Mun Grímseyjarferjan sigla?

Mikið hefur verið skrifað og sagt um málefni Grímseyjarferjunnar.  Ljóst er að margt hefur farið úrskeiðis í því ferli öllu.  Þá er alveg ljóst að meðferð fjármuna ríkisins er á skjön við lög og reglur og ætti að sjálfsögðu að kalla á að fjármálaráðherra axlaði ábyrgð á því.

Það er mat okkar í VG að yfirvöld samgöngumála hafi einfaldlega veðjað á rangan hest þegar ákveðið var að kaupa umrædda ferju og gera á henni umtalsverðar breytingar, jafnvel þannig að ráðleggingar skipaverkfræðinga voru að engu hafðar.  Svo er líka bersýnilegt að sjónarmið Grímeyinga sjálfra hafa ekki vegið þungt.  Alls er óvíst að skipið verði nokkru sinni haffært.  Þess vegna höfum við Jón Bjarnason, fulltrúi VG í fjárlaganefnd, og ég sem fulltrúi í samgöngunefnd, skrifað samgönguráðherra og farið fram á að skipuð verði óháð nefnd til að fara yfir málið frá grunni og meta hvort ekki sé jafnvel hagstæðast að selja skipið í núverandi ástandi og smíða nýja ferju sem betur þjónar samgöngum og flutningum milli lands og Grímseyjar.

Bréf okkar til samgönguráðherra er þannig:

Fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd og samgöngunefnd Alþingis fara hér með fram á að samgönguráðherra skipi nú þegar óháða nefnd með aðild heimamanna í Grímsey til að fara yfir þá kosti sem eru nú í stöðunni varðandi nýja Grímseyjarferju. Nefndin kanni sérstaklega hvort ekki sé hagkvæmara og öruggara og þjóni best framtíðarhagsmunum að endurbætur á þeirri ferju sem nú er unnið að verði stöðvuð og hún seld í því ástandi sem hún er nú. Í stað hennar verði þá samið um byggingu nýrrar ferju sem þjóni farþega- og vöruflutningum sem best á þessari leið. Ef höfð eru snör handtök og ákvörðun tekin fljótlega getur ný ferja, byggð frá grunni, verið tilbúin 2009 þegar undanþáguheimild núverandi ferju rennur út.  Samrit af þessu erindi verður sent fjármálaráðherra og formönnum fjárlaganefndar og samgöngunefndar Alþingis og óskað eftir stuðningi nefndanna við erindið.

Vonandi verður samgönguráðherra við þessu svo hægt sé að koma samgöngumálum Grímseyinga í viðunandi horf til frambúðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband