Góð frammistaða VG kvenna í Kastljósi

Umhverfismál og atvinnu- og byggðamál voru viðfangsefni Kastljóssins í kvöld.  Fyrir hönd okkar Vinstri grænna, mættu Kolbrún Halldórsdóttir og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Kolbrún talaði um umhverfismálin og eins og  allir sem fylgst hafa með þjóðmálum vita, hefur Kolbrún verið í stafni þeirra sem barist hafa fyrir stefnubreytingu í þeim málum.  Hún hefur verið óþreytandi við að tala um mikilvægi sjálfbærrar þróunar, skuldbindingar okkar við komandi kynslóðir og náttúruna sem auðlind.  Öllu þessu kom hún vel til skila í þættinum og var augljóst að hún er vel heima í þessum málaflokki.

Guðfríður Lilja er að hasla sér völl í stjórnmálum nú í þessum kosningum.  Hún hefur heillað alla hvar sem hún kemur fram og í allri framgöngu geislar hún af gleði, sannfæringarkrafti og sterkri réttlætiskennd.  Í umræðum um atvinnu- og byggðamál lagði hún áherslu á að lausnir núverandi stjórnvalda byggðu á fortíðarhyggju, stóriðju með öllum þeim fórnum sem hún hefði í för með sér í stað þess að leggja rækt við uppbyggingu samgangna, fjarskipta, menntunar, nýsköpunar og þróunar, og styðja við sprotafyrirtæki sem allra víðast.

Vissulega reyndu talsmenn stjórnarflokkanna að koma fram sem frelsandi englar, nú leggur Framsókn fram stefnu um nýtingu og verndun í umhverfis- og orkumálum, þegar flokkurinn hefur gengið fram fyrir skjöldu í því að fórna mikilvægum náttúruperlum þjóðarinnar.  Sjálfstæðisflokkurinn virtist ekki hafa neina skýra stefnu í umhverfismálum og Samfylkingin lenti enn einu sinni í vandræðum með að skýra stefnu sína í þessum málaflokki og æpandi voru mismunandi svör fulltrúa flokksins í umhverfisþættinum annars vegar og atvinnuþættinum hins vegar við spurningu um álver við Húsavík.  Svo kenndi fulltrúi Framsóknar Sjálfstæðisflokknum eiginlega um allt sem ekki hefði tekist að gera í byggðamálum og vék sér undan allri ábyrgð í þjóðlendumálinu.

Þegar á heildina er litið var frammistaða okkar kvenna fín í kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

Heill og sæll félagi!

Það er rétt að Kolla og Guðfríður stóðu sig ágætlega í kvöld. En ég verð að segja að Jóhanna, Guðfinna og Valgerður stóðu sig ekki síður. Mér fannst frábært að sjá þennan Kastljóssþátt - því hann sýnir að í öllum flokkum eru mjög öflugar konur sem berjast af krafti fyrir málstað sinna flokka. Við erum á réttri leið hvað jafnréttismálin varðar.

Verð þó að minna á að Framsóknarflokkurinn ber af í raunverulegi jafnrétti í verki þegar litið er til leiðtoga framboðslistanna og skipan ráðherra í ríkisstjórn. Meira um það í pistlinum Feministar ættu að kjósa Framsókn!

Treysti því að ef VG kemst í ríkisstjórn að flokkurinn skipi jafn margar konur ráðherra og karlmenn - en láti ekki bara nægja að skipa "feminista" með typpi

Hallur Magnússon, 8.5.2007 kl. 22:18

2 Smámynd: Hallur Magnússon

Ég meinti náttúrlega Jónína - þótt ég viti að heilög Jóhanna standi sig alltaf frábærlega - en hún var hins vegar ekki fulltrúi Framsóknar fyrir austan í kvöld!

Hallur Magnússon, 8.5.2007 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband