Geysir Green geysist áfram - veruleikafirring?

Útvarpið ræddi við forstjóra Geysis Green Energy í fréttum í kvöld.  Þar kemur fram að forstjórinn telur að skipun stýrihóps um orkumál, framtíð og hlutverk Orkuveitunnar, og síðustu atburði varðandi sameiningu REI og GGE, breyti engu. Atburði sem almenningi í borginni blöskrar og sem felldi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur.

Er engu líkara en forstjóri GGE hafi enga tilfinningu fyrir þeirri umræðu sem hefur átt sér í samfélaginu eða sé algerlega ónæmur fyrir gagnrýni.  Auðvitað verður forstjórinn að átta sig á því að hinn meinti ólögmæti eigendafundur í REI 3. október gat varla skuldbundið borgarbúa.  Þeir sem áttu hlut að þeim fundi hafa nú flestir viðurkennt að þar hafi ekki verið staðið rétt að málum og það þurfi að endurskoða málin frá grunni.  Ætlar forstjóri GGE að hunsa þau viðhorf?  Starfar forstjórinn á eigin vegum eða í umboði eigenda?  Væri ekki rétt hjá forstjóranum að taka mið af því sem þeir sem fara með stjórn borgarinnar eru að segja?  Eða eru viðbrögð forstjórans enn eitt dæmið um það sem kalla mætti veruleikafirringu stjórnendanna í REI/GGE-málinu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

Því miður eru allir flokkar sammála í að svæfa samvisku þjóðarinnar.

Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 19.10.2007 kl. 21:21

2 Smámynd: TómasHa

Er þetta ekki nákvæmlega í höndum VG þessa stundina?  Þarf ekki ykkar pólitíski fulltrúi þá núna að senda Þessum mönnum skilaboð um hvað menn ætla sér?

TómasHa, 19.10.2007 kl. 22:53

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Auðhringarnir ætla sér að sölsa undir sig orkuna, sem og aðrar sameiginlegar auðlindir og það verður gert með lagaþófi og flækjum rétt eins og gerðist í kvótaharmleiknum á sínum tíma.  Þetta fer fyrir dómstólana af þeirra frumkvæði og algerlega ófyrirséð hvorum megin girðingar þetta fjöregg lendir.  Umræðan öll er komin í farveg, sem beinir ljósinu frá meginatriðinu: Hvert er markmið auðhringanna? (að sölsa undir sig Orkuveituna og auðlindir´hennar, í nokkrum áföngum.  Hvað verður um hagnaðinn? Hann lendir ekki í vasa borgaranna, heldur verða þessar auðlindir notaðar sem veð í matadorspili þessara manna og þegar illa fer, þá eignast erlendir auðhringar þetta.  Það er markmið þeirra. Þess vegna er verið að dæla fjármagni hér inn. Til að kippa því út aftur.

Læt hér fylgja með athugasemd mína af öðrum stað, sem kannski skýrir mál mitt betur:

 

Sem dæmi um klúður þá vil ég segja ykkur hvernig við misstum fiskinn í hendur einkaaðila:  Ríkið setti á kvótakerfi til að stýra fiskveiðum í verndunarskyni og deildi ákveðnum fiskveiðiheimildum réttlátlega niður á útgerðarfyrirtæki, svo sem jöfnust dreifing yrði á aflanum.  Þegar það hafði gert það, þá vildi fyrirtæki á snæfellsnesi eignfæra kvótann sinn í bókhaldi til að geta notað sem veð í fjárfestingum sínum og uppbyggingu, enda var þetta þeirra skammtur óumræðanlega.  Ríkið sagði nei og málinu var vísað í hæstarétt.  Hæstiréttur sagði já og nú áttu gátu menn bókfært þennan kvóta í krónutölum og varð þetta því formleg eign útgerðarinnar.  Svo vildu menn flytja þennan afla á milli skipa og byggðarlaga og sögðu ríkið ekki hafa rétt að setja hömlur á né ráðstafa eignum sínum.  Alþingi samþykkti það enda ekki annað hægt samkvæmt gildandi lögum. Því fór sem fór og kvótinn gekk kaupum og sölum og safnaðist á færri hendur og lagði smærri byggðarlög nánast í eyði. Nú er kvótinn orðinn veð í fjárfestingum og lántökum nokkurra mógúla, sem eru að fjárfesta í allt öðru en útgerð.  Þeir eru að kaupa símafyrirtæki í Búlgaríu og sútunarverksmiðjur í Mongólíu og lakkrís í Kína (grínaktugt sagt).

Kvótakerfi hafði þau áhrif að auki að þegar menn máttu bara veiða ákveðnar tegundir og fengu að auki betra fyrir stærri fiska af þeirri tegund, þá fóru þeir að henda öðrum tegundum til að fá ekki sektir og einnig smáfiski til að auka verðmæti þess sem kom að landi.  Þar með voru fiskverndarsjónarmiðin, sem lágu að grunni, farin fyrir bí og raun komin í andhverfu sína.Að lokum má þó nefna að það stendur hvergi í lögum að það megi selja kvóta, beinum orðum, þótt það sé gert.

S.s. hvað sem lýðræðið vill og alþingi samþykkir, þá á viðskiptaheimurinn lagakróka uppi í erminni til að sölsa undir sig auðlindir í almannaeign.  Því segi ég eins og nafni minn Sigurðsson:  "Eigi skal víkja."  Þetta á ekki einu sinni að vera til umræðu, hvað þá að keyra svona samþykktir í gegn á nokkrum dögum.

Enn til áréttingar og einföldunar: Kvótaklúðrið er komið til fyrir einn hæstaréttardóm í bókhaldsreglum, sem pínulítið fyrirtæki höfðaði. Ég efast um að hæstiréttur hafi séð fyrir sér þá keðjuverkan, sem þessi dómur leiddi af sér og mér er því mikið til efs um að ósérfróðir borgarfulltrúar sjái afleiðingar sinna ákvarðanna í OR málinu, hvað þá í þeim ótrúlega flýti, sem á öllu var. Dæmin sanna það raunar.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.10.2007 kl. 02:54

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það skal á það benda að fjárfestingar þessara Mógúla á erlendri grundu eru nánast algerlega fjármagnaðar af erlendum bönkum, sem hafa heimsyfirráð á stefnuskrá sinni og hlutast opinberlega til um afskipti af innanríkismálum landa og stríðsrekstri.  Hér eru yfir 700 milljarðar af skammtímaskuldbindingum þessara spekúlanta, sem að nafninu til eru að gera út á hátt vaxtastig hér enda vextir orðin helsta útflutningsgreinin.  Davíð og Geir ráða engu lengur. Þeirra er að halda stýrivaxtablöðrunni þaninni, því ef þessir vextir lækka, þá verður þessum skuldbindingum sagt upp með skömmum fyrirvara og kröfurnar innheimtar. Veðin eru í landgæðum og fasteignum hér og lenda þau því í höndum þessara lánadrottna, sem með tíð og tíma verða lénsherrar þessa lands og við þeirra leiguþý.  Það sem er undir hér er sjálfstæði og og sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar. 

Embættismenn þessarar þjóðar fljóta sofandi að feigðarósi, blindaðir af græðgi.  Hvernig væri að fara að líta á þessa hluti í stærra samhengi í stað þess að gleyma sér í stagli um aukaatriðin og í sökudólgaleit, sem engu skilar.  Þetta ferli, sem ég lýsi gengur sinn gang á meðan.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.10.2007 kl. 03:09

5 Smámynd: Sævar Helgason

Tek undir hvert orð og þá meiningu sem orðin hafa, í athugasemdum frá Jóni Steinari R.

Því miður er það svo að þessir fjármálamógúlar eru langt á undan með sín verk og sína framtíðarsýn en okkar stjórnmálamenn og geta því hirt af okkur allan þjóðarauðinn eins og hann leggur sig og eru að gera það. Við erum í svipaðri stöðu og Rússland undir stjórn Jeltsin , þegar svona fjármálamóngúlar þar í landi sölsuðu undir sig öll auðævi landsins sem einhverju máli skiptu. Rússar fengu þó Pútín sem er að endurreisa landið og endurheimta auðævi þess. Er einhver von til að við fáum einhverja slíka frelsishetju okkur til bjargar ?

Hrokinn sem fram koma hjá forstjóra Geysi green nú í vikunni þar sem hann lýsti því að stýrihópur Orkuveitunnar skipti nákvæmlega engu máli ...málið væri frágengið og framtíðin væri Geysis green, sýnir ástandið svona í hnotskurn..kjörnir stjórnmálamenn skipta þessa menn engu máli ..eða hvort fundir séu löglegir eða ekki, þeir fara sínu fram og komast upp með það.

Ég held að við, þessi þjóð, séum búinn að missa þetta allt útúr höndunum á okkur. Við höfum engin þau lög í landinu sem taka á þeim  sem eru að hirða þetta allt af okkur og  flytja úr landi með einum eða öðrum hætti. Okkur vantar stjórnmálamenn með bein í nefinu...prófkjör flokkanna leiða slíka menn ekki til vegs. Við sjáum það í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna svo dæmi sé tekið.

Sævar Helgason, 20.10.2007 kl. 09:50

6 Smámynd: Þórir Kjartansson

Frábærir pistlar Jón Steinar. Auðvitað er þetta mergurinn málsins.

Þórir Kjartansson, 20.10.2007 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband