30.9.2007 | 20:45
Borgarstjórn kvödd
Ég hef nú endanlega sagt skilið við starfsvettvang minn til 13 ára, borgarstjórn Reykjavíkur. Það er vitaskuld ekki laust við að ég sé strax farinn að sakna þessa góða vinnustaðar, og ekki síst hinna fjölmörgu góðu félaga sem ég hef eignast á ferli mínum í borgarstjórn. En allt hefur sinn tíma, jafnvel seta í borgarstjórn. Á síðasta borgarstjórnarfundi mínum, flutti ég stutta kveðjuræðu, sem mér finnst við hæfi að birta hér:
Frú forseti, góðir borgarfulltrúar. Allt hefur sinn tíma og endi, jafnvel seta í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fyrir liggur hér, eins og forseti hefur kynnt, bréf þar sem ég óska eftir lausn frá störfum borgarfulltrúa frá og með 1. október nk. þegar Alþingi kemur saman. Það er óneitanlega sérstök tilfinning fyrir mig að standa hér í borgarstjórn í síðasta sinn og kveðja starfsvettvang minn til rúmlega 13 ára. Það er sannast sagna drjúgur tími í starfsævi manns. Hér á vettvangi borgarstjórnar og borgarmálanna hef ég átt margar góðar stundir, bæði í meðbyr og mótbyr, eins og gengur í stjórnmálum. En umfram allt hefur þetta verið tími sköpunar og ánægju, það að fá að taka þátt í mótun samfélagsins er gæfa og ég tel mig afar lánsaman að hafa notið þeirrar gæfu. Reykjavíkurborg hefur tekið miklum breytingum á ekki lengri tíma. Margt hefur þróast í jákvæða átt, ég nefni sérstaklega uppbyggingu í leik- og grunnskólum, en á fjölmörgum öðrum sviðum hafa líka orðið stórstígar framfarir og þjónusta við borgarbúa aukist og batnað. Nýjar áherslur í skipulags- og umhverfismálum hafa rutt sér til rúms og áhugi borgarbúa á nánasta umhverfi sínu er til marks um vitundarvakningu sem meðal annars má rekja til hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og alþjóðaskuldbindinga sem hér í Reykjavík birtist í Staðardagskrá 21, umhverfisstefnu Reykjavíkur. Sem betur fer bendir flest til þess að almenn pólitísk samstaða sé að skapast um þá þróun og það er vel. Það hefði ekki endilega þótt svo sjálfsagt fyrir um áratug síðan. En þótt margt þróist með jákvæðum hætti standa stjórnvöld og borgarbúar einnig frammi fyrir nýjum viðfangsefnum, ógnunum, sem sumir telja óhjákvæmilegan fylgifisk stórborga og þótt okkar samfélag sé ekki mannmargt, ber borgin einmitt mörg einkenni stórborgar. Þessi viðfangsefni verður borgarstjórn að taka alvarlega. Ofbeldi hvers konar, verslun með fólk, verslun með eiturlyf er eitthvað sem við eigum ekki að líða og í því efni verða allir að taka höndum saman. Það er að vísu risavaxið verkefni en á ekki að vera ofvaxið okkar samfélagi. Til þess þarf einfaldlega kjark og einbeitni sem ég vona að kjörnir fulltrúar í borgarstjórn búi yfir.
Frú forseti. Á þeim 13 árum sem ég hef starfað að borgarmálum hef ég kynnst og átt samleið með fjölda borgarbúa sem hefur verið afar gefandi og lærdómsríkt. Hið sama er að segja um samvinnu við starfsfólk og embættismenn borgarinnar en í því á borgin mikinn auð sem seint verður ofmetinn. Á þessum tímamótum vil ég þakka fyrir samstarf við borgarbúa og starfsfólk borgarinnar og ég vona að ég hafi komið að einhverjum notum við að gera gott samfélag betra. Þá er ótalið samstarfið innan borgarstjórnarinnar sjálfrar, samvinna og átök pólitískra keppinauta, milli flokka og innan flokka og flokkabandalaga. Gefandi og lýjandi á víxl eins og gengur en það eigum við þó öll sameiginlegt að vilja láta gott af okkur leiða, koma málum fram og ná sem víðtækastri samstöðu þar sem þess er kostur. En taka svo að sjálfsögðu slaginn þess á milli þegar ólíkt leiðarval gerir slíkt óhjákvæmilegt.
Í bróðerni vega þeir hvern annan og það á oft við um slaginn hér á hinum pólitíska vígvelli því þótt iðulega sé tekist harkalega á hefur einnig á þessum vettvangi skapast vinátta og traust, þvert á allar flokkslínur, sem er afar mikils virði. Ég vil þakka samstarfið við alla borgarfulltrúar, bæði þá sem sitja í þessum sal nú og alla aðra sem ég hef starfað með á liðnum árum, skiptir engu hvort það hafi verið keppinautar eða samherjar í meirihlutasamstarfi. Þá þekkingu, reynslu og vináttu sem ég hef áunnið mér undanfarin 13 ár í borgarstjórn mun ég hafa með mér í farteskinu í störfum á nýjum vettvangi þar sem ég mun þó leggja mig fram um að þjóna hagsmunum Reykvíkinga eins og annarra landsmanna. Borgarfulltrúum óska ég velfarnaðar í mikilvægum störfum sínum. Með þeim orðum, frú forseti, segi ég takk fyrir mig.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir samstarfið Árni Þór á vettvangi sveitarstjórnarmála á höfuðborgarsvæðinu. Ég óska þér velfarnaðar á nýjum starfsvettvangiog verð að viðurkenna að það er gott að vita af ykkur sveitarstjórnar reynsluboltunum á Alþingi.
Kveðja úr Mosfellsbænum, Herdís Sigurjónsdóttir
Herdís Sigurjónsdóttir, 30.9.2007 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.