8.5.2007 | 15:48
Kosningabrella meirihlutans í borgarstjórn
Borgarstjóri hefur undirritað viljayfirlýsingu ásamt menntamálaráðherra og rektor Listaháskólans um lóðamál fyrir skólann í Vatnsmýri. Það vekur athygli að á viljayfirlýsingunni er auð lína sem var ætluð staðfestingu fjármálaráðherra, en hann er greinilega ekki með í leiknum.
Ég hef gagnrýnt þessi vinnubrögð meirihlutans. Þarna er verið að egna saman velunnurum Listaháskólans annars vegar og Náttúruminjasafns hins vegar. Listaháskólinn þarf að sjálfsögðu að fá viðunandi lausn á sínum málum en hann vill helst vera í miðbænum en ekki í Vatnsmýri.
Sannleikurinn er sá að í gildandi skipulagi fyrir lóðina kemur fram að hún verði EINUNGIS nýtt fyrir Náttúruminjasafn eða starfsemi tengda Náttúrufræðistofnun. Skyldi Listaháskólinn hafa vitað af því? Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ekki kynnt málið innan skipulagsráðs eða borgarráðs og gerir sig enn einu sinni sekan um gerræðisleg og ólýðræðisleg vinnubrögð.
Síðan til að kóróna allt þá kemur fram að Listaháskólinn megi ráðstafa lóðinni til þriðja aðila. Sem þýðir að þessi lóð í Vatnsmýrinni, sem er eyrnamerkt Náttúrufræðistofnun og starfsemi á hennar vegum, verður áður en við er litið komin í lóðabraskdansinn.
Þetta eru vinnubrögð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar þeir leggja saman. Væri ekki nær að leysa einfaldlega húsnæðismál Listaháskólans þar sem hann vill vera, t.d. á svokölluðum stjórnarráðsreit milli Sölvhólsgötu og Skúlagötu (þar sem skólinn er að hluta til nú) og þar sem hann vill vera. Ef ríkið og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa einhvern minnsta áhuga á að leysa mál Listaháskólans þá geta þeir gert það á þessum reit, án þess að blanda málefnum Náttúrufræðistofnununar í það.
Ég er ekki viss um að mál Náttúrufræðistofnunar séu sett í uppnám með vitund og vilja Listaháskólans. Hverra hagsmuna er verið að gæta?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég vildi nú leggja Svörtuloft undir Listaháskólann, sbr. færsluna Seðlabankann á Ísafjörð?
Hallur Magnússon, 8.5.2007 kl. 23:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.