Lóðaríið í Úlfarsárdal

Á fundi borgarráðs í dag lagði ég fram fyrirspurn í framhaldi af tillögum meirihlutans um lóðaúthlutanir í Úlfarsárdal.  Vinstri græn vilja að lóðum sé úthlutað á föstu verði og lóðaverði verði haldið í lágmarki.  Hins vegar teljum við upphæðirnar orka tvímælis og ennfremur að íbúar hverfisins eigi sérstaklega að greiða kostnað við byggingu skóla, leikskóla, íþróttasvæða o.s.frv. í stað þess að sá kostnaður sé greiddur af almennum skatttekjum borgarinnar eins og annars staðar.  Í þessu getur falist mismunun.

  1. Hvaða forsendur liggja að baki lóðaverðinu?
  2. Hvernig samrýmist lóðaverðið ákvæðum laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjöld, einkum 4. og 10. gr.?
  3. Hver er kostnaður borgarinnar við gatnagerð í hverfinu og hvernig standa tekjur af lóðaúthlutun undir þeim kostnaði?
  4. Hver eru gatnagerðargjöld/lóðaverð við úthlutun í nágrannasveitarfélögum og að hvaða leyti eru þær reglur sem nú eru lagðar til, frábrugðnar þeim reglur sem þar gilda og þeim reglum sem gilt hafa í Reykjavík?
  5. Í frétt frá borgaryfirvöldum kemur fram að héðan í frá er fyrirhugað að úthluta 1000 íbúðum í nýjum hverfum og 500 í eldri hverfum árlega.  Óskað er eftir sundurliðun á þessum áformum, skipt á einstök svæði og ár.
Svör munu væntanlega koma í borgarráði nk. fimmtudag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Öðru vísi mér áður brá! Fyrir um það bil sex til sjö árum breyttuð þið, vinstri meirihlutinn í borginni, úthlutunarreglum þannig að markaðsöflunum var gefinn laus taumurinn. Þið af öllum. Félagsöflin! Það laus varð taumurinn að ekkert réðst við þróunina og út úr því varð mesta sprenging sem húsnæðismarkaðurinn hefur séð og haldist hefur þar til nú. Það eina sem slegið hefði á þá óheillaþróun, sem þið báruð ábyrgð á að sleppa lausri, og komið hefði almenningi til hjálpar var að stórauka framboð á lóðum. Var það gert? Nei, aldeilis ekki því það rann upp fyrir ykkur að þið voruð að stórgræða á þessu öllu saman og veitti nú aldeilis ekki af að fá nýja tekjustofna til að slá á lántökuæðið sem var álíka óbeislað. Þið stýrðuð framboði þannig að verð hélst hátt uppi þótt ykkur bæri í raun að skaffa lóðir á kostnaðarverði, og viðkvæðið var að það væri þó betra að borgin græddi á þessu en einhverjir braskarar! Þannig var nú hugur ykkar til verktakanna að maður tali nú ekki hugulsemina, sem þið sýnduð hinum almenna húsbyggjanda og íbúðarkaupanda. Helsta þróunin varð svo sú að sveitarfélögin í kring fengu meiri íbúaaukningu en þau höfðu nokkru sinni dreymt um. Það þurfti svo kapítalistana til að snúa dæminu við og koma á föstu lóðaverði!

Ekki er öll vitleysan eins.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 4.5.2007 kl. 00:21

2 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Sæll Sigurjón.

Ef þú kynntir þér málið myndir þú komast að því að ég var andvígur lóðaútboðinu sem var viðhaft í Úlfarsárdal.

Árni Þór Sigurðsson, 5.5.2007 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband