Góð stemning á Akureyri

Á miðvikudaginn var ók ég norður til Akureyrar til að vera gestur á opnum fundi Vinstri grænna í kosningamiðstöðinni í Hafnarstrætinu.  Fundurinn var liður í fundaröðinni "Vinstri græn um allt land" sem nú stendur yfir.  Það er mikilvægt fyrir okkur frambjóðendur af höfuðborgarsvæðinu að kynnast áherslur vítt og breitt um landið og heilsa upp á kjósendur þar ekki síður en á suðvesturhorninu.  Það eykur víðsýni og breidd.

Þetta er fjórði fundurinn sem ég sæki utan suðvesturhornsins í þessari kosningabaráttu.  Áður hef ég heimsótt Reykjanesbæ, Akranes og Hornafjörð.  Fundurinn á Akureyri var vel sóttur og umræður feikigóðar.  Auk mín fluttu heimaframbjóðendurnir Björn Valur Gíslason (3. sæti í NA-kjördæmi) og Dýrleif Skjóldal (4. sæti í NA-kjördæmi) ræður.  Allt gekk það vel og umræður snérust um atvinnu- og byggðamál, samgöngumál, efnahagsmál, menntamál, umhverfismál og sjávarútvegsmál svo það helsta sé nefnt.  Stemningin var og er sem sagt mjög góð á Akureyri, höfuðvígi kjördæmisins.

Frambjóðendurnir í efstu sætum, þau Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman, voru að sjálfsögðu á fundinum líka og tóku þátt umræðum.  Í þessari fundaröð VG um landið höfum við kostað kapps um að blanda saman frambjóðendum af fleiri listum og það hefur gefist vel.  Með því móti kynnast frambjóðendur flokksins vel, þeim gefst kostur á að kynna sig og það kemur síðan glöggt fram að VG hefur eina stefnu óháð því í hvaða kjördæmi við erum.

Áður en fundurinn hófst gafst okkur tækifæri að vera viðstödd beina útsendingu Stöðvar 2 á umræðum oddvita flokkanna í norðausturkjördæmi frá safnaðarheimilinu á Akureyri.  Þar var Steingrímur J. að sjálfsögðu og stóð sig vel eins og endra nær.  Kynntar voru niðurstöður úr skoðanakönnun innan kjördæmisins þar sem kemur fram að VG er að bæta við sig um 8% frá síðustu kosningum, eða rúmlega 50% aukning, sem verður að teljast mjög gott.  Sjálfstæðisflokkurinn bætir líka verulega við sig, og er þar væntanlega að gæta áhrifanna af oddvitaskiptum.  Tíðindin mestu þar eru þó þau að Framsóknarflokkurinn hrynur úr 33% í um 12% sem hlýtur að vera flokknum mikið áfall.

Að fundi loknum ók ég frá Akureyri suður í Borgarfjörð þar sem ég eyði páskahelginni með fjölskyldunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Jæja Árni. Gaman að vita að ykkur hérna fyrir norðan. Ég er ekki viss um að félagi Steingrímur hafi verið glaður með þessi 21%. Fyrir 12 dögum mældist VG með 36% fyrir viku með 29% og þarna 21%. Okkur sem þekkjum stíl Steingríms duldist ekki að hann var arfafúll enda ástæða til...allt á hraðri niðurleið hér hjá honum miðað við skoðanakannanir.

Jón Ingi Cæsarsson, 7.4.2007 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband