12.10.2007 | 16:11
Tjarnarkvartettinn - til hamingju
Nýr meirihluti tekur við í borgarstjórn Reykjavíkur á þriðjudag. Það eru vissulega mikil tíðindi, og góð, að samstaða hafi náðst um nýjan meirihluta sem byggir á félagshyggju, almannahagsmunum, m.a. í orkumálum, lýðræði og umhverfisvernd. Þessi meirihluti hefur á bak við sig atkvæði rúmlega 57% borgarbúa, meðan fráfarandi meirihluti hlaut aðeins stuðning 49% í síðustu borgarstjórnarkosningum. Það mátti því draga í efa að þar væri raunverulegur meirihluti á ferðinni.
Við þessi einstæðu tíðindi í borgarstjórn, ganga svikabrigslin á víxl. Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sem hefur verið í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í 16 mánuði, segir andrúmsloftið innan þess flokks hafa verið óbærilegt og það hafi ekkert annað verið í stöðunni en að slíta meirihlutasamstarfinu. Líklega eru ástæður flokkadráttanna í Sjálfstæðisflokknum afar djúpstæðar og teygja sig inn í raðir æðstu forystunnar. Það vekur vissulega athygli að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi ekki verið reiðubúinn að standa við bakið á borgarstjóra sínum, heldur fórna honum í raun með opinberum fundahöldum með forystu flokksins, án borgarstjóra. Þetta eru ekki sannfærandi vinnubrögð og von að Framsóknarflokknum hafi ekki þótt þau á vetur setjandi.
Samstarf félagshyggjufólks í borginni árin 1994-2006 var farsælt. Þar kom saman fólk úr ýmsum flokkum og óháðir einstaklingar einnig. Nú tekur við störfum nýr meirihluti á öðrum grunni en grundvallarhugsjónirnar eru eftir sem áður félagshyggjan og almannahagsmunir, velferð, lýðræði og mannréttindi, umhverfisvernd og virðing fyrir náttúrunni. Það eru ánægjuleg tíðindi og vonandi verður boltinn frá Reykjavík látinn rúlla víðar.
Engum blöðum er um það að fletta að framganga Svandísar Svavarsdóttur, oddvita Vinstri grænna í borgarstjórn, hefur skipt sköpum í þeirri atburðarás sem við höfum fylgst með undanfarið. Hún hefur sýnt og sannað að þar fer sterkur leiðtogi sem talar frá hjartanu og í takt við almenning í borginni. Pólitísk sannfæring hennar og kjarkur hefur nú skilað nýjum meirihluta í borgarstjórn. Enginn einn einstaklingur á jafn mikinn þátt í þessum tíðindum og Svandís, þótt vissulega hafi fleiri komið að málum á ýmsum stigum. Hún hefur áunnið sér traust og virðingu borgarbúa og ég er sannfærður um að í þeim vandasömum störfum sem bíða, mun hún bara vaxa enn frekar. Henni og samstarfsfólki hennar í borgarstjórn fylgja árnaðar- og baráttukveðjur.
Björn Ingi: Það var ekkert annað að gera í stöðunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mig langar að benda þér á síðuna mína. Nokkrir fjöryrkjar erum farin af stað með undirskriftarsöfnun vegna óréttlátra skerðinga hjá Trst. þætti vænt um ef þú gæfir þér tíma til að lesa textann á undirskriftarskjalinu.kær kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 17.10.2007 kl. 19:40
Þú værir líka kannski til í að deila þessu með vinum þínum þar sem þú ert með marga bloggvini.
Ásdís Sigurðardóttir, 17.10.2007 kl. 19:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.