22.5.2007 | 22:12
Baugalín styrkir stöðu Sjálfstæðisflokksins
Hin nýja ríkisstjórn hefur tekið á sig mynd. Það er ljóst að hlutur Samfylkingarinnar varðandi skiptingu ráðuneyta er rýrari en hlutur Framsóknarflokksins var í fráfarandi stjórn. Sjálfstæðisflokkurinn fær í raun 7 ráðuneyti og Samfylking 5 í stað helmingaskipta sem áður ríktu.
Sjálfstæðisflokkurinn fær bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti en Samfylkingin mun þurfa að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu upp í tvennt milli Össurar og Björgvins. Auk forsætis- og fjármálaráðuneyta fær Sjálfstæðisflokkurinn útgjaldafrekustu ráðuneytin, heilbrigðisráðuneyti og menntamálaráðuneyti og þegar hefur nýr heilbrigðisráðherra lýst yfir því að hafin verði einkavæðing í heilbrigðisgeiranum.
Ekki verður annað séð en að hin nýja ríkisstjórn og verkaskipting innan hennar styrki stöðu Sjálfstæðisflokksins mjög og gleymdar eru allar heitstrengingar um hlutverk Samfylkingarinnar í íslenskum stjórnmálum. Ég man a.m.k. ekki eftir því að þar hafi verið lagt upp með að Samfylkingin ætti að auka vægi Sjálfstæðisflokksins og tryggja setu hans á valdastólum. En allt um það. Samfylkingin hefur þá um leið tekið sér sömu stöðu og Alþýðuflokkurinn hafði í Viðreisn og Viðeyjarstjórn, sem hækja eða göngugrind Sjálfstæðisflokksins.
Við völdum mun nú taka enn ein hægri stjórnin, stjórn auðvalds og sérhyggju, ójafnvægis í byggðamálum og tvískinnungs í umhverfismálum. Sjálfsagt er þó, með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi, að vonast eftir því að stjórninni farnist vel. Stjórnarandstaðan mun þau ef að líkum lætur hafa í nógu að snúast.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Af hverju viltu nota orðið Baugalín? Mér finnst það frekar neikvætt að nota það í þessu samhengi. Baugalín var dulnefni konunnar sem skrifaði bókina Launhelgi lyganna - um kynferðisofbeldi sem hún var beitt. Mér hefur ekki tekist að grafa upp uppruna orðsins en ég held að þetta tengist höfuðfatnaði kvenna hér á öldum áður... s.s. skotthúfunni.
Þetta er sem sagt fallegt orð og leitt ef það verður notað í neikvæðri merkingu. Datt í hug að koma þessu á framfæri áður en nafnið festist í sessi....
Katrín Anna Guðmundsdóttir, 23.5.2007 kl. 00:33
Vegna þess að Ingibjörg valdi Björgvin umfram Ágúst Ólaf.
Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 00:40
Mikið er höfundur bitur.
Björn Viðarsson, 23.5.2007 kl. 10:05
Átakanlegt að sjá þessa veruleikafirringu sem virðist hafa heltekið þig Árni. Þú þyrftir að fara á þagnarhelgi á Skálholti og hugsa þinn gang. Veltu til að mynda fyrir þér þinni pólítísku fortíð; þinn lokasprettur í R-lista samstarfinu var nú ekki glæsilegur. Hættu núna þessum biturleikabarlómi!
Einar Jónsson, 23.5.2007 kl. 22:22
Það er eins gott að Framsóknarflokkur og Vinstri grænir stilli saman strengi, því aldrei hefur verið jafnmikil þörf á harðri stjórnarandstöðu og nú. Nú hafa sjálfstæðismenn "stjórn" á bæði heilbrigðis- og menntamálum.
Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 19:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.