9.4.2007 | 21:45
Stjórnmálaleiðtogar í Kastljósi
Fyrsti umræðuþáttur leiðtoga stjórnmálaflokkanna fyrir kosningarnar í vor, var í Kastljósi nú í kvöld. Þátturinn fór hægt af stað en eftir því sem á leið færðist meira fjör í leikinn.
Ég var að sjálfsögðu mjög ánægður með minn mann. Steingrímur J. var yfirvegaður og kurteis, en um leið fylginn sér og ákveðinn og kom málstað okkar Vinstri grænna vel á framfæri. Umræðan um stórðjumálin, velferðarmálin og skattamálin sýndi vel muninn á stefnu núverandi ríkisstjórnar og stjórnarandstöðunnar.
Stóriðjustefnan er í raun komin í þrot og meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn viðurkennir það, þótt formaður hans hafi reynt að verja stóriðjustefnuna með hangandi hendi. Steingrími tókst líklega best upp í umræðunni um skattamálin, einkum vegna þess að hann kom vel á framfæri þeirri óréttlátu skattastefnu sem rekin hefur verið af núverandi stjórnarflokkum með aukinni misskiptingu og ennfremur skýrði hann vel út á skýru og einföldu máli kjarnann í skattastefnu Vinstri grænna.
Í heildina fannst mér Steingrímur bera af, en einnig komust Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde vel frá sínu, þótt formaður Sjálfstæðisflokksins mætti alveg létta brúnina endrum og eins. Guðjóni Arnari tókst ekki vel að rökstyðja stefnu flokks síns í málefnum innflytjenda og Jón Sigurðsson virkaði á mig eins og biluð plata sem annars vegar spilar bara stoppsönginn gagnvart stjórnarandstöðunni og hins vegar hálftilbiður Sjálfstæðisflokkinn. Ekki góð taktík. Ómar var í fyrsta skipti í hlutverki sínu sem stjórnmálaleiðtogi og komst ágætlega frá því en skýrði auðvitað ekkert út hvað "hægri" stefnan hans gengur út á. Það kemur vonandi síðar.
Stjórnendurnir, Sigmar og Jóhanna Vigdís, stóðu sig prýðilega og höfðu ágæta stjórn á þættinum og komust yfir þokkalega mikið. Sem sagt, ég var bara ánægður með þáttinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sammála þér með Steingrím og Ingibjörgu, mér finnst geir of litlaus.
Tómas Þóroddsson, 9.4.2007 kl. 22:10
Geir litlaus - ha, ha ef einhver er í lit a.m.k. bláum þá er það Geir.
Joðið er eins Svart-Hvítt og hægt er að vera - örlar ekki á neinum öðrum litatónum. Joðið ætlar að efla almannaþjónustu eins og hann kallar það en ekki hækka skatta. Svo má ekki virkja og framleiða ál lengur. Aðrar þjóðir öfunda okkur stórkostlega sbr. viðtal við Ásgeir Margeirsson forstjóra Geysir Green Energy á Stöð 2 í dag. Við getum veitt þessum þjóðum ráðgjöf og jafnvel fjárfest erlendis í grænni orku en hann varaði við stoppi á virkjunarframkvæmdum því þá drögumst við strax aftur úr tæknilega og höfum aðeins gamlar úreltar lausnir að bjóða. VG hefur nákvæmlega enga innsýn í hvernig atvinnulíf þróast. Þeir eru tilbúnir að stöðva atvinnustarfsemi í þessu landi allt vegna popúlisma sem þeir hafa búið sér til með skotgrafarhernaði í nafni svokallaðar náttúruverndar. Tækniþekking í áliðnaði, vatnsaflsvirkjununum, jarðvarma og annað sem hangir á þessari mikilvægu spýtur skal lagt og fók lesa um það í sögubókum. Hugsið ykkur VG hefur tekist það ómögulega að láta þjóðina deila um hvort vatnsorka eða jarðvarmi sé nú verri kostur þegar aðrar þjóðir eiga ekki þessa frábæru kosti. Um hvað erum menn að deila umbúðir eða innihald?
Hvað er að hjá ykkur í VG? Hafið þið engan metnað í atvinnu, orku og loftlagsmálum? Leyfið fólki að starfa við fyrrnefndar atvinnugreinar og hættið þessu endalausa puðri um ekki neitt. Ykkar stefna er gjörsamlega út úr kortinu og verður aldrei endurnýtt, hún stenst ekki neina skynsemi í anda Sjálfbærrar þróunar og nýtingu á hreinum orkugjöfum. Og þið leyfið ykkur að kalla ykkur umhverfissinna - hver leyfði ykkur það. Ef að þið eruð umhverfissinnar þá er ég ofsaumhverfisinni. Ykkar græna skikkja er svart-hvít!
kær kveðja
Sveinn
Sveinn Valdimar Ólafsson, 10.4.2007 kl. 00:50
Veistu það Árni að mér fannst Steingrímur og Solla bara djöfull andskoti flotti í þættinum! Svona vil ég hafa þetta. Beittu þér nú fyrir því að fólk tali á nótum "pönnukökubandalagsins" sem ég hef verið að tuða um. Steingrímur var nefnilega flottur þegar kom að ríkisstjórnarmyndun. Hann einn dró upp möguleikann að við mundum saman ná meirihluta og sagði sem er í hjarta voru að þetta er óskastaðan. Takið ykkur nú til og hringist á og stillið sman strengina í kosningabaráttunni. Okkar fólk í VG er fullt af sjálfstrausti og líður býsna vel í þessari baráttu fyrir kosningar. Það sé ég og gleðst yfir. En horfum aðeins lengra. Við eigum auðvitað að kætast yfir því að Samfylkingin er að ná sér á strik, Össur og Solla eru að halda fundi sem styrkir formanninn og hún kemur svona listavel út í Kastljósinu. Henni hefur ekkert gengið vel uppá síðkastið. Það skiptir öllu máli, já öllu máli að fella þessa ríkisstjórn. Það er sameiginlegt markmið VG og Samfylkingar og því eiga þau að vinna að því saman. Og hvers vegna þá ekki að tala saman um hvernig best er að standa að þeirri orrustu?
Svona komiði nú vitleysingarnir ykkar! Sumir voru einu sinni í sama flokki, aðrir saman í kröfugöngu og enn aðrir stóðu í ströggli saman einhvers staðar svo ekki gekk hnífur á milli.... Þetta er svo lítið mál. Eitt símtal, lítið samkomulag og þá vinnum við þessar kosningar. Sannaðu til!
Pétur Tyrfingsson, 10.4.2007 kl. 01:00
ÉG horfði líka en mér fannst hún Sólrún mín mú heldur út úr korti.
Steingrímur svaraði því nú ekki nægjanlega afdráttarlaust, hvort hann gæti hugsað sér nýsköpun (Nýsköpunarstjórn) stjórn sem landsmenn loksins vilja.
Slíkt mynstur er það eina sem gæti tekið á og gert upp við margar kárínurnar sem Framsókn hevur gert raunverulegum ,,eigendum" Samvinnufélagana.
Nýsköpun er söguleg nauðsyn. Ekki aftur R-listasukk í ríkisfjármálum. Það yrði ekkert annað en fíaskó.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 10.4.2007 kl. 10:13
Mikið held ég að Steingrímur sé glaður og ánægður með skjallið sem þú hleður hann í pistli þínum: ,,Í heildina fannst mér Steingrímur bera af". Þú færð áreiðanlega nokkur prik fyrir þetta hjá formanninum.
Annars held ég að ykkur frambjóðendum VG væri nær, í stað þess að skjalla hverja aðra eins og drukknir menn, að koma hreint fram og lýsa því yfir, að það komi ekki til mála að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Ef að þið getið það ekki, skoðast það sem vilja yfirlýsing um að VG stefni á samstarf við íhaldið að loknum kosningum. Þú skalt, Árni Þór, sem og aðrir frambjóðendur VG, taka það til alvarlegrar umhugsunar, að umræðan í þjóðfélaginu, um meinta kærleika VG og Sjálfstæðisflokks, er komin á það stig að þið verið að koma út úr skápnum og gera hreint fyrir ykkar dyrum hvað þetta varðar.
Jóhannes Ragnarsson, 11.4.2007 kl. 21:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.