31.10.2007 | 10:44
Samgöngunefnd fjalli um framkvæmd vegalaga
Í gær sendi ég formanni samgöngunefndar Alþingis, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, bréf og fór fram á að nefndin fjallaði um framkvæmd vegalaga og fullyrðingar um að í farvatninu sé að flytja verkefni í vegamálum frá ríki til sveitarfélaga. Fréttir um það hafa komið sveitarstjórnarfólki mjög á óvart.
Nú hefur formaður nefndarinnar tilkynnt að málið verði tekið til umfjöllunar á næsta fundi nefndarinnar sem verður í næstu viku. Er full ástæða til að þakka nefndarformanni fyrir skjót viðbrögð við beiðni minni.
Einstakir sveitarstjórnarmenn hafa vaknað upp við vondan draum nú að undanförnu á fundum sínum með Vegagerð ríkisins, en þar hefur komið fram að á grundvelli nýrra vegalaga undirbúi Vegagerðin að flytja ábyrgð tiltekinna þjóðvega í þéttbýli yfir á herðar sveitarfélaganna. Þetta kemur í opna skjöldu, enda hefur engin umræða farið fram um málið á vettvangi sveitarfélaganna og því síður að samningar hafi verið gerðir milli ríkis og sveitarfélaga um verkefnaflutning, tekjustofna o.s.frv. Því er nauðsynlegt að samgöngunefnd taki málið til sín og ræði hvort gera þurfi lagabreytingu eða fresta tilteknum ákvæðum vegalaga (sem voru afgreidd í hamaganginum rétt fyrir kosningar) meðan tóm gefst til að skoða málið til hlítar og afleiðingar þess.
Bréfið sem ég sendi formanni samgöngunefndar er svohljóðandi:
Formaður samgöngunefndar Alþingis
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Beiðni um umræður í samgöngunefnd um vegalögUndirritaður fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í samgöngunefnd óskar hér með eftir því að nefndin taki til umfjöllunar hið fyrsta framkvæmd vegalaga og skilgreiningar og skiptingu þjóðvega í flokka skv. vegalögum. Mikilvægt er, m.a. í ljósi viðbragða frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, að samgöngunefnd fjalli um hvort vegalögin sem samþykkt voru sl. vor, gefi heimildir fyrir flutningi verkefna og útgjalda frá ríki til sveitarfélaga og hvort nauðsynlegt reynist að gera breytingar á lögunum.
Er þess jafnframt óskað að a.m.k. fulltrúar Vegagerðarinnar, Sambands ísl. sveitarfélaga og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu o.fl. verði kallaðir fyrir nefndina til umfjöllunar um málið.
Reykjavík, 30. okt. 2007
Árni Þór Sigurðsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.