Kærleikurinn umber ALLT - tækifæri kirkjunnar

Kirkuþing stendur nú yfir.  Samkvæmt fréttum og m.a. því sem haft er eftir biskupi, munu málefni samkynhneigðra verða talsvert til umræðu.  Hin íslenska þjóðkirkja hefur fram að þessu streist á móti því að vígja samkynhneigt fólk í hjónaband eins og gagnkynhneigt.

Það var fróðlegt málþing haldið í Þjóminjasafninu í gær um þessi málefni og mörg áhugaverð erindi flutt.  Fjarvera biskups og helstu forvígismanna kirkjunnar var æpandi.  En sem betur fer eru starfandi innan þjóðkirkjunnar margir prestar sem láta sig málefni samkynhneigðra varða og vilja að kirkjan sýni kærleik sinn í verki og mæti samkynhneigðu fólki á sama grundvelli og öðrum einstaklingum.  Þeir eiga heiður og hrós skilið fyrir framsýni, réttsýni og kjark.

Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður Vinstri grænna, hefur ásamt þingmönnum úr tveimur öðrum stjórnmálaflokkum, lagt fram frumvarp á Alþingi sem gerir ráð fyrir að í landinu gildi ein hjúskaparlög, þar sem hjónaband verði skilgreint sem hjúskapur tveggja einstaklinga (án kyngreiningar).  Í því felst mikil réttarbót en umfram allt snýst það um jafnrétti.  Að tveir einstaklingar geti stofnað til hjónabands ef þeir svo kjósa og það eigi bæði við um hjónaband karls og konu en einnig um hjónaband einstaklinga af sama kyni.

Grundvöllur kristinnar trúar er kærleikurinn.  Þjóðkirkja sem snýr baki við tilteknum hluta þjóðarinnar og treystir sér ekki til að horfa á alla þegna sína jafnt, heldur vill mismuna þeim, getur ekki staðið undir nafni sem þjóðkirkja.  Í fyrra bréfi Páls til Korintumanna standa þau fleygu orð sem ég vísa til í fyrirsögninni um kærleikann: "Hann ... umber allt.  Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi." [1. Kor. 13:7]

Þjóðkirkjan hefur nú tækifæri á yfirstandandi kirkjuþingi til að sýna í verki að hún umberi allt líkt og kærleikurinn.  Mun hún grípa það tækifæri - eða missa það úr höndum sér?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er farinn að halda að þessirprelátar, séu Kaþólikkar undir mótmælendaskinni.  Viðhorfin virðast verða forpokaðri með ári hverju.  Maðu þyrfti að minna þá á hina klassísku spurningu: "Hvað myndi Jésús gera?"

Jón Steinar Ragnarsson, 20.10.2007 kl. 17:06

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Jesús myndir gera það sama og Árni Þór, en ég er í vafa um að hann myndi ganga í Vinstri Græna. Þeir umbera ekki allt. Hvenær varð Jesús, faðir hans og hinn heilagi andi að fyrirmynd gamalla MH-Stalínista?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 20.10.2007 kl. 17:36

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Góður punktur Vilhjálmur.  Kannski er þetta bara Jesúítalöggan.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.10.2007 kl. 17:42

4 Smámynd: Gísli Kristjánsson

Skrítið en ég hélt að Kirkjan kenndi samkvæmt biblunni, þar sem segir Guð elskar syndarann en hatar syndina og þar er ekki boðið uppá málamiðlun, þess vegna hlýtur að vera spurning hvort ekki sé tíma bært að kirkjan hætti hreinlega að hafa biblíuna að leiðarljósi og noti Marx eða einhvern annan snilling til að kenna eftir. Og til að svara Jóni Steinari þá myndi Jesú segja " Ég fyrirgef þér syndir þínar far þú og syndga ekki framar"

Gísli Kristjánsson, 20.10.2007 kl. 19:15

5 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Bara smá athugasemdi til míns gamla skólafélaga, Vilhjálms Arnar.  Ég hef ekkert verið að tala um fyrirmyndir mínar í þessu efni, en mér finnst engu að síður að hin íslenska þjóðkirkja eigi að prédika í anda kærleiksboðskaparins.  En fyrir áhugamenn um trúmál get ég upplýst að ég er í Fríkirkjusöfnuðinum í Reykjavík.

Árni Þór Sigurðsson, 20.10.2007 kl. 19:43

6 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Fyrst að þú ert lifandi trúaður maður þá má benda á eitt að það að umbera allt þýðir ekki að maður sé fylgjandi því. Kirkjan umber þjófa, morðingja og marga fleira en það þýðir samt ekki að hún sé samþykk þeirra gjörðum

Magnús V. Skúlason, 20.10.2007 kl. 20:21

7 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Árni,

nennirðu nokkuð að senda á mig e-póstfangið hans Steina.

Ég er með e-mail = asgeir.helgason@sll.se

Kveðja: ásgeir r.

Ásgeir Rúnar Helgason, 20.10.2007 kl. 20:25

8 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Sem sagt; þingmaðurinn trúir því raunverulega að ósýnilegur og óskýranlegur kall í himninum hafi 1) látið umboðsmenn sína á jörðinni skrifa trúarrit sem hefur síðan tekið ótal breytingum og fölsunum vegna ruglanda, ofstækis og hatursáróðurs og 2) ungað út syni sínum hér á jörðinni. Er það rétt skilið?

Baldur Fjölnisson, 20.10.2007 kl. 21:20

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Magnús, fordæmir kirkjan þá hvernig samkynhneigðir elskast en umber það að þeir skuli hafa þessar tilfinningar og langanir?  Er ekki tvískinnungur í því? Ætlar kirkjan kannski að vera í hjónaherbergjum landsmanna og hafa eftirlit með hinni mekkanísku athöfn?  Ætli athafnir gagnkynhneigðra séu allar samkvæmt hinum kirkjulega prótokolli? Ætlar kirkjan kannski að hafa stjórn á hugsunum fólks líka?  Dæmið ekki, segir einhverstaðar...því með þeim mæli sem þér mælið, mun yður og mælt verða. Og svo...elska skaltu náungann eins og sjálfan þig.  Og...iðkið ekki réttlæti yðar öðrum til sýndar.  

Hvað með lesbíurnar, nú er Páll ekkert að agnúast út í þær né bókin í heild sinni. Þýðir það að þær séu þóknanlegar?  Hér eru þið að hjakka á orðum postula, sem er að tyfta agalausann söfnuð sinn og gera orð hans að orðum Guðs.  Er ekki varað við því að leggja Guði orð í munn? Það fer óánægjubylgja um heim preláta í dag yfir Biblíuþýðingunni, sem rýrir tilefni kirkjufeðranna til fordæmingar og aðskilnaðar.  Mikil vonbrigði...

Jón Steinar Ragnarsson, 20.10.2007 kl. 22:36

10 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Vegna ýmissa ummæla sem hér falla vil ég bara undirstrika að ég er fyrst og fremst að hvetja kirkjuna til að lifa og starfa í takt við þjóðina. 

Árni Þór Sigurðsson, 20.10.2007 kl. 23:10

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Afsaka ef ég hef verið harðorður, en mér finnst fordæming og dómharka kirkjufeðranna misbjóða skynsemi manna.  Ég er tek þó undir málamiðlun og orð þíns sóknarprests og gefur hann manni von um að þessi vitfirring komist á einhvern skynsemsgrunn með tíð og tíma.  Hér er drepið á einu atriði en það er margt, sem misbíður í þessari svokkölluðu góðu bók. Hér er nokkuð harðort myndband, en ég get ekki annað en tekið undir rök þessi.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.10.2007 kl. 23:38

12 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Árni Þór, hún getur það ekki án þess um leið að afneita eigin kenningu. Hún hefur verið á eilífum flótta undan þessarri einföldu staðreynd síðustu 1500 árin amk. og ofsótt og drepið og pyndað á undanhaldinu. Þetta er fastsett kenning og þolir alls enga afslætti. Það er stóra kreppan. Þessi ágæti og almáttugi guð gerði ekki ráð fyrir því að heimurinn breyttist og viðhorf manna og lífsstíll þar með. Það er grundvallarfeill sem bendir sterklega til þess að hann sé ekki til.

Baldur Fjölnisson, 21.10.2007 kl. 00:04

13 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Eigum við ekki að hvetja þjóðina til að lifa og starfa í takt við kirkjuna, þá myndi margt vera betra í henni veröld.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 21.10.2007 kl. 14:52

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tek undir það með Heimi. Ég var farinn að halda, að Árni hafi orðið fyrir trúarvakningu, en þá hafði ég ekki gert nema rétt að hlaupa gegnum sum innleggin. Ég sé það á svari hans kl. 23.10 í gærkvöldi og á greininni sjálfri, að ég hef ekkert fyrir mér í því, að Árni sé orðinn gagnkristinn. Myndi þó fagna því, ef fram kæmi. En fyrst vil ég byrja á því að leiðrétta hann um eitt. Það er Kristur, sem er grundvöllur kristinnar trúar (m.a. skv. orðum Páls postula), ekki einhver kærleikur, sem menn geta túlkað hver eftir sínum hætti. Guð er að vísu kærleikur, og kalla má hann grundvöll kirkju og trúar, en það er sá kærleikur, sem birtist umfram allt í Jesú Kristi. Hann felldi ekki lögmálið úr gildi, en þegar hann fyrirgaf í sínum kærleika, t.d. hórseku konunni (Jóh.8), bætti hann við: "Far þú, og syndga ekki upp frá þessu." -- Varðandi samkynja kynmök eru þau með öllu bönnuð og dæmd alvarleg synd, ekki aðeins í Gamla tedstamentinu, heldur Nýja testamentinu líka. Kirkjan á að standa föst á sínum grundvelli, sem er Kristur og hin postullega kenning. Í sjálfu Fyrra Korintubréfinu, sem Árni vitnar til, standa afar alvarleg orð um þá, sem iðka samkynja kynmök, í 6. kafla, 6.9-10 (en bent á útleiðina og fyrirgefninguna í 6.11). Hér er líka texti fyrir Árna og aðra að hugleiða: "Vér vitum, að lögmálið er gott, noti maðurinn það réttilega og viti að það er ekki ætlað réttlátum, heldur lögleysingjum og þverbrotnum, óguðlegum og syndurum, vanheilögum og óhreinum, föðurmorðingjum og móðurmorðingjum, manndrápurum, frillulífismönnum, karlmönnum sem hafa samfarir við karlmenn, mannaþjófum, lygurum, meinsærismönnum, og hvað sem það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu. Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs, sem mér var trúað fyrir." I. Tímótheusbréf 1.8-11. Sjá um rökstuðning fyrir þessari þýðingu á þessari vefslóð.

Jón Valur Jensson, 21.10.2007 kl. 15:43

15 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Orðið hjón hefur ekkert með trúmál að gera.Ekki heldur orðið par.Orðið hjón þýðir einfaldlega tvo einstaklinga af gagnstæðu kyni sem bindast böndum, hvort sem þeir fara til prests eða ekki.Þeir geta líka verið í dýraríkinu.Fidel Castró datt í hug að setja lög um að Jólunum skyldi frestað.Það var hlegið að honum um allan heim.Það verður hlegið að Alþingi um allan heim ef það setur lög um að tveir karlmenn séu karl og kona eða tvær konur, kona og karl eða tvær konur séu tveir karlar eða tveir karla tvær konur.Það er ekki hægt að breyta staðreyndum. 

Sigurgeir Jónsson, 24.10.2007 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband