Sami rassinn...

Það hefur lítið breyst hér á landi með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar.  Sem minnir á að það er ekki nema hálf ríkisstjórnin ný, helmingurinn er gamla liðið úr Sjálfstæðisflokknum.  Nýja spennandi nútímalega framfarakynslóðin í Samfylkingunni reynist jafn þreytt og hallærisleg og forverar hennar í ríkisstjórn úr öðrum stjórnmálaflokki.

Fyrir skemmstu var gagnrýnt að fjármálaráðherra, í skikkju dóms- og kirkjumálaráðherra, hefði skipað Þorstein Davíðsson dómara, fyrst og fremst út á reynslu hans sem aðstoðarmanns Björns Bjarnasonar.  Þvert á umsögn þar til bærrar nefndar sem metur hæfi umsækjenda um dómarastöður.  Þar óð Árni Mathiesen drulluna í þágu flokksmaskínu Sjálfstæðisflokksins, líkt og Björn Bjarnason hafði áður gert við skipun hæstaréttardómara.  Ef umsækjandinn Þorsteinn hefði verið talinn í hópi þeirra hæfustu hefði málið snúið öðruvísi, en hæfnisnefndin hafði þvert á móti komist að þeirri niðurstöðu að umsækjandinn væri ekki í 1. hæfnishópi heldur þeim 3ja.  En svona er Sjálfstæðisflokkurinn vanur að fara með völdin.

Ungir jafnaðarmenn voru í hópi þeirra sem gagnrýndu embættisveitinguna.  Nú vill svo til að einn af ráðherramyndum Samfylkingarinnar skipar í tvö embætti nú um áramót.  Bæði sæta þau gagnrýni svo ekki sé meira sagt.  Iðnaðarráðherra skipar orkumálastjóra og ferðamálastjóra.  Í fyrra tilvikinu gengur hann framhjá vel hæfum starfandi orkumálastjóra og velur einn af vildarvinum síns nánasta ráðgjafa.  Nú skal það ekki rengt að viðkomandi er áreiðanlega hæfur til starfsins en er ekki full langt seilst til að koma "sínu" fólki að?  Ungri og efnilegri, vel menntaðri konu sem þar að auki hefur reynslu af starfinu er hafnað.  Ég bíð enn eftir viðbrögðum ungra jafnaðarmanna.

Félag háskólamenntaðra ferðamálafræðinga gagnrýnir einnig skipun ferðamálastjóra.  Þar er bent á að gengið sé fram hjá nokkrum umsækjendum sem hafa aflað sér sérmenntunar í þessari atvinnugrein sem er sívaxandi í íslensku atvinnulífi.  Í þeim hópi eru einstaklingar sem hafa bæði mikla menntun og ekki síður umfangsmikla starfsreynslu úr ferðaþjónustu, bæði af markaðsmálum, landkynningu, landvörslu og leiðsögn, rekstri og stjórnun.  En allt kemur fyrir ekki.  Viðkomandi höfðu greinilega ekki rétta flokkslitinn.

Í ljósi digurbarkalegra yfirlýsinga forystu Samfylkingarinnar, m.a. í hinum frægu Borgarnesræðum, um misbeitingu Sjálfstæðisflokksins á opinberu valdi og loforðum um að Samfylkingin boði betri tíð í þeim efnum, vekur framganga iðnaðarráðherra furðu, eða er kannski sami rassinn undir báðum stjórnarflokkunum?  Augljóst er að ráðherrann gerir hvað hann getur til að gera formanni Samfylkingarinnar lífið leitt.  En klúðrið er hans, ætli fólk hafi almennt gleymt yfirgangi hans og dónaskap þegar hann rak veiðistjóra úr embætti á aðfangadag hér um árið þegar hann var umhverfisráðherra, ef að líkum lætur í "bloggástandi"?  Sá sem ástundar slík vinnubrögð rís ekki undir þeirra ábyrgð sem fylgir ráðherrastarfi.  Á því ber Samfylkingin ábyrgð.


mbl.is Gagnrýna ráðningu nýs ferðamálastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Nýja kynslóðin ha hvað?

Flestir ráðherrar Samfó eru nú af Glaumbæjarkynslóðinni.

Hinir umsækjendur um starf Ferðamálastjóra voru EKKI í forsvari fyrir Röskvu og EKKI innvígðir í Mussuliðið.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 8.1.2008 kl. 10:40

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

" Þar óð Árni Mathiesen drulluna í þágu... ".  Mér þykir þú efni í Bessastaðabónda Árni Þ. Sigurðsson.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 8.1.2008 kl. 10:47

3 identicon

Ég vil eiga þig áfram í pólitík Árn minn. En alveg sama hvaða flokkur hefur verið við völd deilur hafa alltaf skapast um mannaráðningar. Það er meðgöngutími sem liðinn er frá stofnun ríkisstjórnar. Fæðingarhríðirnar byrjaðar og þú munt fara að sjá velferðarlitinn á þessari stjórn áður hringt verður inn í alþingissalinn.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 13:53

4 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Kæri Árni! Svona er það og hefur alltaf verið...Islenskur almenningur kann ekki að mótmæla stjórnvöldum en þau eru ÖLL spillt og tala máli sínu eingöngu í sínum málum...Ég held að þú hafir fengið bréf frá mér dagsett.4. nóvember 2003...http.//mal214.goglepages.com...Ekkert svar hef ég fengið frá þér. ennþá...Já Árni...það er sami rassinn undir öllum stjórnmálamönnum .

Guðrún Magnea Helgadóttir, 8.1.2008 kl. 20:14

5 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Árni og gleðilegt ár,

vissulega má segja að það sé sami rassinn undir öllum stjórnmálamönnum, sama hvar í flokki þeir eru, það hittir þá sjálfan þig fyrir. Án þess að ég ætli mér að verja ráðningar Össurar eða Árna á nokkurn hátt þá verð ég þó að benda á að það er miklu meira en blæbrigðamunur á þeim ráðningum sem þú fjallar um í annars ágætum pistli. Ég ætla ekki að gera lítið úr starfi ferðamálastjóra eða orkumálastjóra en skipun dómara í héraðsdóm dálítið meira og vandmeðfarnara mál en hinar stöðurnar tvær.

Vissulega má gagnrýna Össur fyrir að skipa svokallaða flokksgæðinga í starfið, en það er þó óumdeilt að ég tel að þau sem voru skipuð eru bæði vel hæf til að sinna því starfi sem þau eru skipuð í og voru meðal hæfustu umsækjenda.

Hitt málið er allt annars eðlis, þar sem gengið er framhjá 3 mjög hæfum einstaklingum (1. flokkur) og maður í 3. flokki skipaður í starfið. Það má alveg láta Þorstein Davíðsson Oddssonar njóta sannmælis og við verðum að gæta okkar á því að það bitni ekki á honum að vera sonur föður síns. Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem ég beið eftir rökstuðningi setts dómsmálaráðherra í málinu og ... almáttugur minn, hvað meinar ráðherrann með að að Þorsteinn Davíðsson verði betri dómari af því að hann er varamaður í nefnd í Reykjavík sem aldrei hefur komið saman og að hann situr í dómnefnd um úthlutun styrkja úr sjóði Tómasar Guðmundssonar!!!!  Oft hef ég glott illilega við svona tíðindi en að þessu sinni skellti ég uppúr!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 8.1.2008 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband