30.8.2007 | 12:19
Einkavæðing Orkuveitunnar yfirvofandi
Meirihluti borgarstjórnar hyggst óska eftir því að iðnaðarráðherra beiti sér fyrir því að lögum um Orkuveitu Reykjavíkur verði breytt í hlutafélag. Eðlilegri beiðni minnihlutans í stjórn Orkuveitunnar um að fresta málinu var hafnað af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og sýnir það best einbeittan ásetning flokkanna um að einkavæða fyrirtækið.
Borgarstjórinn í Reykjavík, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hefur margsinnis lýst því yfir í borgarstjórn og á öðrum opinberum vettvangi að ekki standi til að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur. Breyting á opinberu fyrirtæki í hlutafélag hefur þó ævinlega verið undanfari einkavæðingar. Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og F-listans í borgarstjórn hafa á hinn bóginn gefið lítið fyrir yfirlýsingar borgarstjóra og haldið því fram að ásetningur meirihlutans sé að einkavæða fyrirtækið.
Hvað rekur meirihlutann í borgarstjórn til að fara fram með þessum hætti? Hefur borgarstjóri tryggingu fyrir því að iðnaðarráðherra muni flytja frumvarp um breytingu á rekstrarformi Orkuveitunnar? Því verður ekki trúað. Ljóst er því að borgarstjóri er að taka ótrúlega pólitíska áhættu í málinu sem mun einungis verða til þess að veikja ennfrekar stöðu hans.
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar hafa ákveðið að fara fram á umræðu um málið á næsta fundi borgarstjórnar sem fram fer nk. þriðjudag. Meirihlutinn í borgarstjórn virðist ætla að keyra þetta mál í ágreiningsferli sem fyrst og fremst mun skaða Orkuveituna, og að sjálfsögðu pólitíska stöðu oddvita meirihlutans. Það er hans val.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
OR er nú sameignarfélag (sf.).
Úr 2. gr. laga um sameignarfélög 50/2007: "...þar sem allir félagsmenn bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins."
Það eru tvær meginástæður fyrir því að mikilvægt er að gera OR að hlutafélagi:
a) OR er nú sameignarfélag (sf.). Það þýðir að allir eigendur bera jafna og ótakmarkaða ábyrgð burtséð frá eignarhlut s.b. tilvitnun hér að ofan. Það þýðir að Borgarbyggð sem á 1% ber jafnmikla ábyrgð og Reykjavíkurborg sem á 94%. Sem aftur veldur því að fulltrúar í stjórn Borgarbyggðar hafa neitunarvald varðandi allar framkvæmdir OR þrátt fyrir að eiga bara 1% í félaginu. Ef Borgarbyggð vildi setja pressu á Reykjavíkurborg vegna einhvers máls gæti sveitarfélagið hæglega gert það í gegnum eignarhlut þess í OR og hreinlega stöðvað skuldbindingar OR þangað til Reykjavíkurborg gerði það sem Borgarbyggð vildi. Þetta er möguleiki nú meðan OR er sameignarfélag.
Í hlutafélagi er vægi atkvæða í jöfnu hlutfalli við eign í fyrirtækinu.
b) Í sameignarfyrirtæki bera allir eigendur fulla ábyrgð á öllum skuldbindingum félagsins. Í hlutafélagi er ekki hægt að ganga að eigendum þótt félagið skuldbindi sig og standi síðan ekki í skilum.
Þetta þýðir að þegar OR tekur milljarða króna lán t.d. til virkjanagerðar, gangast eigendur sameignarfélags í ábyrgð fyrir lánin að fullu og það er hægt að ganga að þeim sé ekki til fyrir lánunum. Í hlutafélagi bera eigendur (sveitarfélögin og íbúar þeirra) ekki þessa ábyrgð heldur fyrirtækið sjálft. Fari fyrirtækið á hausinn er ekki hægt að ganga að eigendunum.
Það er því mjög jákvætt skref fyrir fyrirtækið og eigendur þess að breyta OR í hlutafélag.
Það er síðan allt önnur umræða og allt annað mál hvort skipta eigi um eigendur fyrirtækisins.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 30.8.2007 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.