allt sé í voða ef skipt verður um ríkisstjórn.  Raunar er það löngu orðið tímabært.  Áhyggjur formanns Framsóknarflokksins og ýmissa annarra af hugsanlegum stjórnarskiptum eru tilefnislausar.  Þvert á móti getur vel verið að ríkisstjórnarflokkarnir séu orðnir svo þreyttir á hvor öðrum að það færði þeim raunverulega hugarró að þurfa ekki að sitja lengur saman við ríkisstjórnarborðið.  Kannski þeir ættu að fara að venja sig við þá tilhugsun?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Þessi kosningabrella virðist virka í hverjum kosningum:

VARIST VINSTRI SLYSIN er orðið meira en 30 ára gamalt. Virkaði þá, virkar í dag.

Merkilegt hvað fólk er ginnkeypt fyrir þunnylda orðaskaki.

Ólafur Þórðarson, 2.4.2007 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband