20.6.2006 | 21:00
Tillaga Vinstri grænna um kynjajafnrétti samþykkt í borgarstjórn
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti nú í dag, tillögu okkar Svandísar Svavarsdóttur um úttekt á stöðu kynjajafnréttismála í Reykjavík. Það verður að telja til tíðinda að nýr meirihluti í borgarstjórn skuli samþykkja tillögu frá okkur í VG um þessi mál, strax í upphafi kjörtímabilsins. Vissulega lofar það góðu.
Tillagan sem samþykkt var hljóðar þannig:
"Borgarstjórn samþykkir að fela mannréttindanefnd að láta gera úttekt á stöðu kynjajafnréttismála hjá Reykjavíkurborg. Nefndin afli upplýsinga um skiptingu kynja í nefndir og ráð, launakjör starfsmanna eftir kynjum, verkaskiptingu hjá sviðum og stofnunum borgarinnar og viðhorf embættismanna til kynjajafnréttis á þeim stofnunum og sviðum sem þeir eru í forsvari fyrir. Nefndin skili niðurstöðum og tillögum til úrbóta sé þeirra þörf, fyrir lok árs 2006."
Með samhljóða samþykkt borgarstjórnar hefur mannréttindanefnd verið falið þetta veigamikla verkefni, en niðurstöður úr vinnu nefndarinnar eru mikilvægt tæki til að bæta enn frekar stöðu kynjajafnréttismála hjá borginni. Borgarfulltrúar Vinstri grænna eru afar ánægðir með breiðan stuðning allra borgarfulltrúa við ofangreinda tillögu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.