11.4.2007 | 21:42
Rætt um stöðu og framtíð sveitarfélaganna
Í dag var ég á kosningafundi í Háskólanum á Akureyri. Þar var viðfangsefnið staða og framtíð sveitarstjórnarstigsins og voru fulltrúar 5 framboða mættir. Auk mín voru þarna Birkir Jón Jónsson (B), Kristján Þór Júlíusson (D), Þorkell Jóhannsson (F) og Einar Már Sigurðarson (S).
Þetta var líflegur fundur, við fengum 10 mínútur hver í framsögur og hefði ég reyndar getað talað miklu lengur. Í máli mínu lagði ég áherslu á lýðræðishlutverk sveitarfélaganna og hvernig við gætum styrkt það í sessi. Talsvert var fjallað um verkefni sveitarfélaganna, tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sameiningu sveitarfélaga og samskiptin við ríkið.
Þarna voru nemendur og kennarar og umræður urðu býsna líflegar, margar góðar spurningar úr sal og við reyndum að svara fyrir stefnu flokka okkar í málum sveitarfélaganna. Ég undirstrikaði mikilvægi þess að efla sveitarstjórnarstigið með frekari verkefnum og að tryggja þyrfti efnahagslegt og lýðræðislegt sjálfstæði sveitarfélaga en ekki einblína á stærð þeirra eða fjölda. Slíkt skilaði engu. Í umræðum um kosningar um sameiningu sveitarfélaga og hvort sveitarfélög ættu að geta séð sig um hönd og klofið sig út úr sameinuðu sveitarfélagi ef þeim líkaði ekki árangurinn, gat ég þess að mikilvægt væri að íbúar gætu kosið um slíkt með sama hætti og þeir gætu kosið um sameiningu, brennivínsútsölur, hundahald, álver o.fl. Ótækt væri að ákveða fyrirfram að um tiltekin mál mætti ekki kjósa.
Mikið var spurt um lýðræðið og hvernig auka mætti aðgang almennings að sveitarstjórnunum og jafnframt að auðvelda þátttöku í ákvörðunum. Af minni hálfu kom fram að ekki væri nóg að íbúar gætu kosið á fjögurra ára fresti eða að íbúum væri gert kleift að kjósa um mál sem sveitarstjórnin sjálf ákveður heldur yrði að tryggja tilteknum fjölda íbúa að setja mál í atkvæðagreiðslu og jafnvel að koma með beinar tillögur fyrir sveitarstjórn. Þá vakti ég máls á samhengi sveitarstjórnar- og byggðamála og lýsti þeirri skoðun minni að þessi mál ættu heima saman í ráðuneyti, líkt og víða væri í löndunum í kringum okkur.
Vonandi voru fundarmenn nokkru nær um stefnu flokkanna í þessum málum og alla vega hygg ég að mér hafi tekist þokkalega að koma sjónarmiðum Vinstri grænna á framfæri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.