2.4.2007 | 22:00
Afleikir Jóns
Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, er fremur seinheppinn í yfirlýsingum sínum að mínu mati. Í kjölfar almennrar og lýðræðislegrar kosningar í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík, þar sem Hafnfirðingar höfnuðu stækkuninni, lýsir hann því yfir að bæjaryfirvöld séu ekki bundin af þeirri niðurstöðu og er á honum að skilja að þau geti sem best haft hana að engu.
Í viðtali á Stöð 2 í kvöld lýsir hann svo þeirri skoðun sinni að samstarf við flokka sem vilja ekki halda áfram á stóriðjubrautinni komi ekki til greina. Er það kannski ekki úr vegi að rifja upp viðtal við þann sama Jón í Morgunblaðinu 28. júní sl. en þar er haft eftir honum: "Hann [Jón] segir marga standa í þeirri trú að hér sé rekin virk stóriðjustefna en mikilvægt sé að leiðrétta þennan misskiling."
Þarna er formaður Framsóknarflokksins, þá nýlega orðinn iðnaðarráðherra, að afneita tilveru stóriðjustefnunnar. Nú lýsir hann því yfir að hann vilji ekki vinna með neinum nema þeim sem vilja viðhalda stóriðjustefnunni!! Í hve marga hringi ætlar maðurinn eiginlega?
Þessi útspil formanns Framsóknarflokksins, nú þegar 6 vikur eru til þingkosninga eru ekki pólitísk klók. Enda þótt margir (og e.t.v. flestir) áhrifamenn innan flokksins telji nú að líkur á því að núverandi stjórnarflokkar fái afl til að sitja áfram séu hverfandi, er vitaskuld ekki útséð um hvernig ríkisstjórnarmynstur geta komið til álita. Ætlar Framsóknarflokkurinn að dæma sig úr leik fyrirfram?
Við í VG höfum t.d. ekki útilokað samstarf við neinn flokk þótt við eigum vissulega meiri samleið með núverandi stjórnarandstöðuflokkum en stjórnarflokkum. Nýlegt útspil Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum hefur vissulega komið illa við okkur mörg í VG, en á þessu stigi er ekki rétt að útiloka samstarf enda alls óvíst hvaða mál verða sett á oddinn í stjórnarmyndunarviðræðum. Hið sama hlýtur að eiga við um Framsókn. Þótt flokkurinn hafi verið í forystu fyrir stóriðjustefnunni og umhverfisfórnum sem við í VG höfum barist hatrammlega gegn, er aldrei að vita nema þar á bæ séu menn reiðubúnir að hugsa þau mál upp á nýtt að loknum kosningum.
Á síðasta kjörtímabili störfuðu Vinstri græn, Samfylking og Framsóknarflokkur saman í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og náðu margháttuðum árangri þótt vissulega væru skoðanir oft skiptar. Á þessu kjörtímabili starfa þessir flokkar saman í meirihluta í Árborg. Ber að skilja yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins þannig að hann útiloki þess háttar stjórnarsamstarf á landsvísu? Ef svo er, þá er það athyglisvert en augljóslega ekki klókt. Þessi útspil Jóns Sigurðssonar eru afleikir og raunar afar ósennilegt að raunsæir og reyndir stjórnálamenn í forystu flokksins bakki formanninn upp í þessari afstöðu. Við sjáum hvað setur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Alcan gæti hæglega stækkað álver sitt í Straumsvík upp í 350.000 tonn, miðað við gildandi deiliskipulag þrátt fyrir niðurstöðu íbúakosningarinnar í Hafnarfirði á laugardaginn. Ekki er hægt að útiloka að þetta verði gert segir bæjarstjórinn.
Hafnfirðingar felldu sem kunnugt er um helgina, deiliskipulagstillögu sem gerði ráð fyrir stækkun álversins í Straumsvík upp í 460.000 tonna framleiðslugetu. Nú er árlega hægt að framleiða 180.000 tonn af áli í Straumsvík í þremur kerskálum. Í tveimur hinna eldri er hægt að framleiða 55.000 tonn í hvorum skála en 70.000 tonn í þeim nýjasta. Tillagan sem kosið var um á laugardaginn gerði ráð fyrir að hægt yrði að reisa tvo nýja kerskála og í hvorum um sig mætti framleiða 140.000 tonn á ári. Samtals stóð því til að tvöfalda framleiðslugetuna, upp í 460.000 tonn. Samtals áttu því skálarnir að verða fimm.
Hins vegar á Alcan enn leik á borði sem er að rífa tvo elstu skálanna, sem samtals framleiða um 110.000 tonn, og reisa í staðinn þá skála sem til stóð að bæta við þar sem samanlögð framleiðslugetan er 240.000 tonn. Þannig gæti því framleiðslugeta álversins í Straumsvík farið upp í 350.000 tonn án þess að samþykkja þurfi nýtt deiliskipulag. Þegar er fyrirliggjandi starfsleyfi fyrir allt að 460.000 tonna verksmiðju og umhverfismatið liggur líka fyrir þótt kannski þurfi að gera á því lítilsháttar lagfæringar".
Það vantar ekki mikið upp á að komast í 460.000 tonn. Smá útsjónarsemi er allt sem þarf ... Nú ættu allir að geta verið ánægðir. Það var jú bara verið að kjósa um deiliskipulag, eða þannig...
Ágúst H Bjarnason, 2.4.2007 kl. 22:54
Sæll Sveinn.
Ég er bara að benda á það að formaður Framsóknarflokksins hefur útilokað samstarf við þá sem vilja stöðva stóriðjustefnuna, þ.e. bæði VG og Samfylkinguna. Það er mikil oftúlkun á mínum orðum að í því felist daður við Framsóknarflokkinn.
Árni Þór Sigurðsson, 5.4.2007 kl. 10:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.