Vinstri græn styrkja sig við upphaf þings

Ný skoðanakönnun Fréttablaðsins bendir til þess að við Vinstri græn séum að styrkja stöðu okkar, nú í upphafi þings.  Staða stjórnarflokkanna tveggja er vissulega sterk, en við þær aðstæður er sérlega mikilvægt að stjórnarandstaðan sé öflug og kraftmikil, þótt fámenn sé. 

Stjórnarndstaðan er órjúfanlegur hluti í virku lýðræði og því mikilvægt að vel sé búið að starfsaðstöðu hennar, ekki síst þegar haft er í huga að stjórnarmeirihlutinn hefur 12 ráðuneyti til að vinna fyrir sig, auk þess sem nefndarformenn (sem allir koma úr stjórnarliðinu) hafa ákveðið forskot á aðra þingmenn, þegar kemur að þjónustu þingsins við kjörna fulltrúa.  Ýmsir þingmenn úr núverandi stjórnarflokkum, auk stjórnarandstöðuþingmanna, hafa lýst áhuga á því að jafna aðstöðu stjórnar og stjórnarandstöðu í þinginu og vonandi mun forseti Alþingis taka það mál föstum tökum.

  Fylgi flokka

Það er eftirtektarvert að stjórnmálaspekingar sem tjá sig um stöðu stjórnmálanna nú, telja að stjórnin sé svo sterk að hún muni engar áhyggjur þurfa að hafa og stjórnarandstaðan verði ekki til stórræða.  Þetta má lesa bæði út úr viðbrögðum Einars Mar Þórðarsonar, sem tjáir sig um skoðanakönnun Fréttablaðsins, og Svanborgar Sigmarsdóttur sem ritar leiðara þess blaðs í dag.  Með fullri virðingu fyrir þessum ágætu stjórnmálafræðingum (sem ég tel raunar almennt séð vanda að virðingu sinni sem ekki verður sagt um alla kollega þeirra) held ég að þetta séu fljótfærnislegar ályktanir sem þau draga.  Það er að sjálfsögðu ekkert samhengi milli fjölda þingmanna í stjórn og/eða stjórnarandstöðu annars vegar og hins vegar hversu öflugur pólitískur málflutningur verður.  Fullyrðingar Einars Mar um að það andi köldu milli VG og Framsóknar eru gamlar fréttir og eins og stjórnmálafræðingurinn sé enn fastur í kosninganótt.  Vika er nefnilega langur tími í pólitík!  Og að ímynda sér að sífelld upphlaup einstakra stjórnarliða sé merki um sterkt lýðræði eins og leiðarahöfundur gerir er sérkennilegt.  Sannleikurinn er sá að það andar köldu innan stjórnarliðsins sem er líklegt til að grafa heldur undan samstarfsviljanum milli flokkanna.  Og þá getur allt gerst.  Stjórnmálafræðingarnir verða að gera betur í greiningu sinni á stöðunni.

Sú staðreynd að við Vinstri græn erum heldur í sókn, sýnir að áherslur okkar í vor og sumar hafa verið réttar og þær ná eyrum almennings.  Við munum að sjálfsögðu halda áfram á sömu braut, hin pólitísku átök næstu mánuði og misseri munu að líkindum standa um hagstjórnina almennt, auðlindamál (bæði eignarhald og nýtingu, þmt. orkuauðlindanna), heilbrigðismál (þar sem einkavæðingarstefna Sjálfstæðisflokksins verður í hávegum höfð), umhverfismál (m.a. í tengslum við virkjanaáform í Þjórsá), byggðamál (þar sem ríkisstjórnin skilar algerlega auðu enn sem komið er) og áherslur Íslands í alþjóðamálum.  Af miklu fleiru er að sjálfsögðu að taka, en líklega verða helstu átakalínurnar í þessum málaflokkum.  Við Vinstri græn erum reiðubúin til að takast á við hægri sinnaða ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins og munum hvergi draga af okkur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórbergur Torfason

Árni aðalatriðið er að vera samkvæm sjálfum sér, hvort sem kosningar eru framundan eða að baki. Látið viðsnúning Samfylkingar og Framsóknar eftir kosningar og stjórnarmydun ykkur víti til varnaðar verða. Verið trúir ykkar stefnu og byrjið á að leggja fram frumvarpið um endurskoðun og/eða niðurfellingu eftirlaunalaganna til handa æðstu embættismönnum þjóðarinnar. Einhverja ljótustu sjálftöku launa sögunnar.

Þórbergur Torfason, 1.10.2007 kl. 20:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband