Átök um skipan leikskólamála

Á fundi borgarráðs í gær var tekist á um skipan leikskólamála.  Stjórnarflokkarnir í Ráðhúsinu hafa ákveðið að kljúfa leikskólamálin frá öðrum skóla- og menntamálum í borginni með stofnun leikskólaráðs og leikskólasviðs.  Þar með er stigið skref til baka, en aðeins er um hálft annað ár liðið síðan öll menntamál voru sameinuð í menntaráði og menntasviði.  Fagfólk og foreldrar hafa lýst áhyggjum sínum vegna ákvörðunarinnar en meirihlutinn lætur það allt sem vind um eyrum þjóta.

Á borgarráðsfundinum lagði ég fram óskir um að áður en endanleg ákvörðun yrði tekin lægju fyrir mikilvægar upplýsingar, en þær eru:
    a. Skrifleg greinargerð meirihluta borgarstjórnar um faglegar forsendur og ávinning af breytingunum.
    b. Yfirliti yfir þá fagaðila sem málið hefur verið unnið í samráði við, sbr. bókun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í menntaráði þ. 4. ágúst sl.
    c. Skriflegar umsagnir félaga leikskólakennara, leikskólastjóra, grunnskólakennara og grunnskólastjóra.
    d. Skrifleg lýsing sviðsstjóra menntasviðs á því hvernig skipta eigi sviðinu upp.
    e. Skrifleg svör við fyrirspurnum fulltrúa SAMFOKS sem lagðar voru fram í menntaráði þann 4. ágúst sl.
    f. Umsögn fjármálasviðs og stjórnsýslu- og starfsmannasviðs um breytingarnar.
    g. Skýringar formanns stjórnkerfisnefndar á því hvað átt er við með yfirlýsingu í fjölmiðlum í gær um að „á öllum stigum málsins hafi fullt tillit verið tekið til þess sem minnihlutinn fór fram á nema það væru tillögur eingöngu til að tefja málið.”

Þá lagði ég ennfremur fram eftirfarandi bókun:

 "Í umsögn menntaráðs koma engin haldbær fagleg eða pólitísk rök fram sem réttlæta eða styðja ákvörðun meirihlutans um að kljúfa leikskólamál frá öðrum  menntamálum í borginni. Ákvörðunin er ekki studd neinum athugunum eða könnunum á reynslunni af núverandi fyrirkomulagi né viðhorfsathugunum meðal fagfólks. Engin fagleg umræða fór fram um umsögn meirihluta menntaráðs á fundi ráðsins 4. ágúst sl., enda var tillaga meirihlutans að umsögn ekki kynnt ráðinu fyrr en í lok fundar og hafði enginn ráðsmaður tök á að kynna sér hana áður. Enda þótt sviðsstjóri menntasviðs hafi komið á fund stjórnkerfisnefndar þann 1. ágúst kom ekkert fram í þeim umræðum sem skaut stoðum undir tillögur og ásetning meirihlutans, þvert á móti kom fram að sviðsstjórinn hafði ekki hugmynd um að til stæði að kljúfa menntasviðið í tvennt fyrr en þann sama dag. Vinnubrögð meirihlutans hafa til þessa verið honum til vansa. Enn er þó ekki of seint fyrir hann að sjá að sér og er hvatt til að efnt verði til opinnar og lýðræðislegrar umræðu við starfsfólk og stjórnendur leik- og grunnskóla um málið áður en lengra er haldið."

Ljóst er að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ætla að keyra þetta mál í gegn af mikilli óbilgirni, þrátt fyrir að þeir hafi ekki gert kjósendum grein fyrir þessum áformum fyrir kosningar.  En nú hafa leikskólastjórar í Reykjavík boðað til fundar nk. þriðjudag með fulltrúum stjórnmálaflokkanna til að fá fram skýringar á málinu og verður fróðlegt að sjá hvernig ákvörðun meirihlutans verður rökstudd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband