Ögmundur spurður um "bankana úr landi" hjá Kaupþingi

Framsóknarflokkurinn auglýsir að Vinstrihreyfingin grænt framboð vilji senda bankana úr landi. Þar er vísað í gagnrýni Ögmundar Jónassonar þingflokksformanns VG nýlega  í garð bankaforstjóra sem honum þótti skammta sér um og ganga fram af samfélaginu með ýmsum hætti. Ögmundur mun hafa sagt á þá leið að hann vildi ekki fórna íslensku jafnaðarsamfélagi fyrir "þotuliðið í bönkunum".

 

Þetta hefur síðan verið túlkað á þann veg að Ögmundur Jónasson eigi sér þann draum æðstan að koma öllum íslenskum bönkum úr landi!

Ég hafði í bland gaman og fróðleik af því að sitja frambjóðendafund í Kaupþingi ásamt Ögmundi þar sem þessi mál bar á góma. Ögmundur var að vonum spurður út í staðhæfingar Framsóknar. Hann minnti á að hann væri stjórnarformaður stærsta lífeyrissjóðs landsins, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, LSR, sem hefði fjárfest í íslenskum fjármálafyrirtækjum fyrir milljarðatugi. Eignarhluti sjóðsins í íslensku bönkunum væri á milli 35 og 40 milljarðar króna. Auk þess ætti sjóðurinn skuldabréf hjá bönkunum að verðmæti 15 – 20 milljarða. Þessi tiltekni lífeyrissjóður hefði fjárfrest hjá íslenskum útrásrafyrirtækjum fyrir milljarða á milljarða ofan. "Allt er þetta gert með mínum velvilja og mínu atkvæði", sagði Ögmundur.

 

"Halda menn virkilega að ég vilji ekki þessum stofnunum vel? Að sjálfsögðu geri ég það. Íslenskir lífeyrisþegar og þar með verkalýðshreyfingin vill hag þeirra sem bestan. En við ætlumst til þess að farið sé vel með þessa fjármuni og þá ekki síður þau völd sem fjármagnið veitir. Forsvarsmenn bankanna verða að geta tekið gagnrýni þegar þeir ögra samfélaginu."

 

Ögmundur minnti einnig á að ein ástæðan fyrir því að VG hefði viljað hafa þjóðarbanka væri einmitt sú að forðast að bankarnir yrðu fluttir úr landi. Því miður væri það smám saman að gerast. Þannig væri eignarhald Landsbankans nú komið 70% úr landi. Lífeyrissjóðirnir væru hins vegar ekkert á leið úr landi.

 

Mér þótti boðskapur Ögmundar Jónassonar vera trúverðugur og heyrði ég ekki betur en fundarmönnum þætti það líka. Þeim mun ómerkilegri held ég að sanngjörnu fólki þyki auglýsingar Framsóknar sem byggja á skrumskælingu og útúrsnúningum. 

 

Bankarnir og aðrar fjármálastofnanir eru mikilvægar og okkur Vinstri grænum þykir nauðsynlegt að þær búi við gott starfsumhverfi.  Ekki síður viljum við tryggja góð starfskjör almennra starfsmanna þeirra og raunar alls launafólks í landinu.  Þar liggur trúnaður VG, öfugt við það sem á við um núverandi stjórnarflokka sem sannarlega þurfa að komast í langþráð frí.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Samkvæmt venju reynir Framsóknarflokkurinn að ljúga sig inn á þjóðina!

Auðun Gíslason, 9.5.2007 kl. 11:09

2 Smámynd: Paul Nikolov

Svona kemur staðreyndir fram, skýrt og einfalt, þrátt fyrir brellur sem sumir nota. Vel gert!

Paul Nikolov, 9.5.2007 kl. 11:34

3 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Flott hjá félga Ögmundi. Ég er alveg hissa á því hvernig okkur tókst láta þetta verða eitthvert mál. Ég held að það hafi verið húmorsleysi. Þegar svona var borið upp á mig - þið þarna í VG viljið bara bankana úr landi - fór ég bara að hlæja og talaði einmitt um verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina. Katrín Jakobs var sú fyrsta í sjónvarpi sem tók þessu bara með brosi... Við þurfum að átta okkur á því að almenningur er ekki samansafn af blábjánum. Þegar pólitískir andstæðingar halda svo fásinnu fram eigum við ekki að bregðast við því eins og einhverjum komi til hugar að trúa því. Það var það sem okkar fólk klaufaðist til að gera í byrjun. Og þá færðu þeir sig uppá skaftið.

Pétur Tyrfingsson, 9.5.2007 kl. 23:26

4 Smámynd: Hlynur Hallsson

Nákvæmlega svona á að benda á rangfærslur sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkur eru að reyna að halda á lofti. Ögmundur klikkar ekki! Bestu baráttukveðjur,

Hlynur Hallsson, 9.5.2007 kl. 23:27

5 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Þetta er nú bara ekki rétt hjá ykkur.  Það þýðir lítið að reyna að ljúga sig út úr þessu.  Á heimasíðu Ögmundar (www.ogmundur.is) segir hann orðrétt.

"Er jafnaðarsamfélaginu fórnandi fyrir 12 milljarða og nokkra stráka og stelpur í silkigöllum; þotuliðið? Eða eigum við að snúa spurningunni við: Er þotuliðinu fórnandi fyrir meiri jöfnuð og félagslegt réttlæti? Mitt svar er játandi"

Hér er hann að vitna í skatttekjur af rekstri bankanna og segir hreint út að honum sé slétt sama hvort bankarnir fari úr landi og þar með þessar skatttekjur því að þá myndi jöfnuður aukast, jú og hvernig eykst hann? Nú með því að þá eru allir að meðaltali meira fátækir.

Toppmaður Ögmundur og VG stoppliðarnir.

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 9.5.2007 kl. 23:30

6 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Þú fattar bara alls ekki djókinn Snæþór! Ögmundur er að svar spurningu út í hött með svari í sama stíl. Ef einhver hefði spurt Ögmund: Hvenær hættir þú að lemja konuna þína? ...og hann hefði svarað "Á morgun!" - ..hvað kæmi út úr því?

Pétur Tyrfingsson, 10.5.2007 kl. 00:11

7 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Þetta er sennilega elsta afsökunartilraunin.  "Þetta var bara djók".  Ég held það geri sér allir grein fyrir því að Ögmundur hefur ekki eina húmorstaug í sér.  Legg til að þú lesir pistilinn hans allan.

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 10.5.2007 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband