Stórbæra þarf kjör og aðstæður aldraðra

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur ekki staðið sig í málefnum aldraðra. Kjör þeirra hafa versnað á undanförnum árum, jafnvel í góðærinu og skattalækkunum sem orðið hafa, eru aldraðir einkum sá hópur sem hefur setið eftir. Lífeyrir hefur ekki fylgt almennri launaþróun og skattalækkanir ríkisstjórnarinnar hafa einkum komið hinum tekjuháu til góða. Aldraðir fylla almennt ekki þann hóp. Á þessu þarf að verða breyting.

Íslenskt samfélag hefur tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum áratugum. Tuttugasta öldin er öld stórstígustu framfara sem orðið hafa á Íslandi. Kynslóðin sem skaut traustum stoðum undir atvinnulífið, sem barðist fyrir bættum kjörum og félagslegum rétti, kynslóðin sem byggði upp velferðarkerfið sem við búum við í dag, það er kynslóðin sem nú fyllir flokk aldraðra. Þjóðinni ber skylda til að búa vel að brautryðjendum sínum og sjá til að aldraðir þurfi ekki að hafa áhyggjur af afkomu sinni og aðbúnaði. Það er það minnsta sem við getum gert. Á það hefur hins vegar skort og það er afar brýnt að á því verði breyting. Tækifærið til þess er í vor þegar gengið verður að kjörborðinu og það tækifæri má ekki láta ónotað.

Á sama tíma og kaupmáttur hefur almennt aukist, bæði vegna kjarasamninga, skattalækkana og annarra atriða, hefur kaupmáttur lífeyrisgreiðslna ekki fylgt með. Lífeyrir hækkar ekki reglubundið eins og laun skv. kjarasamningum og skattalækkanir hafa ekki skilað sér til tekjulægstu hópanna, þ.m.t. þeirra sem eru á lífeyri hvers konar. Persónuafslátturinn hefur langt í frá fylgt almennri verðlagsþróun frá því honum var komið á með staðgreiðslunni á níunda áratugnum. En persónuafslátturinn í skattkerfinu er sá þáttur sem skiptir lágtekjufólk mestu máli, hann ræður því við hvaða tekjumörk fólk byrjar að greiða tekjuskatt. Fyrir aldraða, sem flestir hverjir hafa eingöngu lífeyrisgreiðslur til framfærslu, myndi hækkun persónuafsláttar hafa mikil áhrif til að bæta kjör þeirra. Vel má hugsa sér að sérstakur persónuafsláttur bætist við þá sem eingöngu eru með lífeyrisgreiðslur, vilji menn koma í veg fyrir að allir, líka þeir tekjuhæstu, njóti hækkunar persónuafsláttar. Hugmyndir um lægra skattþrep fyrir lífeyrisgreiðslur koma einnig vel til álita. Meginatriðið er að það verður að auka kaupmátt lífeyrisgreiðslna, og það strax.

En fleira en kaupmátturinn varðar aldraða sérstaklega. Uppbygging þjónustu fyrir aldraða hefur því miður setið á hakanum um langt skeið. Stórbæta þarf heimahjúkrun og samþætta hana félagslegri heimaþjónustu sveitarfélaganna. Aukin og bætt hjúkrun og þjónusta á heimilum getur gert mörgum kleift að búa lengur heima og það eru vissulega margir sem það kjósa. Ennfremur þarf að taka á í uppbyggingu hjúkrunarheimila, einkum á höfuðborgarsvæðinu þarf sem biðlistar eru langir. Þar þarf sérstaklega að horfa til þess að breyta fjölbýlum óskyldra í einbýli en einnig að tryggja að hjón séu ekki aðskilin þegar annað þarf á mikilli umönnun að halda en hitt ekki. Því miður eru sífellt að berast fréttir um slíkt og það er samfélaginu til vansa.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki sinnt þessum málaflokki sem skyldi. Hún hefur verið of upptekin við álæðið og stóriðjustefnuna og að hlúa að fjármagnseigendum og hátekjufólki. Í vor þarf að verða breyting. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur m.a. höfuðáherslu á samábyrgt velferðarkerfi. Í því felst að við viljum nýta hinar almennu skatttekjur til að greiða fyrir grunnþjónustu velferðarkerfisins og ýmist fella niður eða draga verulega úr þjónustugjöldum hvers konar á móti. Forsenda þess að það verði stefnubreyting í málefnum aldraðra er að Vinstri græn viðhorf verði ráðandi í næstu ríkisstjórn. Atkvæði greitt Vinstri grænum er verðmætt atkvæði. Það er ávísun á allt annað líf. 

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. apríl 2007.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Árni.

Það er lámarks krafa sem ég geri að þú farir með rétt mál.

Þessi ríkisstjórn er framfarastjórn og hefur farið mjög vel með sitt vald þann tíma sem hún hefur verið við stjórn.

Þess vegna er þetta ekki rétt hjá þér Árni ef þú vilt láta taka mark á þér hafðu það hugfast að skrifa það sem réttast reynist.

Þú sem borgarfulltrúi til fjölda ára ættir að taka betur til þín þegar þú varst í borgarstjórn að gera betur varandi eldra fólk ekki rjúka fram á ritvöllinn og tala norður og niður til annara hugsaðu áður enn þú berð þennan málflutning fram hann er ekki martækur að mínu áliti eldra fólk á skilið betra skilið að þú hefðir beitt þér varandi byggjingu hjúkrunarheimila þegar þú varst í borgarstjórn.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 3.4.2007 kl. 23:04

2 Smámynd: Hlynur Hallsson

Fín grein Árni. Ég missi því miður af fundinu hjá ykkur hér á Akureyri í kvöld. Bestu baráttukveðjur,

Hlynur Hallsson, 4.4.2007 kl. 09:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband