14.8.2006 | 08:36
Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs
UM ÁRATUGASKEIÐ höfum við heyrt og séð fréttir af "ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs". Æ ofan í æ brestur á ófriður og átök þar sem óbreyttir borgarar eru fórnarlömbin. Enda þótt á umliðnum árum og áratugum hafi verið gerðir friðarsamningar, og helstu gerendur jafnvel verið heiðraðir með friðarverðlaunum Nóbels, kemur allt fyrir ekki. Enginn varanlegur friður er í augsýn og þjáningar þúsunda virðast engan enda ætla að taka. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins sýna því miður enn einu sinni að mannslífin eru mismikils virði.
Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs ógna heimsfriðnum. Þess vegna eiga allar þjóðir að hafa skoðun á því ófremdarástandi sem þar ríkir og beita sér af fullu afli til að binda endi á það. Ísland og Íslendingar geta lagt sitt lóð á vogarskálarnar með einarðri afstöðu og skýrum skilaboðum. Því miður hafa íslensk stjórnvöld ekki sýnt sama sjálfstæði, skilning og frumkvæði og þegar þau ruddu brautina og studdu sjálfstæðisyfirlýsingar Eystrasaltsríkjanna á sínum tíma og nú nýlega Svartfjallalands.
Það er orðið deginum ljósara að Ísraelsmenn fremja þjóðarmorð í Líbanon. Mörg hundruð manns, og jafnvel þúsundir, mestmegnis óbreyttir borgarar, þ.ám. mörg börn, hafa verið myrt. Eyðileggingin blasir hvarvetna við og engu er eirt. Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna eru ekki óhultir því Ísraelsmenn hafa þegar drepið fjóra slíka eins og kunnugt er. Og allt er þetta hefnd vegna þess að tveir ísraelskir hermenn voru teknir í gíslingu af Hizbollah-samtökunum. Ísraelsk stjórnvöld hafa gert sig sek um þjóðarmorð og brot á ýmsum alþjóðlegum mannréttindaákvæðum. Hvers vegna Ísraelsmenn komast sífellt upp með að brjóta alþjóðalög, s.s. að því er varðar að koma sér upp kjarnavopnum, er umhugsunarefni. Kann að vera að það stafi af því að Ísrael er talið til hluta Vesturlanda? Getur verið að stjórnvöld á Vesturlöndum líti svo á að Ísrael myndi í raun víglínuna gagnvart hinum íslamska heimi? Er þarna komin skýringin á afstöðuleysi íslenskra stjórnvalda og þrálátri fylgispekt við bandaríska heimsvaldastefnu? Þessa afstöðu er með engu móti hægt að verja. Framgöngu Ísraelsmanna ber að fordæma skilyrðislaust og krefjast vopnahlés tafarlaust. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við "rétt Ísraela til að verja sig" eins og svo oft er gert, enda eru "varnaraðgerðir" þeirra nú þegar komnar langt út fyrir öll mörk. Þeir sem þannig tala minnast aldrei einu orði á rétt palestínsku þjóðarinnar til sjálfstæðs ríkis.
Bandaríkjamenn, og venju samkvæmt hinn fylgispaki Blair, vilja einfaldlega ekki frið í Mið-Austurlöndum. Þeir vilja ekki stöðva ofbeldisverk Ísraela, þeir halda verndarhendi yfir morðum, misþyrmingum og eyðileggingunni fyrir botni Miðjarðarhafs. Því sannleikurinn er sá að ef Bandaríkin tækju ekki einarða afstöðu með Ísrael, eins og þau hafa ávallt gert, gætu þau stöðvað blóðbaðið. En eins og þau koma fram, þá verða þau aldrei trúverðugur sáttasemjari. Íslendingar eiga að skipa sér í sveit með þeim þjóðum sem vilja knýja fram frið í Mið-Austurlöndum tafarlaust, þeim sem krefjast þess undanbragðalaust að Ísrael fari að alþjóðalögum. Við eigum að krefjast þess að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna verði kallað saman nú þegar til að þrýsta á um að ofbeldið verði stöðvað. Það mál þolir enga bið. Mannslífin eru mikils virði - líka í Líbanon!
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 14. ágúst 2006.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.