22.6.2007 | 22:58
Hótanir um ofbeldi í vöggu lýðræðis!!!
Evrópusambandið telur sig vöggu og verndara lýðræðis. Þeir sem hvað harðast eru talsmenn sambandsins segja hið sama. Gagnrýnendur Evrópusambandsins hafa á hinn bóginn hamrað á því að lýðræði sé fyrir borð borið og þátttaka almennings í störfum og stefnumótun sé hverfandi. Nú hafa leiðtogar ESB-ríkjanna setið á rökstólum og rætt um framtíðina. Efasemdum Pólverja og sum part Breta er mætt með hótunum og ofbeldi. Getur þessi "vagga lýðræðis" staðið undir nafni?
Það er vissulega álitamál. Kröfur stærstu ríkjanna, einkum Þýskalands, eru að völd og áhrif þeirra verði stórlega aukin en að sama skapi verði dregið úr áhrifum smáríkja. Pólland, sem telur um 40 milljónir íbúa, telur sig verða fyrir barðinu á þessum breytingartillögum. Hvað mega enn fámennari ríki þá segja?
Innan Evrópusambandsins hefur verið rætt um "lýðræðishalla" og mikilvægi þess að nálgast hinn almenna borgara, grasrótina. En það er eins og stjórnendum sambandsins sé fyrirmunað að vinna í þá áttina. Tillögur um nýja stjórnarskrá líta sum part vel út á blaði, talað um valddreifingu og aukin áhrif hins almenna borgara, en þegar á hólminn er komið snýst þetta samt allt um valdajafnvægi stóru ríkjanna, einkum Þýskalands og Frakklands, Bretland og Ítalía eru svo í næsta nágrenni.
Og nú, þegar Pólverjar malda í móinn er haft í hótunum við þá. Aðalframkvæmdastjórinn, Barrosso, segir að þeir muni hafa verra af og kanslari Þýskalands, frú Merkel, sem er í forsæti sambandsins um þessar mundir, virðist ætla að sniðganga Pólverjana. Hvernig hún mun akta gagnvart Bretum á eftir að koma í ljós.
Evrópusambandið er í öngstræti. Það minnir helst á sovéskt ríkisbákn sem lifir orðið algerlega sjálfstæði lífi, lýtur eigin lögmálum og snýst um allt annað en hagsmuni og kjör fólksins sem byggir löndin innan sambandsins. Hverjir vilja fórna sjálfstæði smáþjóðar á altari þessa sundurlynda og hrokafulla valdabandalags?
Þjóðverjar vilja nýjan ESB-sáttmála, jafnvel án þátttöku Póllands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Er ekki einmitt lýðræðishallinn á þann veg að fjölmenni ræður hlutfallslega minna en fámenni og reyndar því fámennari sem ríkin eru því meira er hlutfallslegt vald þeirra með hliðsjón af mannfjölda. Að við kvörtum yfir lýðræðishalla í ESB er eins og að Vestfirðingar tækju að heimta minna atkvæðavægi og meiri völd til Reykjavíkur. Jafn lýðræðissinnaðir og Vestfirðingar eru þá held ég að seint tækju þeir upp á þeirri heimsku.
Helgi Jóhann Hauksson, 23.6.2007 kl. 03:40
Árni!
Færslan hér að neðan er af bloggsíðunni minni. Þetta er bara eitt lítið hallærislegt dæmi um yfirgang Evrópusambandsins við lítil aðildar ríki - og er þó Svíþjóð skömminni stærra en Klakinn:
Hér kemur færslan =
"Svíar eru æfir út í Evrópusambandið vegna yfirgangsins í Evrópudómstólnum sem virðist búinn að kippa stoðunum undan sænsku áfengiseinkasölunni og þar með áfengispólitík Svía.
Morgan Johansson fyrrverandi ráðherra lýðheilsumála gaf í skin í viðtali um daginn að hann og aðrir sósíaldemókratar væru að vakna upp við vondan draum eftir að hafa hvatt Svía til að ganga í Evrópubandalagið á sínum tíma.
Nú er það dómstóll embættismanna í Brussel sem ræður meiru um gang mála í Svíþjóð en sænska þingið, sagði Morgan m.a. í viðtalinu."
Kveðja úr löndum Ynglinga!
ÁRH
Ásgeir Rúnar Helgason, 24.6.2007 kl. 20:10
Ólafur Skorrdal þú virðist kannski ekki átta þig á að á Íslandi er fulltrúarlýðræði. Það er mun hreyfanlegra og sneggra. Það virkar betur. Hvernig væri ef við þyrftum að kjósa um öll lög og allar samþykktir með þjóðaratkvæða greiðslu??? Við myndum ekki getað unnið. Kjóstu í kosningum þína menn eða þá sem þú treystir best.
ESB er samstarfsvetvangur sjálfstæðra þjóða. 1 þjóð er 1 atkvæða ef allar þjóðirnar eru sjálfstæðar og enginn er sett á hærri stall en önnur. Ef við tölum um að það sé lýðræðislegt að fjölmennar þjóðir ráði meiru þá eru við komnir útí tal um sambandsríki? Eru virkilega til Íslendingar sem vilja gagna í ríkjabandalag? eru 63 ár af sjálfstæði svona ömurlega?
Fannar frá Rifi, 24.6.2007 kl. 23:29
Nokkð merkilegt sjónarhorn, sérstaklega þar sem ekki er endilega hægt að segja að vinnubrögð á Íslandi séu sérstaklega lýðræðisleg t.d. varðandi lagasetningu. Almenningur hefur fleiri formleg tækifæri til að koma að lagasetningu hjá ESB en á Íslandi eins og ég rakti í stuttum pistli um þetta á mínu bloggi, http://rustikus.blog.is. Mikilvægast er bæði varðandi setningu löggjafar og væntanlegan nýjan sáttmála er að stjórnmál snúist um að ná samstöðu eins framarlega og hægt er. En það hefur ekki tíðkast sem almenn regla á Íslandi og við mættum taka vinnubrögð ESB að mörgu leyti okkur til fyrirmyndar.
Daði Einarsson, 25.6.2007 kl. 13:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.