8.8.2006 | 20:33
Leikskólinn skilinn frá öðru skólastarfi
Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ákveðið að kljúfa leikskólann frá öðru skólastarfi í borginni. Þetta ákveða Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur þrátt fyrir varnaðarorð fagfólks og foreldra leikskólabarna. Nú er verið að stíga skref aftur á bak í málefnum leikskólans og það er nöturlegt. Borgarfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Frjálslyndra sendu frá sér yfirlýsingu í dag vegna málsins og fylgir hún hér neðar.
"Á fundi stjórnkerfisnefndar nú í morgun steig núverandi borgarstjórnarmeirihluti skref sem undirstrika ólýðræðislega nálgun og ófagleg vinnubrögð þannig að ekki verður við unað án þess að vakin sé athygli fjölmiðla og borgarbúa allra.
Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ákveðið að kljúfa menntaráð og menntasvið í tvennt þannig að fyrsta skólastigið er nú slitið frá öðru skólastarfi í borginni og samstarfi og samræmingu grunnskóla- og leikskólastarfs er gert örðugra um vik. Fyrir hálfu öðru ári var leikskólaráð sameinað fræðsluráði undir heiti nýs menntaráðs. Þetta nýja ráð hefur farið vel af stað, samvinna milli skólastiga er markvissari, stjórnun, yfirsýn og fagleg samþætting skólastiganna hefur aukist og nýir möguleikar opnast. Ekki síst hefur verið lögð áhersla á mýkri og sveigjanlegri skil milli skólastiga og enn fremur að nálgun, aðferðir og hugmyndafræði skólastiganna hvors um sig nýtist báðum stigum. Breytingin hefur reynst vel, fleiri kostir koma í ljós og starfsfólk nýs menntasviðs axlað ábyrgð á nýju starfsumhverfi og tekist á við þau úrlausnarefni sem upp hafa komið. Engin úttekt hefur verið gerð á því hvernig breytingin hefur reynst en almennt virðist hún hafa gefið góða raun. Fagfólk sem starfar á skólastigunum báðum hefur varað mjög við áformum um að slíta leikskólann úr samhengi við annað skólastarf, eins og fyrirhugað er, og hafa samtök foreldra auk þess lýst áhyggjum sínum vegna þeirra, en meirihlutinn skellt skollaeyrum við.
Athygli vekur að engin áform um umrædda breytingu voru látin uppi í aðdraganda kosninga sem gefur ástæðu til að ætla að önnur rök en pólitísk eða fagleg liggi hér að baki. Þá hefur eðlilegum kröfum um faglega umræðu um málið á vettvangi menntaráðs verið hafnað en menntaráð hefur ekki fengið til umræðu þau drög að samþykktum fyrir nýtt leikskólaráð sem nú liggja fyrir. Á fundi stjórnkerfisnefndar í síðustu viku var ennfremur lögð fram krafa Samfylkingar og Vinstri grænna um umsagnir fjármálasviðs og stjórnsýslu- og starfsmannasviðs, en þær liggja ekki enn fyrir. Svör við fyrirspurnum minnihlutans í menntaráði liggja heldur ekki fyrir og enn síður svör við spurningum fulltrúa Samfoks á sama vettvangi sem menntaráð fól sviðsstjóra að draga saman.
Opin og eðlileg umræða innan menntaráðs fer ekki fram, ekki er hlustað á fagfólk og samtök þess, vaðið er yfir kjörna fulltrúa og hagsmunaaðila án umræðu í krafti meirihluta. Aflsmunar er neytt, og lýðræðisleg umræða fyrir borð borin. Ólýðræðislegum og ófaglegum vinnubrögðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er hér með harðlega mótmælt sem og í bókun sem lögð var fram í stjórnkerfisnefnd nú í morgun."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.